Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Föstudaginn 21. desember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég færi sjútvn. þakkir fyrir afgreiðslu á þessu frv. og þakka meiri hl. ótvíræðan stuðning við málið. Ég tel að Grænlendingar og Færeyingar standi okkur nær en nokkrar aðrar þjóðir í þeim efnum að við eigum að hafa friðsamleg samskipti við þá og við eigum að sitja við samningaborð við þessar þjóðir um ýmis málefni án þess að það sé æðsta hugsun okkar að við eigum að reyna að ná á þeim haustaki í samningum. Ég er sannfærður um að það mun fremur greiða fyrir samskiptum við samningaborðið sýnum við þeim fullan drengskap í þeim efnum að þeir séu velkomnir hvenær sem er til að selja fisk á Íslandi, kaupa hér vistir og eiga hér önnur samskipti við þessa þjóð.
    Ég undirstrika erfiðleika skipasmíðaiðnaðarins sem eru í dag miklir og ég tel að þetta sé eitt af því sem geti greitt fyrir því að við komum rekstrargrundvelli undir skipasmíðaiðnaðinn.