Fangelsi og fangavist
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Það mál sem er til umræðu er óhætt að fullyrða að hafi fengið mjög góða umfjöllun í hv. allshn. þar sem haldnir voru, að ég hygg, einir fjórir fundir um málið og kallað eftir umsögnum og rætt við aðila er málið varðar. Enda má segja að í nefndinni hafi ríkt mikill einhugur um frv. í heild, nema hvað snertir þann lið er tekur á málskotsrétti fanga sem dæmdur er til einangrunar. Nefndin var fyllilega sammála um þann þátt sem snýr að einangruninni hvað varðar refsitíma, að einangrunartíminn skuli ekki bætast við refsitíma. Eini ágreiningurinn varð því um þetta efni. Þeir sem komu á fund nefndarinnar voru allir á einu máli um að þessi málskotsréttur ætti að fara beint til dómsmrn., ekki til Fangelsismálastofnunar og svo þaðan til ráðuneytisins, ef menn þannig kysu að viðhafa.
    Á fund nefndarinnar komu til að mynda forstöðumaður Fangelsismálastofnunar, Haraldur Johannessen, og Birgir Kjartansson, formaður Verndar. Auk þess fékk nefndin skriflega umsögn frá Landssambandi lögreglumanna og Fangavarðafélagi Íslands. Það er skemmst frá því að segja að allir þessir aðilar, nema að sjálfsögðu Fangelsismálastofnun, voru því fylgjandi að málskotsréttur færi þá leið sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e. beint til dómsmrn. Hér fyrr í dag var vitnað til umsagnar Fangelsismálastofnunar, sem eðlilegt var, því það var til rökstuðnings þeirri brtt. sem minni hl. hefur lagt fram. Ég vil, með leyfi forseta, lesa hér tvær umsagnir sem bárust, enda eru þær mjög stuttar og tefur það ekki fundinn nema um nokkrar sekúndur. Það er í fyrsta lagi frá Landssambandi lögreglumanna. Umsögn þeirra hljóðar svo:
    ,,Landssambandi lögreglumanna hefur borist erindi yðar, dags. 20. 11. '90, þar sem óskað er umsagnar LL um frv. til laga um breytingu á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48 19. maí 1988.
    Um erindi þetta var fjallað á framkvæmdastjórnarfundi LL sem haldinn var í dag. Eru fundarmenn fyllilega sammála þeim breytingum sem gert er ráð fyrir í frv. Framkvæmdastjórn LL lýsir yfir ánægju sinni með að lög þessi séu til umfjöllunar en jafnframt þeirri skoðun sinni að Íslendingar verði að gera upp hug sinn til fangelsismála sem eru í miklu ólagi vægast sagt.`` Undir þetta ritar Bjarnþór Aðalsteinsson, ritari.
    Umsögn Fangavarðafélagsins er eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Fangavarðafélagi Íslands hefur borist til umsagnar frv. til laga um breytingu á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48 19. maí 1988. Fangavarðafélagið hefur ekki athugasemdir fram að færa hvað varðar breytingar á 25. og 26. gr. laganna.`` Undir það skrifar Jóhannes Bjarnason, formaður Fangavarðafélagsins.
    Á fund nefndarinnar kom síðan Þorsteinn A. Jónsson, deildarstjóri í dómsmrn. Hann upplýsti m.a. að þessi háttur sé viðhafður í nágrannalöndum, t.d. Danmörku og Noregi. Þar er málskotsrétturinn beint til ráðuneytis. Það eru lönd sem við gjarnan lítum til

þegar við erum að leita okkur fyrirmyndar þó ég svona yfir höfuð mæli nú ekki með því, alla vega í öðrum málaflokkum, að líta of mikið til þeirra þjóða. Vissulega eru bæði rök með og á móti í þessu máli en reynslan verður bara að leiða í ljós hvort þurfi að breyta þessu þegar frá líður og fara einhverja aðra leið.
    Ég hlýt að mótmæla því sem fram kom hér fyrr í dag hjá frsm. minni hl. að, eins og hann lagði það upp, í rauninni væri ekkert í verkahring þess félagsskapar sem nefndur er Vernd að fjalla um það mál. Þeir væru ekki stjórnsýslulegt apparat, held ég að hafi verið orðalagið sem var notað. Ég hlýt að mótmæla því. Þetta er vettvangur sem fjallar eingöngu um málefni fanga og þess vegna fyllilega gildur aðili til að leggja mat sitt á slíkt frv. sem hér er. Formaður þeirra samtaka, Verndar, Birgir Kjartansson, kom á fund nefndarinnar og það var hans álit að þetta frv. væri til bóta. Hann sagði reyndar að það væri nú svo komið með fanga að þeir gerðu í rauninni engan greinarmun á fangelsisstjórum og Fangelsismálastofnun. Þetta eru viðhorf sem heyrðust reyndar víðar.
    Það má kannski upplýsa það hér að þrír nefndarmenn allshn. fóru í stutta heimsókn í eitt af fangelsum ríkisins og könnuðu þar aðstöðu sem er vægast sagt bágborin og vona ég að ekkert okkar eigi eftir að gista þar um lengri eða skemmri tíma. Þar komu einnig fram í samtali við fangelsisstjóra og þá sem þar störfuðu nákvæmlega sömu viðhorf og við höfðum heyrt í nefndinni, að þessi málskotsréttur ætti alveg hiklaust að vera beint til ráðuneytis. Það er því alveg ljóst og reyndar skil ég ekki það sem hv. 6. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir sagði, að allir sem til þekkja teldu það eðlilega leið að þessi málskotsréttur væri til Fangelsismálastofnunar. Ég tel mig vera búinn að fara hérna í eins stuttu máli og ég get yfir alla þá sem til þekkja og skoðun þeirra á því hvernig beri að meðhöndla þetta mál og það er allt á eina leið. Það er til ráðuneytisins en ekki til Fangelsismálastofnunar að undanskilinni að sjálfsögðu Fangelsismálastofnun.
    Þorsteinn A. Jónsson, deildarstjóri í dómsmrn., taldi að með því að málskotsrétturinn yrði til Fangelsismálastofnunar mundi það auka skriffinnsku og hann leyfði sér að efast um það að stofnunin gæti talist til óháðs aðila vegna náinna samskipta hennar við fanga. Þetta er sjónarmið sem kom víðar fram.
    Um þetta mál er í sjálfu sér ekki mikið að segja. Ég hef persónulega haft töluverð samskipti við fanga og reynt að hjálpa þeim með öllum þeim ráðum sem ég hef getað. Ég leyni því ekki að ég hef heyrt þá skoðun þeirra um nokkra hríð að þeir kjósi frekar að líta upp til ráðuneytisins en stofnunarinnar. Hverjar ástæðurnar eru þori ég ekki og ætla ekki að fjalla um hér úr þessum ræðustól. Það er annarra að kafa dýpra í það mál.
    Hins vegar hefur því verið varpað fram hvort stofnunin sem slík sé þá yfir höfuð nauðsynleg. Það er umræða sem ég get vel tekið undir að þurfi að fara fram, endurskoðun á því hvort þessi stofnun og margar aðrar stofnanir séu í raun og veru nauðsynlegar. Ég er alveg tilbúinn í slíka umræðu hvenær sem er.
    Varðandi þá brtt. sem meiri hl. leggur fram þá fagna ég henni sérstaklega, enda barðist ég fyrir henni innan nefndarinnar. Það var aðallega með hagsmuni fanganna í huga. Það hefur oft viljað brenna við að þeirra hagsmunir væru ekki hátt skrifaðir. En mér fannst að alveg skilyrðislaust yrði að vera einhver hemill á því hvort hægt væri að dæma menn í einangrun eða ekki og sá hemill kemur fram í því að ef niðurstaða hefur ekki fengist frá ráðuneytinu innan 48 klukkustunda verður viðkomandi fanga sleppt úr einangrun. Þetta tel ég alveg nauðsynlegt og ég fagna því sérstaklega að þetta hafi hlotið náð fyrir augum ráðherra.
    Minni hl. gerir ráð fyrir því að málskotsréttur verði til Fangelsismálastofnunar sem hafi þá 24 stundir til að fjalla um málið. Síðan sé hægt að áfrýja því áfram til dómsmrn. og það hafi aðrar 24 stundir og vilja með því segja að þetta taki engu lengri tíma en sú leið sem við erum að leggja til. Þetta get ég ekki tekið undir. Ég tel að þetta geri ekkert annað en tefja málið enn frekar og get því ekki tekið undir slíka tillögu.
    Það hefur komið fram ósk um að ræða þetta betur milli 2. og 3. umr. Ég hef alltaf verið talsmaður þess að frv. beri að ræða eins vel og ítarlega og hægt er. Ég tel hins vegar að nefndin hafi fjallað mjög ítarlega um þetta mál og fyrir mína parta sé ég enga sérstaka ástæðu til að fjalla meira um þetta. Hafi menn einhverjar nýjar upplýsingar fram að færa í þessu máli þá mun ég að sjálfsögðu ekki leggjast gegn því að þær fái fram að koma.
    Hæstv. forseti. Eins og ég segi eru rök beggja aðila sjálfsagt gild. Ég hef valið að taka þessa afstöðu með frv. eftir að hafa hlustað á alla þá aðila sem málið snertir, líka forstöðumann Fangelsismálastofnunar, sem ég er í engu að kasta rýrð á, ekki hið minnsta, en ég er alveg tilbúinn að láta reynsluna síðan dæma hvor leiðin hafi verið rétt.