Fangelsi og fangavist
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Frsm. meiri hl. allshn. (Jón Kristjánsson) :
    Herra forseti. Aðeins örfá orð til nánari skýringar á afstöðu meiri hl. hv. allshn. varðandi málskotsrétt fanga, hvort rétt sé að Fangelsismálastofnun verði fyrsti aðili sem máli er skotið til eða hvort eigi að skjóta því beint til dómsmrn.
    Afstaða meiri hl. byggir á því m.a. að í lögunum um fangelsi og fangavist frá 1988 er kveðið skýrt á um verkefni Fangelsismálastofnunar. Í 1. lið í 2. gr. segir að Fangelsismálastofnun eigi að annast daglega yfirstjórn á rekstri fangelsa og í öðru lagi að sjá um fullnustu refsidóma og í þriðja lagi að annast eftirlit með þeim sem frestað er ákæru gegn, dæmdir eru skilorðsbundið, fá skilorðsbundna reynslulausn, náðun eða frestun afplánunar o.s.frv.
    Í ljósi þessa telur meiri hl. nefndarinnar að þar sem hlutverk Fangelsismálastofnunar er m.a. það að sjá um daglega yfirstjórn á rekstri fangelsa felist í því að stofnunin hafi leiðbeinandi hlutverki að gegna gagnvart forstöðumönnum fangelsa auk þess sem stofnunin hefur bein afskipti af föngum. Þess vegna telur meiri hl. nefndarinnar að þarna sé um svo skylda aðila að ræða að það sé óeðlilegt að stofnunin setjist í dómarasæti í þessu efni. Meiri hl. allshn. telur að staða Fangelsismálastofnunar gagnvart forstöðumönnum fangelsa sé slík að vafasamt sé að stofnunin geti endurskoðað á hlutlausan hátt ákvörðun þeirra um agaviðurlög eða einangrun. Á því er afstaða meiri hl. byggð.
    Ég vil taka það skýrt fram að með þessu er í engu verið að kasta rýrð á störf Fangelsismálastofnunar. Verkefni hennar og hlutverk er afar skýrt skilgreint í lögunum um fangelsi og fangavist. Hún er hin þarfasta stofnun og var full þörf á að samræma þau verkefni sem hún vinnur að. Það breytir hins vegar ekki afstöðunni í þessu máli. Mér finnst sjálfsagt að þetta mál fái þinglega meðferð og verði afgreitt frá Alþingi fyrir jólaleyfi ef nokkur kostur er vegna þess að þetta mál tekur á augljósum agnúa í dómskerfinu.