Lánsfjárlög 1991
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1991. Þetta frv. er með hefðbundnu sniði. Þar er í fyrsta lagi að finna lántökuheimildir fyrir ríkissjóð og önnur atriði sem tengjast afgreiðslu fjárlaga og hefur frv. fengið í Ed. þann búning sem tekur mið af þeirri afgreiðslu fjárlaga sem fram undan er hér á næstu sólarhringum. Í öðru lagi er að finna í frv. ýmsar aðrar lántökuheimildir sem samkvæmt venju þurfa að fara hér í gegnum lánsfjárlög á Alþingi. Og í þriðja lagi er að finna í frv. ýmis ákvæði sem eru í hefðbundnu formi og tengjast tekjustofnaafgreiðslu fjárlaga á fjölmörgum sviðum.
    Ég vil þó geta þess að þau svokölluðu ,,þrátt fyrir - ákvæði`` sem snerta Framkvæmdasjóð aldraðra og Framkvæmdasjóð fatlaðra munu taka breytingum í samræmi við afgreiðslu Alþingis á frumvörpum um þessa sjóði þar sem hlutverki þeirra verður breytt og þeir munu þá fá að fullu þá tekjustofna sem þeim eru ætlaðir.
    Í sjálfu sér er hægt að hafa bæði langt mál og stutt um þetta frv. Ég kýs hins vegar að hafa hina stuttu útgáfu í þetta sinn. Málið hefur verið afgreitt í Ed. og í samræmi við góða stjórnarhætti tel ég æskilegt og reyndar nauðsynlegt að frv. verði afgreitt samhliða fjárlagafrv. á þessu þingi. Í reynd er hér um að ræða fylgifrv. með fjárlagafrv. og væri í sjálfu sér æskilegt í framtíðinni að breyta skipan þingsins á þann veg að sami aðilinn fjalli um hvort tveggja.
    Ég mælist svo til þess, virðulegi forseti, að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh. - og viðskn.