Jöfnunargjald
Föstudaginn 21. desember 1990


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Á þskj. 428 er að finna nál. minni hl. fjh.- og viðskn. en minni hl. skipar auk mín hv. þm. Matthías Bjarnason.
    Við teljum að mál þetta sem hér er til umræðu hafi fengið ófullnægjandi umfjöllun í hv. nefnd. Frv. kom tiltölulega seint fram og hefur tekið verulegum breytingum samkvæmt till. meiri hl. nefndarinnar.
    Minni hl. flytur brtt. sem er að finna á þskj. 429. Þær brtt. ganga annars vegar út á það að ríkissjóði sé skylt að endurgreiða iðnfyrirtækjum uppsafnaðan söluskatt vegna ársins 1989. Þar vantar 40 millj. eða þar um bil á að staðið hafi verið við loforð hæstv. ríkisstjórnar að fullu. Í öðru lagi eru brtt. þess efnis að lögin um jöfnunargjald falli úr gildi um næstu áramót.
    Ég þarf í raun ekki að halda mjög langa ræðu um þetta mál. Það hefur verið gert margsinnis áður, bæði á þessu þingi og eins á síðasta þingi og má þess vegna vísa til grg. með frv. sem er að finna á þskj. 163. En til að rifja aðeins upp örfá aðalatriði málsins þá var frá upphafi ráðgert að jöfnunargjald félli niður um leið og virðisaukaskattur yrði tekinn upp. Ég minni á að jöfnunargjaldinu var ætlað að ganga til þess að efla iðnþróun og það hefur verið gert í gegnum tíðina með því að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt til iðnaðarfyrirtækja. Ég minni á að þegar virðisaukaskattur var lagður á var gert ráð fyrir því að hann næði til þess tekjutaps sem yrði ef jöfnunargjaldið væri fellt niður.
    Loks vil ég minna á yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar. Í tengslum við kjarasamninga fyrir einu og hálfu ári lofaði hæstv. ríkisstjórn með bréfi hæstv. forsrh. að fella jöfnunargjaldið niður um sl. áramót þegar virðisaukaskattur var tekinn upp. Það loforð var að sjálfsögðu svikið eins og flestöll loforð sem varða þetta mál.
    Ég minni á að hæstv. iðnrh. flutti ræðu hinn 15. mars sl. þar sem hann sagði að fresta ætti því að fella niður þetta gjald til þess að afla tekna til endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts á sl. ári. Það er ekki nóg með að því hafi verið frestað heldur er nú ætlunin að leggja þetta gjald á í eitt ár í viðbót til þess að afla ríkissjóði tekna.
    Þá vil ég láta það koma fram að gerð var tilraun til þess að kalla fram bréfaskriftir sem farið hafa fram á vegum utanrrn., að því að talið er til EFTA og EB og jafnvel til breskra stjórnvalda, vegna þess að þeir sem gert hafa við okkur viðskiptasamninga telja að jöfnunargjald brjóti nú í bága við viðskiptasamninga á milli Íslands og þeirra þjóða.
    Í nál. á þskj. 428 er sýnt hvernig tekjur hafa innheimst af jöfnunargjaldi frá 1981 og hve mikið hefur verið endurgreitt. Eins og sjá má af þessari töflu er ráðgert að á næsta ári fái ríkissjóður nettó í sinn hlut jafnmiklar tekjur og á yfirstandandi ári eða 300 millj. kr. meira en samkvæmt tekjuáætlun yfirstandandi árs. Með öðrum orðum er hér um skattahækkun upp á 300

millj. kr. að ræða frá fjárlögum yfirstandandi árs. Á þetta þarf að leggja áherslu.
    Verði tillögur minni hl. ekki samþykktar er ljóst að hann mælir ekki með samþykkt frv. en mun sitja hjá því af tvennu illu er þetta frv. skárra en gildandi lög.