Samskiptamiðstöð heyrnarlausra
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að dvelja lengi hér í ræðustól vegna þessa máls. Ég vil einungis koma hér til þess að lýsa ánægju minni með að þetta frv. skuli fram komið því að þetta er gríðarlegt framfaraspor fyrir heyrnarskerta í landinu. Það er ekki nema hálft ár síðan ég bar einmitt fram fsp. hér í þinginu um samskiptamiðstöð og um viðurkenningu á íslensku táknmáli. Sú formlega viðurkenning hefur ekki átt sér stað enn þá, en engu að síður felst í þessu frv. viðurkenning á þeirri sérstöðu heyrnarskertra og heyrnarlausra að íslenskt táknmál er þeirra fyrsta tungumál. Ég held að ef vel verður á málum haldið eigi þetta eftir að gjörbreyta aðstæðum þessa hóps og gera þeim kleift að berjast sjálfir af meiri getu fyrir sínum málefnum því að það er vissulega víða pottur brotinn í málefnum heyrnarskertra á Íslandi.
    Ég held að það hafi þegar verið til þess stofnað að menntmn. Nd. taki á þessu máli í dag og fái til viðtals við sig nokkra aðila vegna þessa máls en ég held að það verði ekkert því til fyrirstöðu að það fari hér í gegnum þessa deild núna fyrir jólin og finnst mér það vel við hæfi og gleðilegt ef Alþingi Íslendinga gæti fært þessum hópi þessa samskiptamiðstöð í jólagjöf.