Virðisaukaskattur
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það vill þannig til að á þessari brtt. eru fimm hv. þm. Það hefur enginn rætt um það við mig að draga þessa tillögu til baka og mér er kunnugt um að svo er ástatt um fleiri sem þessa tillögu hafa flutt. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr 41. gr. þingskapa þar sem segir svo, með leyfi forseta: ,,Frv., hvort heldur eru frá ríkisstjórn eða þingmönnum, svo og till. til þál. og brtt., má kalla aftur á hverju stigi umræðu sem vill.`` Það er það sem hv. 1. flm. ætlaði að gera. En síðan segir: ,,En heimilt er hverjum þingmanni að taka það jafnskjótt upp aftur á sama fundi.``
    Ég vil leyfa mér að láta þess getið, virðulegi forseti, að hinn góðkunni formaður fjh. - og viðskn. deildarinnar, 1. þm. Norðurl. v., óskaði eftir því í gærkvöldi þegar þetta mál kom upp að fá til þess tækifæri að ræða málið í fjh. - og viðskn. Það hefur ekki verið gert, virðulegi forseti. Og það er fullkomlega óeðlilegt að ætla að beita hér einhverjum þjösnaskap og knýja menn til þess að draga tillögur til baka áður en þær fá umfjöllun í nefndinni. Ég leyfi mér fyrir hönd hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar og hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson að lýsa því yfir að við tökum þessa tillögu upp í samræmi við það ákvæði þingskapa sem ég hef hér lesið, í það minnsta þangað til að nefndin hefur fengið tækifæri til þess að fjalla um málið. Það er algert lágmark þó að mér sé kunnugt um það að hv. 1. þm. Norðurl. v. vilji helst af öllu koma í veg fyrir að tillaga þessi komi hér til atkvæða vegna þess að hann grunar að fyrir henni sé meiri hluti. En það er lágmark að tillagan fái umfjöllun í nefndinni eins og frestunartillaga hans í gærkvöldi gekk út á og forseti varð við. Ef það á að knýja þetta mál hér til afgreiðslu nú, þá mun þessi brtt. koma til atkvæða eins og ég hef tilkynnt í nafni okkar þriggja sem ég hef nefnt.