Ferðaþjónusta
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég þakka forsetum fyrir liðlegheit við að koma þessu máli áfram og vonandi til nefndar fyrir jólaleyfi. Ég held að það sé mikilvægt fyrir þann frumvarpsbálk sem hér er á ferðinni að hann komist strax til umfjöllunar í þinginu með þeim hætti.
    Ég leyfi mér að fullyrða að það séu bundnar talsverðar vonir við það víða í ferðaþjónustunni að af þessum lagabreytingum og skipulagsbreytingum í stjórn þessara mála verði. Hvort sem þær verða að endingu í ákvörðunum Alþingis nákvæmlega þær sem hér er lagt til eða með eitthvað breyttum hætti er ég sannfærður um og veit það reyndar að víða í ferðaþjónustunni binda menn vonir við að þessi gagngera endurskoðun á lögum og skipulagi þessara mála marki viss tímamót fyrir ferðaþjónustuna og boði upphaf þeirra tíma fyrir þessa atvinnugrein í landinu að hún verði tekin, ef svo má að orði komast, í fullorðinna manna tölu. Ég held að því verði tæplega neitað að menn hafi fram á hin síðustu ár verið tiltölulega rólegir hvað þá staðreynd snertir að hér væri að vaxa upp í landinu og óðfluga ein af mikilvægustu útflutningsgreinum þjóðarinnar, einn mikilvægasti gjaldeyrisaflandi atvinnuvegur þjóðarinnar. En það er engu að síður staðreynd sem mönnum er hollt að hafa í huga að svo er nú komið að ferðaþjónustan er með um 10 milljarða gjaldeyristekjur, sem eru sömuleiðis rétt um 10% af öllum tekjum þjóðarinnar fyrir selda vöru og þjónustu erlendis. Þessum sess hefur ferðaþjónustan nú náð. Það hlýtur auðvitað að liggja í hlutarins eðli að hvorki við né væntanlega nokkur önnur þjóð hefur efni á því að vanrækja málefni slíkrar atvinnugreinar í landinu. Ég vil því þakka fyrir þau liðlegheit sem málinu hafa verið sýnd og vonast til þess að það komist fyrir jólaleyfi til umfjöllunar í þingnefnd og eftir atvikum til umsagnar.
    Ég ætla í sjálfu sér ekki tímans vegna að fara ítarlega út í að svara þeim efnislegu ábendingum og athugasemdum sem hér voru gerðar. Hv. 2. þm. Austurl. og formaður þeirrar nefndar, ferðanefndar samgrn., sem samdi frv. hefur þegar lýst viðhorfum nefndarinnar til ákveðinna þátta sem varða stjórn ferðamála og fjallað er um í II. kafla og hv. 2. þm. Reykv. ræddi nokkuð um. Að sjálfsögðu er rétt og skylt að taka þær athugasemdir og ábendingar sem hann flutti til athugunar í hv. nefnd. Sömuleiðis það sem hann ræddi um fjármögnun til ferðamála.
    Um það sem hv. 13. þm. Reykv. ræddi mætti ýmislegt segja og sýnir best frá hversu mörgum sjónarhornum er hægt að nálgast málefni ferðaþjónustunnar, margt af því sem fram kom í hennar ræðu, ef ég má leyfa mér að orða það svo, virðulegur forseti. Ég held að við þurfum öll að gera okkur grein fyrir því að ferðaþjónusta er ákaflega fjölbreyttur atvinnuvegur. Ferðamenn eru mjög mismunandi og við megum síst alls gleyma því að ferðaþjónustan er ekki síður atvinnuvegur vegna okkar Íslendinga sjálfra og okkar ferðalaga um eigið land heldur en vegna þjónustu við

erlenda ferðamenn sem þangað sækja, svo mikilvægir sem þeir þó annars eru. En sem betur fer er það svo að vaxandi hluti umsvifa í ferðaþjónustu í landinu er vegna ferðalaga okkar Íslendinga um eigið land og að þeim hlut verður vissulega að hyggja. Það er mjög mikilvægt að uppbygging ferðaþjónustunnar og allt skipulag taki mið af því að ferðalangurinn er eins misjafn og hann er margur. Öllum þessum mismunandi áhugamálum og þörfum ferðamanna, allt frá þeim sem mest fjármagn hafa handa í milli og vilja láta dekra mest við sig, ef svo má að orði komast, eins og hv. 13. þm. Reykv. vék að, og niður til hinna sem ferðast með minnst fjárráð. Allt þetta þarf að hafa í huga. Vaxandi fjöldi ferðamanna hingað til lands á undanförnum árum hefur einmitt borið þessa staðreynd með sér vegna þess að sá ferðamannahópur sem hingað sækir er sífjölbreytilegur og fjölbreytilegri ár frá ári með vaxandi fjölda. Ég hygg að því verði að sjálfsögðu að halda til haga að hvað sem um Ísland sem ferðamannaland má segja og hvað sem frammistöðu okkar á því sviði, hvort heldur um uppbyggingu, þjónustu eða annað, áhrærir þá fer orðstír lands okkar sem ferðamannalands vaxandi. Fjöldi erlendra ferðamanna sem hingað sækir er vaxandi ár frá ári. Og það sem meira er og rétt er að hafa í huga er að ófáir leggja leið sína hingað í annað og þriðja sinn og jafnvel oftar. Þetta verða menn að hafa í huga og minnast þess jafnan að hér er fjölbreytt atvinnugrein á ferð sem kemur víða við og snertir marga og mörg svið þjóðlífsins.
    Herra forseti. Ég þakka svo fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið. Ég ítreka þakkir mínar til ferðanefndar og vænti þess að málið fái vandaða meðferð hér á hinu háa Alþingi.