Útflutningsráð Íslands
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég get nú ekki annað en tekið undir það að nokkru með síðasta ræðumanni að sannarlega hefði verið betra að aðeins meira tóm hefði gefist til þess að ræða málefni þessa frv. og þá sérstaklega við hina einstöku hagsmunaaðila sem það varðar. Þannig gafst því miður lítill tími til þess að kanna afstöðu einstakra aðila í ferðaþjónustu til þessa frv. eftir að það kom fram eða var kynnt fyrst á vettvangi ríkisstjórnar. Það er þó rétt og skylt að taka fram að við í samgrn. féllumst á að það yrði lagt svona fram en við létum jafnframt fylgja með að ekki hefði gefist tími til að kanna afstöðu allra aðila á sviði ferðaþjónustu. Það kom síðan fram, eins og upplýst hefur verið, að við það var andstaða, sérstaklega
á vettvangi Samtaka veitinga - og gistihúsaeigenda eða -rekenda að lögþvinga aðild þeirra að Útflutningsráði með þessum hætti, þó í litlum mæli væri skv. b-lið 3. gr. Því vil ég að það komi fram að úr því að svo er þá tel ég ekki hyggilegt að halda því til streitu að lögskylda aðild þeirra að Útflutningsráði með þessum hætti. Hyggilegra væri að breyta frv. í þá átt sem tillaga fjh. - og viðskn. og tillaga frá hæstv. viðskrh. gerir ráð fyrir. Ég vil þó segja að það er viss ókostur í mínum huga að fylgja brtt. viðskrh. að því leyti að þá er aðilum á sviði ferðaþjónustu í raun mismunað, þar sem flugrekendur og þeir sem annars sinna flutningum á sjó yrðu áfram lögskyldaðir aðilar að Útflutningsráði en ekki þeir sem stunda atvinnurekstur af öðru tagi innan ferðaþjónustu.
    Enn fremur vil ég segja að það hefði verið æskilegra ef hæstv. viðskrh. og starfandi utanrrh. og fjh. - og viðskn. hefðu náð að sammælast um eina brtt. Þeim hluta brtt. viðskrh. sem lýtur að því að létta gjöldum að nokkru af fiskveiðum með því að færa þau niður um 0,02% get ég fylgt. Óska ég því eftir því, ef tillaga viðskrh. verður studd að öðru leyti, að c - liður tillögunnar verður borinn upp sérstaklega og mundi þá leggja til að hann félli brott þannig að eftir stæðu a - og b - liður tillögunnar. Þá er í raun um að ræða efnislega sömu afgreiðslu á b - lið frv. og fjh.- og viðskn. leggur til.