Ferðaþjónusta
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ferðaþjónustu. Það er á þskj. 363 og er 246. mál þingsins, lagt fram hér í Nd.
    Sumarið 1989 skipaði ég nefnd til að fjalla um ferðamál á breiðum grundvelli og gera tillögur um opinbera stefnu í ferðamálum og endurskoða lög á sviði ferðamála. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu sem og fólk sem starfar daglega að ferðamálum. Á síðasta þingi var svo flutt hér til kynningar till. til þál. um ferðamálastefnu sem samin var af þessari nefnd og var sú till. endurflutt hér í Sþ. á þessu hausti. Og nú er hér komið fram frv. til laga um ferðaþjónustu en ætlunin er að lög um ferðaþjónustu komi í stað núgildandi laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, og í stað laga nr. 67/1985, um veitinga - og gististaði.
    Eins og fram kom í framsöguræðu minni með till. til þál. um ferðamálastefnu er ferðaþjónusta atvinnugrein í örum vexti hér í landinu. Gert er ráð fyrir að gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum á þessu ári nemi rúmum 10 milljörðum kr. eða rúmum 10% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Hefur þetta hlutfall tvöfaldast á aðeins hálfum áratug. Þá fer ársverkum í greininni stöðugt fjölgandi og nema nú um 5 -- 6% af ársverkum í íslensku atvinnulífi. Það er því sannarlega tímabært að stjórnvöld láti málefni þessarar atvinnugreinar til sín taka með myndarlegum hætti og veiti henni verðskuldaða athygli. Móta þarf opinbera stefnu í ferðamálum og er áðurnefndri þáltill. ætlað það hlutverk.
    Tilgangur þessa frv. sem hér liggur fyrir er að setja ramma um atvinnugreinina, kveða á um verkaskiptingu í greininni milli hins opinbera annars vegar og einkaaðila hins vegar og viðurkenna ferðaþjónustu sem þjóðhagslega mikilvægan atvinnuveg sem getur átt ríkan þátt í að auka fjölbreytni atvinnulífs í landinu og rennt stoðum undir þróun byggðar sem víðast.
    Eins og áður sagði tekur fyrirliggjandi frv. á efnisþáttum tveggja lagabálka, þ.e. laga um skipulag ferðamála og laga um veitinga - og gististaði. Nefndin samdi frv. og ákvað þá að binda sig ekki við texta eða ramma gildandi laga heldur semja nýtt frv. frá grunni til laga um ferðaþjónustu þótt margt væri nýtilegt og ágætt í gildandi löggjöf. Hér verða nefnd helstu nýmæli í frv. í þeirri röð sem þau koma fyrir.
     1. Tilgangur laganna er skilgreindur í sérstökum markmiðskafla og eru markmið hin sömu og í till. til þál. um ferðamálastefnu.
     2. Kveðið er á um árlegt ferðaþing sem ráðgefandi samkomu um málefni ferðaþjónustunnar.
     3. Fækkað er í Ferðamálaráði úr 23 fulltrúum í 9 og ekki gert ráð fyrir framkvæmdastjórn eins og nú er. Ráðherra tilnefnir einn fulltrúa eða formann Ferðamálaráðs eins og verið hefur í stað fimm fulltrúa sem ráðherra hefur tilnefnt áður. Fjórir eru tilnefndir af öðrum aðilum, þ.e. þremur stærstu hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu og Náttúruverndarráði, en fjórir eru svo

kosnir af ferðaþingi.
     4. Verkefni Ferðamálaráðs eru skilgreind og verða þau meira á sviði stefnumótunar en nú er og taka mið af ferðamálastefnu á hverjum tíma.
     5. Skrifstofa ferðamála er skilgreind og fær hún meira sjálfstæði en verið hefur um daglegan rekstur undir forustu ferðamálastjóra.
     6. Kveðið er á um samstarf Ferðamálaráðs við utanrrn. og Útflutningsráð Íslands um landkynningu og markaðsmál.
     7. Heimild er veitt fyrir aðild Ferðamálaráðs að ferða - og upplýsingamiðstöðvum í kjördæmum landsins í samvinnu við heimaaðila.
     8. Ferðamálafulltrúar starfi á vegum ferðamálasamtaka landshlutanna með stuðningi ríkisins.
     9. Mikil áhersla er lögð á umhverfisvernd sem eitt af verkefnum Ferðamálaráðs og Náttúruverndarráði er eins og áður sagði tryggð aðild að ráðinu.
    10. Komið verði á formlegu samstarfi Ferðamálaráðs við opinbera aðila um málefni fjölsóttra ferðamannastaða til að tryggja umhverfisvernd og heimild veitt til að takmarka aðgang að slíkum stöðum.
    11. Markaður tekjustofn vegna Ferðamálaráðs er óbreyttur frá gildandi lögum en skilyrði má setja um mótframlög frá hagsmunaaðilum til einstakra verkefna.
    12. Lánstími lána úr Ferðamálasjóði er lengdur úr 15 árum í allt að 40 ár.
    13. Sett skal á fót sérstök áhættulánadeild við Ferðamálasjóð vegna þróunarverkefna á sviði ferðaþjónustu.
    14. Nýstárleg ákvæði eru um svonefnda ferðamiðlun sem taka m.a. til ferðaskrifstofa, skipuleggjenda ferða, umboðssala og fyrirtækja sem reka tölvukerfi fyrir bókanir og upplýsingar.
    15. Í stað lagaákvæða um flokkun veitinga - og gistihúsa er gert ráð fyrir að setja hliðstæð ákvæði í reglugerð.
    16. Ýmiss konar þjónustu - og afþreyingarstarfsemi fyrir ferðamenn er gerð skráningarskyld.
    17. Meiri áhersla er lögð á neytendavernd en í eldri löggjöf.
    Ekki er kveðið sérstaklega á um fræðslumál í ferðaþjónustu í frv., að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir samstarfi þar að lútandi við menntmrn. Í till. til þál. um ferðamálastefnu er hins vegar fjallað allítarlega um fræðslumál vegna ferðaþjónustu og gert ráð fyrir að stofnað verði til fræðsluráðs ferðaþjónustu samkvæmt heimild í lögum um framhaldsskóla.
    II. kafli frv. fjallar um stjórn ferðamála. Gert er ráð fyrir að samgrn. fari sem hingað til með yfirstjórn ferðamála. Samstarfsnefnd nokkurra ráðuneyta auðveldar samhæfingu varðandi ferðaþjónustu innan Stjórnarráðsins.
    Árlegt ferðaþing verður umræðu - og tillöguvettvangur um málefni ferðaþjónustunnar og setur ráðherra reglugerð um þingið. Ferðamálaráð verður áfram tengiliður milli opinberra aðila ferðaþjónustunnar, en breyting er gerð á skipan ráðsins. Fulltrúum er fækkað í ráðinu úr 23 í 9; verða fimm þeirra tilnefndir til

tveggja ára í senn en fjórir kosnir á ferðaþingi, tveir til skiptis hvert ár. Með þessu verður komist hjá að skipa sérstaka framkvæmdastjórn fyrir Ferðamálaráð og er stjórnkerfi ferðamála þannig einfaldað.
    Kemur stórt ferðaþing og níu manna Ferðamálaráð í stað núverandi 23 manna Ferðamálaráðs og 5 manna framkvæmdastjórnar.
    Greint er með skýrari hætti en nú er milli Ferðamálaráðs sem stefnumarkandi aðila og Skrifstofu ferðamála hins vegar, sem starfar í umboði ráðsins samkvæmt almennum fyrirmælum undir stjórn ferðamálastjóra. Ferðamálastjóri er í senn framkvæmdastjóri Ferðamálaráðs og yfirmaður Skrifstofu ferðamála, skipaður af ráðherra til fimm ára.
    Heimild er veitt til að Ferðamálaráð gerist meðeigandi að ferða - og upplýsingamiðstöðvum í kjördæmum landsins ásamt heimamönnum, þ.e. ferðamálasamtökum, samtökum sveitarfélaga, einstökum sveitarfélögum eða öðrum eftir atvikum. Skulu þær starfa samkvæmt stofnsamningi og hafa sjálfstæðan fjárhag. Hlutverk þeirra er m.a. að hafa með höndum ráðgjöf, vinna að þróun í ferðaþjónustu og miðla upplýsingum. Í tengslum við þær munu starfa ferðamálafulltrúar, ráðnir af ferðamálasamtökum viðkomandi landsluta. Heimild er veitt til að ríkissjóður greiði framlag sem svarar til launa eins ferðamálafulltrúa í kjördæmi. Með framkvæmd þessara ákvæða yrði gjörbreyting á stöðu ferðamála um land allt og er hér um að ræða mikilvæga og róttæka breytingu.
    Staða umhverfismála í tengslum við ferðaþjónustu er treyst til muna. Náttúruverndarráði er ætlað að eiga fastan fulltrúa í Ferðamálaráði og koma skal á fastri samstarfsnefnd á vegum Ferðamálaráðs til að gera tillögur um skipulag og verndun fjölsóttra ferðamannastaða. Í nefndinni er gert ráð fyrir fulltrúum frá nokkrum opinberum stofnunum, svo og frá viðkomandi sveitarstjórn. Í ferðamálastefnu er auk þess fjallað ítarlega um umhverfisvernd í tengslum við ferðaþjónustu, bæði varðandi markmið og leiðir.
    Um fjármögnun er fjallað í III. kafla frv. Ákvæði frv. um tekjuöflun til að fjármagna starfsemi Ferðamálaráðs er óbreytt frá gildandi lögum, þ.e. eigi minna en 10% af árlegri vörusölu fríhafna í landinu. Hér er gert ráð fyrir að fríhöfnum fjölgi í náinni framtíð og gildi þetta ákvæði um þær allar. Eftir sem áður er reiknað með að kostnaður vegna aðalskrifstofu Ferðamálaráðs, laun og almennur skrifstofukostnaður, verði greiddur af ríkissjóði samkvæmt fjárlögum.
    Gert er ráð fyrir að fyrirtæki í ferðaþjónustu leggi fram aukið fé til einstakra verkefna á móti framlögum frá Ferðamálaráði. Í nágrannalöndum, m.a. í Noregi, er nú í vaxandi mæli farið út á þá braut. Ættu slík mótframlög að tengja fyrirtæki betur en nú er einstökum verkefnum og auka heildarfjármagn til þróunarstarfs í ferðaþjónustu.
    Gert er ráð fyrir starfrækslu Ferðamálasjóðs sem stofnlánasjóðs ferðaþjónustunnar með líku sniði og verið hefur. Stefnt verði að mun lengri lánstíma en nú er, þ.e. allt að 40 árum í stað 15 ára hámarks eins

og nú er kveðið á um. Þá eru felld niður ákvæði um sérstakar tryggingar vegna lána í formi fasteignaveða, en sjóðstjórn ætlað að meta stöðu lántakenda hverju sinni.
    Nýmæli er um sérstaka áhættulánadeild við Ferðamálasjóð, er veitt geti lán til þróunarverkefna í ferðaþjónustu. Er gert ráð fyrir samráði sjóðstjórnar og Ferðamálaráðs um þau efni. Einnig mun ráðið sem hingað til tilnefna tvo menn af þremur í stjórn sjóðsins.
    IV. kafli frv. svarar til IV. kafla í gildandi lögum og fjallar um almennar ferðaskrifstofur. Ákvæði hans eru hins vegar mikið breytt og aukið við nýjum þáttum. Við undirbúning málsins var m.a. haft samráð við talsmenn Félags íslenskra ferðaskrifstofa.
    Hugtakið ferðamiðlun er ekki aðeins látið ná yfir hefðbundna starfsemi ferðaskrifstofa heldur hvers konar atvinnustarfsemi á vegum fyrirtækja, félaga og einstaklinga sem miðar að ferðalögum og upplýsingum þar að lútandi. Þannig eru auk ferðaskrifstofa skilgreind hugtökin ferðaskipuleggjandi, ferðaumboðssali og upplýsinga - og bókunarkerfi sem mismunandi rekstrarform. Fæst með því betri yfirsýn fyrir viðskiptavini og unnt er að gera hnitmiðaðri kröfur en ella af opinberri hálfu til viðkomandi starfsemi og ná yfirsýn í þágu neytendaverndar.
    Starfsemi ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda er háð leyfum, sem samgrh. veitir, en ekki er krafist leyfa vegna ferðaumboðssölu og upplýsinga - og bókunarkerfa, þótt gerð séu skráningarskyld og heimild veitt til að gera tilteknar kröfur til slíkrar starfsemi. Um leyfisveitingar eru ítarleg ákvæði sem taka mið af gildandi lögum, en þó með ýmsum nýmælum. Leyfi verða tvenns konar, annars vegar fyrir ferðaskrifstofur og hins vegar fyrir ferðaskipuleggjendur og gefin út tímabundið til eins til fimm ára í senn.
    Gert er ráð fyrir að ferðamiðlarar geti byggt upp tryggingarsjóði á eigin vegum. Aðild að tryggingarsjóði getur auðveldað fyrirtækjum í ferðamiðlun að uppfylla skilyrði um tryggingar.
    Með ákvæðum frv. um ferðamiðlun og afþreyingarþjónustu er leitast við að setja í lög ákvæði sem tryggja neytendavernd á þessu sviði og auðvelda jafnframt yfirsýn og miðlun upplýsinga til hagsbóta fyrir atvinnugreinina.
    Gefin eru ákveðnari fyrirmæli en verið hefur um að leiðsögumenn með tilskilin réttindi skuli að jafnaði vera í hópferðum hérlendis. Er það m.a. æskilegt vegna umgengni við landið og öryggis og þjónustu við fólk í slíkum ferðum. Ráðherra er ætlað að kveða nánar á um þessi efni í reglugerð. Fyrir liggur að í nokkrum Evrópulöndum eru sett hliðstæð skilyrði um leiðsögumenn í hópferðum og áskilin réttindi til leiðsagnar í viðkomandi landi.
    V. kafli frv. kemur að mestu í stað núgildandi laga um veitinga - og gististaði. Sú leið var valin, m.a. að höfðu samráði við Samband veitinga - og gistihúsa, að fella ákvæði laga um veitinga - og gistihús inn í frv. um ferðamál, en frá 1926 hafa verið í gildi sérlög á þessu sviði. Með þessari breytingu er staðfest það viðhorf að hótel - og veitingarekstur sé hluti af ferðaþjónustu. Rekstur veitinga - og gististaða nýtist vissulega staðbundnu umhverfi í ríkum mæli, en er jafnframt einn af grunnþáttum ferðaþjónustu. Rekstur veitinga - og gististaða verður áfram leyfisbundinn eins og ferðamiðlun og ýmis ákvæði, m.a. um eftirlit og neytendavernd, eru hin sömu um þessa starfsemi.
    Engar róttækar breytingar eru gerðar á ákvæðum laga um veitinga - og gististaði. Nokkur atriði sem óljós eru í gildandi lögum eru gerð skýrari og um önnur er gert ráð fyrir reglugerðum í stað þess að binda þau í lögum. Á það m.a. við um flokkun veitinga - og gististaða.
    Þá er í kaflanum ákvæði um skráningarskyldu afþreyingarþjónustu sem rekin er í atvinnuskyni fyrir ferðamenn, þar á meðal útleiga á tækjum af ýmsu tagi, hestaleigur og rekstur skemmtigarða. Er það nýmæli og gert ráð fyrir heimild til ráðherra að setja reglugerð um slíka starfsemi, er tilgreini nánar hvaða rekstur falli undir skráningarskyldu, svo og kröfur um hollustu og öryggi og annað er lýtur að neytendavernd.
    VI. kafli ber yfirskriftina Eftirlit og upplýsingaskylda. Efni þessa kafla er að mestu nýmæli þar eð engin ákvæði hafa verið í lögum um ferðamál um almennt eftirlit með framkvæmd laga á þessu sviði. Hér er gert ráð fyrir að samgrn. sinni slíku eftirliti í samvinnu við þau embætti, stofnanir og samtök sem veita leyfi eða hafa eftirlitsskyldu samkvæmt ákvæðum sérlaga.
    Sett er á fót sérstök kvörtunarnefnd til að fjalla um og skera úr um ágreiningsmál sem neytendur koma á framfæri við nefndina vegna samskipta við fyrirtæki í ferðaþjónustu. Slíkt fyrirkomulag hefur um skeið verið reynt með samkomulagi ferðaskrifstofa og Neytendasamtakanna og þótt gefa góða raun. Hér er kvörtunarnefnd ferðaþjónustu veitt lagastoð sem úrskurðaraðila til að styrkja neytendavernd á þessu sviði.
    Um VII. kaflann, Ýmis ákvæði, tel ég ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega hér.
    Herra forseti. Ég vil undirstrika að ég tel að hér sé afar brýnt og mikilvægt mál á ferðinni. Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning þessa máls. Nefndin sem frv. samdi hefur átt viðræður við fjölmarga hagsmunaaðila og er þeirra getið í fskj. Það hefur einnig verið gott samráð við stærstu hagsmunasamtök í ferðaþjónustu og er það von mín að breið samstaða geti tekist um þetta frv. hér á hv. Alþingi.
    Ég vil færa nefnd þeirri, svonefndri ferðamálanefnd samgrn., sem í raun hefur með nefndri till. til þál. um ferðamálastefnu og frv. því sem hér er mælt fyrir lokið viðamiklum störfum sínum, kærar þakkir fyrir hennar framlag á þessu sviði.
    Ég vil svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. samgn. og 2. umr.