Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndarálit á þskj. 446 frá fjh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Nál. er á þessa leið:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt.``
    Undir þetta rita Guðmundur Ágústsson, Jóhann Einvarðsson, Skúli Alexandersson, Eyjólfur Konráð Jónsson og Eiður Guðnason. Guðrún J. Halldórsdóttir og Halldór Blöndal voru fjarstödd afgreiðslu málsins.
    Hér er um að ræða frv. um ívilnun til þegnanna. Frv. felur í sér að persónufrádráttur hækkar frá því sem nú er. Einnig er talað um að barnabætur og barnabótaauki hækki hlutfallslega og fleiri atriði er varða skatt einstaklinga.
    Þetta mál fékk afgreiðslu í Nd. og skrifuðu allir nefndarmenn þar undir. Leggur fjh.- og viðskn. til að þetta frv. fái sömu afgreiðslu í þessari deild.