Fangelsi og fangavist
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Frsm. meiri hl. allshn. (Jón Kristjánsson) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. allshn. um frv. til laga um breytingu á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48 19. maí 1988.
    Nefndin fjallaði ítarlega um frv. og fékk á sinn fund Þorstein A. Jónsson, deildarstjóra í dómsmrn., Harald Johannessen, forstöðumann Fangelsismálastofnunar, og Birgi Kjartansson, formann Verndar. Umsagnir bárust skriflegar frá Fangavarðafélagi Íslands, Fangelsismálastofnun og Landssambandi lögreglumanna.
    Sérstaklega var kannað hvort setja eigi tímamörk á úrskurð dómsmrn. um kæru á ákvörðun um einangrun eða agaviðurlög. Einnig hvort rétt sé að fangi geti kært ákvörðun forstöðumanns um agaviðurlög til Fangelsismálastofnunar og síðan ákvörðun stofnunarinnar til dómsmrn. en Fangelsismálastofnun hefur óskað eftir slíku fyrirkomulagi. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til frv. og skilar minni hl. nefndarinnar séráliti.
    Hvað varðar tímamörk til að kveða upp úrskurð um kæru er meiri hl. nefndarinnar sammála um að setja dómsmrn. tveggja sólarhringa frest til þess eftir að gögn málsins hafa borist. Gögnin skulu send ráðuneytinu þegar eftir að úrskurður um agaviðurlög eða einangrun er kveðinn upp. Þannig er reynt að tryggja að fangi sæti ekki óréttmætum agaviðurlögum nema í þann skamma tíma sem rannsókn málsins á að taka. Ef úrskurður um kæru er ekki kveðinn upp innan tímamarkanna falla ákvarðanir forstöðumanns um agaviðurlög eða einangrun niður. Meiri hl. nefndarinnar telur að þessi breyting á frv. tryggi rétt fanga eins vel og kostur er á og flytur því tillögu um hana.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem hann gerir tillögu um á sérstöku þskj.
    Eins og áður segir þá klofnaði nefndin í afstöðu sinni til frv. en ágreiningsefnið var um það hvort fangi geti kært ákvörðun forstöðumanns um agaviðurlög til Fangelsismálastofnunar og síðan ákvörðun stofnunarinnar til dómsmrn.
    Friðjón Þórðarson var fjarstaddur við afgreiðslu málsins, en undir nál. rita Jón Kristjánsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Guðni Ágústsson, Rannveig Guðmundsdóttir og Ingi Björn Albertsson.
    Á þskj. 361 eru fluttar brtt. frá meiri hl. allshn. um að við 1. mgr. bætist tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: ,,Þegar ákvörðun er kærð skulu gögn málsins þegar send ráðuneytinu. Ráðuneytið skal taka ákvörðun innan tveggja sólarhringa frá því að kæra barst, ella fellur ákvörðun úr gildi.``
    Í öðru lagi. Við b-lið 2. gr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: ,,Þegar ákvörðun er kærð skulu gögn málsins þegar send ráðuneytinu. Ráðuneytið skal taka ákvörðun innan tveggja sólarhringa frá því að kæra barst, ella fellur ákvörðun úr gildi.``
    Ég hef þegar gert grein fyrir þessum brtt.
    Varðandi þá refsifanga sem nú sitja í fangelsi og hafa sætt einangrun skv. 26. gr. núgildandi laga um

fangelsun og fangavist vill meiri hl. nefndarinnar taka það fram að hann er fylgjandi því að einangrun verði ekki látin lengja refsitíma fanga sem hafa sætt einangrun nú þegar. Þar sem þetta má gera með stjórnvaldsaðgerðum og í trausti þess að slíkt verði gert á þann veg telur meiri hl. óþarft að setja sérstök bráðabirgðaákvæði um þessa fanga.
    Minni hl. nefndarinnar mun gera grein fyrir sinni afstöðu hér á eftir og brtt. sem fluttar eru við málið.