Málefni aldraðra
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Frsm. 1. minni hl. heilbr.- og trn. (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Fundur var hafinn þegar ég kom inn í deildina en eins og hæstv. forseta var kunnugt stóðu yfir fundir í menntmn. beggja deilda hér í húsinu og þess vegna missti ég af upphafi ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. sem er formaður og frsm. nefndarinnar í þessu máli. Ég vænti þess að ég hafi ekki misst af neinu sem skiptir máli og ég teldi mig þurfa að svara hér. En það sem vakti athygli mína var þegar hún var að reyna að réttlæta þetta mál, að ekki hefði verið minnst á skerðingarákvæði þessa sjóðs í lánsfjárlagafrv., þ.e. það ætti að falla niður, í gær þegar verið var að fjalla um það frv., sem auðvitað hefði verið eðlilegur hlutur, a.m.k. að komið hefði fram í framsögu þegar verið var að mæla fyrir nál. um frv. að þetta gæti átt eftir að breytast. En það var ekki minnst á það einu orði.
    Hins vegar vil ég minna á það að formaður fjh. - og viðskn., hv. 5. þm. Reykv., sem mælti fyrir þessu nál., undirritaði það með fyrirvara. Þegar hann hafði lokið framsögu sem formaður nefndarinnar hóf hann ræðu sem nefndarmaður með fyrirvara. Það voru einmitt þessi atriði sem hann var að gera fyrirvara um og gagnrýna, eins og reyndar fleiri þingmenn hafa gert og það er ekki í fyrsta sinn, eins og hv. 4. þm. Reykn. kom hér réttilega inn á, það er ekki að gerast í fyrsta skipti að verið er að skerða ýmsa sértekjustofna á þessu þingi. Það kemur fyrir æ ofan í æ. Það er heldur ekki í fyrsta skipti sem ég gagnrýni slíkt því að ég hef ávallt gert athugasemdir við þetta. Mér finnst það siðlaust vægast sagt að marka sérstaka tekjustofna í sérstök verkefni eða setja á nefskatta og síðan er verið að taka af þessu fjármagni og nota í ríkiskassann til allt annarra hluta, jafnvel til þess að kaupa dagblöð út um allt land handa fólki til að lesa. Þetta vil ég láta koma fram.
    Það sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði og ég gat ekki alveg fellt mig við var að það væri eðlilegt að ekki var minnst á þetta í umræðum um lánsfjárlögin í gær vegna þess að það var svo óljóst um afdrif þessa máls. Hvað í ósköpunum var óljóst um afdrif þessa máls? Formaður nefndarinnar, hv. 5. þm. Norðurl. e., sagði á nefndarfundi í gærmorgun þegar ég gerði athugasemd við að það væri verið að taka málið úr nefndinni að ekki væri gerð tilraun til að halda annan fund og þá löglegan, að það væri engin ástæða til þess, einfaldlega vegna þess að stjórnarliðar styddu allir þetta frv. og það þyrfti ekki stuðning stjórnarandstöðunnar. Það var svo einfalt mál. Og hvað var þá óljóst? Ég leyfi mér nú bara að spyrja um það. Ég get ekki séð hvað er óljóst. Þegar stjórnarliðar ætla að koma hér málum fram vita þeir að það verður samþykkt, enda skrifuðu nefndarmenn, sem aldrei tóku þátt í störfum nefndarinnar, undir nál. Þetta vil ég láta koma hér fram.
    Hv. 4. þm. Reykn. kom hér inn á mjög athyglisverð mál sem við höfum auðvitað oft velt fyrir okkur og margir gagnrýnt, sem er eðlilegur hlutur og það

er þetta annríki á síðustu dögum fyrir jólahlé, að það væri ástæða til þess að setja tímamörk á framlagningu mála fyrir jólin alveg eins og fyrir þinglok. Ég vil taka undir þetta með honum. Mér finnst að það væri kannski leið að sett væru tímamörk á t.d. þau stjfrv. sem hæstv. ráðherrar eða ríkisstjórn ætlar sér að fá afgreidd fyrir jólahlé, að það yrðu hreinlega sett tímamörk, hvað þau mættu leggjast fram skömmu fyrir jól. Því að það er náttúrlega ekki nokkurt einasta vit í því að það er verið að boða alls konar frv. sem eiga að samþykkjast fyrir jólahlé og þau eru kannski lögð fram hér á síðustu dögum eða jafnvel síðasta degi og eiga þá að fara í gegnum sex umræður hér bókstaflega eins og hendi væri veifað. Þetta höfum við margsinnis rekið okkur á og mér finnst full ástæða til að taka undir þessi orð hv. 4. þm. Reykn., að tekið verði til skoðunar hvernig er hægt að koma í veg fyrir slíka endemis vitleysu.
    Það kom fram hjá hv. 14. þm. Reykv. hvernig staða sjóðsins er. Og núna þegar verið er að tala um að verið sé að auka fé til sjóðsins með því að hætta við að skerða, að það sé einhver bót á sama tíma og á að auka verkefnin, að þetta sé einhver lausn. Hvað um það sem sjóðurinn hefur skuldbundið sig til og stendur frammi fyrir sem skiptir 1 -- 2 milljörðum sem vantar fjármagn í til að standa við skuldbindingar, sem sjóðurinn skuldar nú þegar, auk þess sem liggur fyrir að hann þarf að sinna á næstu árum, kannski upp á 1 1 / 2 milljarð eða svo ef ég man tölurnar rétt sem eru þó ónákvæmar? Þetta vildi ég nú aðeins láta koma fram hér og að lokum að taka undir með hv. 14. þm. Reykv. og benda stjórnarliðum á það að þeim gefst tækifæri til þess að staðfesta að það sé rétt sem hefur komið fram hér í ræðum að fella eigi niður skerðingarákvæðið ef þetta frv. verður að lögum. Til þess að flýta afgreiðslu þess er besta leiðin að samþykkja okkar brtt. Ef þetta á að gerast með þeim hætti að lánsfjárlögin eigi eftir að koma hingað til okkar aftur þá veit ég ekki hvenær við ætlum að ljúka þingstörfum.