Húsnæðisstofnun ríkisins
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég óska eftir að fá félmrh. í þingsal. Ég vil fyrst vekja athygli á því að ég fékk í hendur í húsakynnum þingsins sérprent af lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem er útgefið í nóvember 1990. Þetta sérprent er ranglega útgefið. Það felur ekki í sér lögin eins og þau eru núna og það er með tilvísanir sem eru villandi og beinlínis rangar. Þetta mál var tekið upp í Sþ. Ég man ekki betur en að hæstv. forseti hafi þar mælst til þess að þetta sérprent yrði dregið til baka. Man ég þetta vitlaust, hæstv. forseti? Var ekki forsetaúrskurður um það að þetta sérprent yrði ekki lengur í opinberri dreifingu? Ég óska eftir að fá upplýsingar um það áður en ég held lengra ræðu minni. ( Forseti: Ég var ekki viðstaddur þann fund þar sem um þetta var fjallað og þori ekki um það að segja. Hins vegar reyndi starfsfólk Alþingis að verða við beiðni hv. þm. um upplýsingar og aðstoð og lagði sig fram um það og notaði þá þetta gagn m.a. í þeim tilgangi einum.) Ég held að hæstv. forseti rugli saman tveimur málum. Ég er annars vegar að tala um það að forseti Sþ. var búinn að mæla fyrir um það að sú sérprentun sem ég fékk afhenta hér á skrifstofunni yrði tekin úr umferð. Og spurning mín lýtur að því hvort forsetar Alþingis hafi fylgt því eftir að hæstv. félmrh. sæi til þess að þessi sérprentun yrði tekin úr umferð. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvort það hafi verið gert. Ég sá það tilsýndar í einhverju blaði í dag að hæstv. félmrh. hafi verið duglegur á ríkisstjórnarfundi. Ég skal ekki fara alveg með það hver voru hin einstöku atriði þess máls, en ég man til þess að hæstv. félmrh. hafi hótað að segja sig úr ríkisstjórn en því miður ekki látið af því verða. Nú spyr ég bæði forseta --- forsetar hafa verið með skriflega úrskurði og bréflega úrskurði upp á síðkastið, ekki rétt? Nú bið ég hæstv. forseta um að verða mér úti um það bréf sem forsetar hafa skrifað í framhaldi af úrskurði forseta Sþ. í sambandi við það að þetta sérprent yrði tekið úr umferð. Má vera að ég muni vitlaust um úrskurðinn.
    Síðan ætla ég að víkja aðeins að frhn. félmn. og víkja að einstökum efnisatriðum í því og lesa, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nefndin hefur komið saman eftir afgreiðslu frv. við 2. umr. til þess að ræða tillögur um breytingar á frv. Á fund nefndarinnar kom Berglind Ásgeirsdóttir ráðuneytisstjóri. Félmrn. hefur bent á að við setningu laga nr. 70/1990 hafi láðst að fella brott ákvæði í lögunum um Húsnæðisstofnun en þá fækkaði lánaflokkum Byggingarsjóðs ríkisins um tvo. Lán til almennra kaupleiguíbúða voru felld undir Byggingarsjóð verkamanna en lán til heilsuspillandi íbúða voru felld niður, sbr. 2. gr. laga nr. 70/1990 sem afnam 5. og 10. tölul. 11. gr. laga nr. 86/1988. Hins vegar voru viðeigandi ákvæði um fyrrgreind atriði í sjálfum efnisköflum laganna ekki felld brott og því gerð tillaga um nýja grein við frv. sem ætlað er að bæta úr þessu. Er hér um lagahreinsun að ræða.``
    Hæstv. félmrh. er kominn í símann. Ég óska eftir

því að þessari umræðu verði frestað. Ég tel að ef ráðherra getur ekki verið við þessa smástund sem ég spyr hann sé eins gott að fresta umræðunnni fram yfir jól. Við erum að tala um alvörumál.
    Nú óska ég eftir því að fá upplýst hjá formanni félmn. hvort það var ráðuneytisstjóri félmrn. eða hvort það er skoðun nefndarinnar að hér sé um lagahreinsun að ræða í fyrri lið brtt. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að það komi alveg skýrt fram. Eins og þetta er lagt upp í félmn. er svo að sjá sem hæstv. félmrh. hafi sent ráðuneytisstjóra sinn á fund nefndarinnar til að skýra henni frá hvaða skoðun hún hefði á gagnsemi þess kafla í lögum um Byggingarsjóð ríkisins sem fjallar um heilsuspillandi íbúðir.
    Nú er ég algerlega á öndverðum meiði við félmn. varðandi þann sérstaka kafla sem fjallar um lán til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að hér í sérprenti laga um Húsnæðisstofnun ríkisins frá því í nóvember er kaflaheiti ,,Lán til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði``. Síðan er vísað í neðanmálsgrein og þar stendur: ,,Lán til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði voru felld niður með 2. gr. laga nr. 70/1990.`` Kaflinn er inni í lögunum. Það liggur alveg ljóst fyrir. Það stendur skýrum stöfum í lögum að heimilt sé að veita sveitarstjórnum og öðrum sem með skipulegum hætti vinna að útrýmingu heilsuspillandi íbúðarhúsnæðis í sveitum lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Það stendur skýrum stöfum í þessum lögum.
    Á síðasta þingi og síðan núv. ráðherra fór í embætti félmrh. hef ég ekki mjög beitt mér fyrir breytingum á húsnæðislánakerfinu þar sem ég hef talið það þýðingarlaust. Ég vil á hinn bóginn leggja áherslu á að þau ákvæði sem hér er að finna hafa sum hver haft þýðingu eða gætu hafa haft þýðingu ef húsnæðisyfirvöld hefðu beitt þessu úrræði þar sem það á við. Ég ætla að lesa þetta upp, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Lán til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði geta verið með eftirtöldum hætti:
    a. Lán skv. 1. tölul. 11. gr. til byggingar íbúða handa fólki sem býr í heilsuspillandi íbúðum. Lánskjör eru hin sömu og á öðrum lánum skv. þeim tölulið.
    b. Viðbótarlán skv. 21. gr. þessara laga.
    c. Lán til byggingar leiguíbúða skv. IV. kafla þessara laga um leiguíbúðir sveitarfélaga. Gilda þá ákvæði 75. gr. varðandi lánskjör og aðra skilmála.
     Heimilt er að greiða þessi lán út með sama hætti og greinir í 1. mgr. 17. gr.
    21. gr. Nú sækir sá sem vinnur að útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis um viðbótarlán úr Byggingarsjóði ríkisins skv. b - lið 20. gr. til þess að byggja eða kaupa íbúð handa fólki sem býr í heilsuspillandi húsnæði að dómi læknis eða heilbrigðisfulltrúa í viðkomandi sveitarfélagi og skal þá húsnæðismálastjórn heimilt að veita lán allt að 70% af hámarksláni skv. b - lið 13. gr. Aldrei mega þau lán samanlagt þó nema hærri fjárhæð en 70% af byggingarkostnaði. Lán skv. þessari mgr. skal greiða í tvennu lagi ef um nýbyggingar er að ræða. Fyrri hluta lánsins má greiða þegar íbúðin er fokheld, en síðari hlutann þegar hún hefur verið tekin í notkun og hlutaðeigandi sveitarstjórn lagt fram vottorð bæjarfógeta eða sýslumanns um að fyrri íbúð viðkomandi fjölskyldu hafi verið tekin úr notkun.
    Lán þessi skulu veitt gegn 1. veðrétti í viðkomandi íbúð samhliða láni skv. 1. tölul. 11. gr. en gegn 2. veðrétti að jafnaði ef keypt er notuð íbúð.
    Lánstími skal vera allt að 26 árum. Um lánskjör gilda að öðru leyti ákvæði 30. gr.
    22. gr. Húsnæðismálastjórn er heimilt að veita lán úr Byggingarsjóði ríkisins til þess að endurbyggja heilsuspillandi húsnæði sem hagkvæmt er talið að endurnýja að mati byggingarfróðra manna sem Húsnæðisstofnun ríkisins og viðkomandi sveitarstjórn tilnefnir.
    Skulu matsmenn gera úttekt á húsnæðinu og gera kostnaðaráætlun um nauðsynlegar endurbætur.
    Lán þessi mega nema allt að 70% af viðgerðarkostnaði en þó aldrei hærri upphæð en 70% af hámarksláni skv. a - lið 1. mgr. 13. gr.
    Lánið skal veitt gegn 2. veðrétti að jafnaði, en heimilt er að miða við tiltekið hlutfall brunabótamats eða fasteignamats. Lánstími má vera allt að 26 árum, en um lánskjör fer að öðru leyti eftir ákvæðum 30. gr.``
    Sérstaklega hef ég talið að 22. gr. væri þýðingarmikil í lögunum. Það er að vísu búið að umsnúa svo húsnæðislögunum að erfitt er að hafa jafnan í huga heildarmynd af því hvernig þau verka. Hér stendur að vísu neðanmáls, eins og hinum megin, að þessar tvær greinar eigi ekki lengur við. 22. gr. húsnæðislaganna hefur verið felld úr gildi einhliða af hæstv. félmrh. og starfsmönnum hennar. En þá langar mig til að spyrja bæði formann félmn. og hæstv. félmrh. í staðinn: Hvaða önnur ákvæði eða úrræði eru það sem þeir ætlast til, þessir ágætu hv. fulltrúar á Alþingi, að komi í stað 22. gr.?
    Heilsuspillandi húsnæði getur verið á ýmsum stöðum. Það þarf ekki endilega að vera í Hafnarfirði. Það getur verið sums staðar annars staðar og það þarf ekki endilega að vera í Reykjavík eða öðrum stærstu bæjum landsins. Það þarf heldur ekki að vera í þéttbýli. Það getur verið úti á landi, það getur verið í sveit. Og það má líka vera að úrræðin séu ódýrari fyrir alla aðila, bæði ríkið og þann sem í íbúðarhúsnæðinu á að búa, þá sé hægt að fá ódýrari úrræði til þess að breyta íbúð sem er heilsuspillandi í góða íbúð með því að vinna að endurbótum og nauðsynlegu meiri háttar viðhaldi á íbúð. Þetta held ég að allir viti. Hitt er auðvitað auðvelt, að slá því föstu að alltaf séu einhverjir tilbúnir til að koma á hvern
stað á landinu, hvar sem hann er, og byrja á því að byggja frá grunni einhverja rúmgóða íbúð sem er með frágenginni lóð, sem er með teppum út í öll horn og helst með tvö salerni og segja að þetta geti komið í staðinn fyrir hina heilsuspillandi íbúð. En hver borgar að lokum þann reikning? Og hvernig verður það? Það er nauðsynlegt að fá um þetta upplýsingar.
    Ég lýsi því yfir að það er rangt sem stendur í nál.

að hér sé um lagahreinsun að ræða. Hér erum við að tala um efnisatriði og það hlýtur að vera sérstakt athugunarefni í þinginu hvort réttara sé að fella inn í upptalningu á nýjan leik í 11. gr. heimild til að lána til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, hvort það sé réttara eða hvort hitt sé leiðin, að gera því fólki erfitt fyrir sem býr í slíkum húsum ef þessir hv. fulltrúar hér á Alþingi eru að tala um það að það eigi að vera úrræði fyrir fólkið í heilsuspillandi íbúðum að fá húsbréf sem eru með 12,33% afföllum síðast þegar ég vissi. Það eru ýmsir sem spá því að raunvextir haldi áfram að hækka, ávöxtunarkröfur að aukast, þannig að þess vegna má búast við að afföll af húsbréfum verði enn meiri á næsta ári. Auðvitað er öldungis ljóst, hvað sem líður útúrsnúningi um það hver beri afföll þegar um skipti á íbúðum er að ræða eða kaup á íbúðum, að sá sem tekur húsbréf til að standa straum af endurbótum á sínu eigin húsi, sá sem tekur við húsbréfum til þess að reyna að dreifa vaxta- og greiðslubyrði sinni vegna skammtímalána verður að standa undir afföllunum á húsbréfunum. Þar erum við að tala um, ef ég man rétt, að vextir af húsbréfum eru nú 6,5%. Og eru það úrræði hæstv. heilbrrh. og félmrh. og er það úrræði formanns félmn. eða frsm. félmn. að reka þetta fólk á kaldan klaka í þessum efnum? Ég held að við þessu verði að fást alveg skýr og ákveðin svör.
    Ég vil líka spyrja hæstv. forseta: Ef sú skoðun nefndarinnar er rétt, að þetta sé allt saman misskilningur af því að ákvæðið sem ég er að tala um sé í landslögum og það megi bara setja strik yfir þau ákvæði í lögunum, því í ósköpunum er þá verið að prenta ákvæðin hér í þessum pappírum með neðanmálsgreinum? Til hvers?
    Auðvitað er það hneyksli, auðvitað gengur það ekki, auðvitað er það fráfararatriði fyrir ráðherra þegar hann leyfir sér að gefa út sérprentun af lögum og sérprentunin er með þeim hætti að hún er viljandi höfð öðruvísi en landslög eru samþykkt á þinginu. Þeir mega svo yfir kaffibolla, einstakir embættismenn ráðherrans, snakka um það hvað þeim finnst vera rétt að Alþingi samþykki og þeir geta þar verið að velta vöngum yfir því hvernig á því standi að Alþingi skuli ekki samþykkja lögin í samræmi við það sem höfundar lagafrv. hefðu viljað.
    Í síðari lið brtt. er talað um að í stað orðanna ,,skv. 2. mgr. 102. gr.`` komi: skv. 101. gr. Í lagatextanum eins og hann er hér stendur 101. gr., í þessum lagatexta hér. Því spyr ég frsm. nefndarinnar: Ef frsm. telur það ekki ámælisvert hvernig félmrn. hefur gengið frá sinni sérprentun, af hvaða ástæðu telur frsm. nefndarinnar nauðsynlegt að vera að flytja brtt. ef augljóst er að um prentvillu er að ræða í frumvarpstexta frá Alþingi?
    Í 2. mgr. 102. gr. segir: ,,Við endursölu íbúðar [þ.e. félagslegrar íbúðar] skal framreikna upphaflegt kostnaðarverð hennar eða síðasta söluverð skv. vísitölu lánskjara frá gerð kaupsamnings til söludags. Frá því verði skal draga 1,5% fyrningu fyrstu 20 árin en 0,75% eftir það fyrir hvert eignarhaldsár. Við framreiknað verð íbúðarinnar má bæta kostnaðarverði endurbóta sem á henni hafa verið gerðar.``
    Í 101. gr. stendur --- án þess að ég hafi borið þetta saman tölulega: ,,Frá greiðslu til seljanda skal draga fyrningu 1,5% fyrstu 20 árin en 0,75% eftir það af framreiknuðu verði íbúðarinnar fyrir hvert eignarhaldsár.``
    Þar er talað um framreiknað verð íbúðarinnar fyrir hvert eignarhaldsár en í 2. mgr. 102. gr. segir: ,,Við endursölu íbúðar skal framreikna upphaflegt kostnaðarverð hennar eða síðasta söluverð skv. vísitölu lánskjara frá gerð kaupsamnings til söludags.`` þar segir einnig: ,,Við framreiknað verð íbúðarinnar má bæta kostnaðarverði endurbóta sem á henni hafa verið gerðar.``
    Sú hugsun er einnig í 101. gr. Það er öðruvísi orðað þar, þar stendur: ,,Við kaup íbúðar skal seljandi hennar fá endurgreitt það fjármagn sem hann lagði fram við kaup íbúðarinnar og þeirra afborgana sem hann hefur greitt af láni Byggingarsjóðs verkamanna frá því kaupsamningur var gerður. Við greiðslur þessar bætast verðbætur skv. vísitölu lánskjara frá greiðsludegi til söludags.``
    Þar segir einnig að vanræksla á viðhaldi íbúðar frá og með gerð kjarasamnings skuli einnig koma til frádráttar frá greiðslu seljanda samkvæmt samkomulagi eða að mati sérstakra matsmanna.
    Hvor reglan sem höfð er og hvernig sem á þetta mál er litið er auðvitað ljóst að þarna er vandræðagangurinn mikill, mjög mikill. Eitt atriði er það náttúrlega sem er algjört eitur í beinum þeirra sem meðhöndla lögin og það er að endursöluverð íbúðar sé eitthvað í tengslum við markaðsverðið. Það er bannað. Nú skulum við aðeins velta fyrir okkur um hvað við erum að tala hér. Við erum að tala um það að sumir eigi kost á því að fá íbúðir með 90% láni til 50 ára með 1% vöxtum. Aðrir fá húsbréf. Munurinn á vaxtakjörunum, þó maður taki nú ekki greiðslukjörin í heild sinni, hjá þeim sem fá húsbréfin og hjá hinum sem fá 1% vexti svarar til um 60 þús. kr. mánaðartekna. Menn þurfa að þéna 60 þús. kr. á mánuði a.m.k. til viðbótar ef þeir fá fyrirgreiðslu í frjálsa kerfinu með húsbréfunum heldur en ef þeir kaupa í félagslega kerfinu. Er ég þá að tala um 6 millj. kr. lán. Samkvæmt þessu hér á að gulltryggja endursöluverð þeirra íbúða sem eru með hinum góðu kjörum. Ef viðkomandi fær lán til 50 ára með 1% vöxtum á að gulltryggja endursöluna. Þá á að miða við upphaflegt kostnaðarverð íbúðar. En ef maðurinn hefur greitt háa vexti af láninu, ef hann hefur orðið að sætta sig við 12,33% afföllin, ef hann verður að greiða 7 -- 7,5% raunvexti af sínum lánum, þá gerist það í fyrsta lagi að hann verður að hafa svo miklar tekjur að hann fær engan vaxtaafslátt --- og hef ég ekki tekið það inn í þær tölur sem ég er að tala um. Í öðru lagi verður hann að hafa 700 þús. kr. til viðbótar í árstekjur, bara til þess að vinna upp þann vaxtamun sem er á þessum tveim lánsformum hins opinbera húsnæðislánakerfis. Þannig er það.
    Ég óska eftir því að frsm., sem talar um að þarna

sé einungis um mistök að ræða, skýri fyrir mér efnislega hvers vegna 102. gr. geti ekki átt við b-lið. Ég óska líka eftir því að hæstv. félmrh. skýri það fyrir mér hvernig félmrn. geti komist að þeirri niðurstöðu að 2. mgr. 102. gr. laganna geti ekki átt við. Mér virðist sú málsgr. vel geta átt við í sambandi við 100. gr. og get ekki undir neinum kringumstæðum séð að ráðherrann né embættismenn hans hafi haft neina heimild til þess að hafa vit fyrir Alþingi í þessu máli.
    Ég veit svo ekki, hæstv. forseti, hvort ástæða sé til að hafa þetta mikið lengra. Þetta er auðvitað gömul aðferð hér í þinginu ef koma á í gegn málum svo lítið beri á að rúlla þeim inn í þingið sem leiðréttingarmálum á næstsíðasta degi fyrir jólin. Í þessu sérstaka máli standa sakir þannig að ég hef ekki fengið í hendur hjá þinginu þau lög sem eiga við um Húsnæðisstofnun ríkisins eins og Alþingi gekk frá þeim, heldur einungis sérprentið frá því í nóvember 1990 sem forseti Sþ. hefur kveðið upp úr um að skuli tekið úr umferð. Því er deilt út hér á Alþingi. Eftir stendur hjá hæstv. félmrh. að gera grein fyrir því hvaðan ráðuneytinu komi sú viska að um prentvillu hafi verið að ræða hjá Alþingi þegar vitnað var í 2. mgr. 102. gr. og hvaðan félmrh. komi sú viska og ég vil segja, það vald, að kveða upp úr með það að ekki megi lána úr Byggingarsjóði ríkisins lán samkvæmt kaflanum um útrýmingu heilsuspillandi íbúða til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum.
    Við frsm. fjh.- og viðskn. vil ég aðeins segja: Við vorum saman í húsnæðisnefnd sérstakri þegar sá kafli var tekin inn í lögin og við lögðum það til að inn í lögin væri tekin sérstök grein, sem nú er 22. gr., þar sem gert var ráð fyrir því að aðstoða þá sem sjálfir búa í heilsuspillandi íbúðum til þess að fá lán til hæfilega langs tíma til þess að bæta sín húsakynni og var talið að í því fælist sparnaður á þjóðfélagslega vísu, hollusta og réttlæti fyrir almenning í landinu. Að sínu leyti fellur að vísu kaflinn um lán til orkusparandi breytinga á húsnæði undir þessa grein en meira þarf til að koma eins og þeir vita sem eru kunnugir úti um sveitir landsins.
    Ég vil mælast til þess að þær sérstöku brtt. sem er dengt hér inn á síðustu stundu undir því yfirskini að verið sé að leiðrétta stimpilgjald verði felldar nú við 3. umr. málsins og Alþingi taki upp efnislega athugun á þessum álitamálum sem hér er verið að tala um því það er öldungis ljóst að ef það hefði legið fyrir við 2. umr. málsins að hæstv. félmrh. væri hér að koma í veg fyrir það að Byggingarsjóður ríkisins gæti sinnt þeim sem búa í heilsuspillandi íbúðum hefði ég búið mig mun betur undir þá umræðu en mér er fært nú á síðasta degi þegar þannig stendur á að maður er sendur hér á milli fundarstaða, þarf helst að vera á fleiri en einum fundi í einu og getur ekki setið þá fundi til enda sem haldnir eru. Ég vil því mælast til þess að frsm. félmn. lýsi því yfir eða hafi fund með nefndinni þar sem nefndin leggur til að frv. verði breytt í sitt fyrra horf. Fyrir því er fordæmi í sögu þingsins að slíkt sé gert. Ég man eftir því að það var gert við 3. umr. frv. um grunnskóla á vorþinginu

1970, gert til sátta þegar ekki var tími til þess að fara efnislega ofan í brtt. sem kom fram á síðustu stundu og snerti ekki efni þess máls sem verið var að tala um. Hér er málinu þannig farið að það er verið að lauma inn atriðum sem er meginefni og tilgangi stjfrv., eins og það var lagt fram, fullkomlega óviðkomandi.