Útflutningsráð Íslands
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Matthías Bjarnason :
    Herra forseti. Fyrir mitt leyti get ég fallist á þá tillögu sem hæstv. viðskrh. flytur og tel eðlilegt að taka tillit til sjónarmiða fiskveiðanna með því að lækka þetta framlag nokkuð. Tel ég því að það sé til bóta fyrir afgreiðslu frv.
    Hins vegar vil ég endurtaka það sem ég sagði í gær þegar rétt var búið að úthluta þessu frv. og það tekið til 1. umr. í hv. þingdeild og vísað til fjh.- og viðskn. að ég tel að þetta mál hafi ekki fengið þá æskilegu þingmeðferð sem nauðsynlegt er að sýna í sambandi við meðferð frv. hér á hv. Alþingi. Það hefði verið full ástæða til að fulltrúar frá Útflutningsráði hefðu komið á fund nefndarinnar til þess að skýra frá því sem Útflutningsráð hefur verið að gera að undanförnu og hvað er fram undan, þannig að þingið væri betur upplýst í þeim efnum. Það sem er verið að gera hér núna er gert í algjöru tímahallæri og ekki til sóma fyrir þingræðið.