Réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands
Föstudaginn 21. desember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég hef reyndar áður tjáð afstöðu mína til þessa máls þegar það hefur verið hér til umræðu á Alþingi á undanförnum árum. Mín afstaða er sú að ég styð álit minni hl. hv. sjútvn. Ég tel það ekki tímabært eða rétt við núverandi aðstæður í samskiptum okkar við okkar ágætu granna, Færeyinga og Grænlendinga, að breyta þessu grundvallaratriði í íslenskri löggjöf sem hefur verið hluti af okkar stefnu í okkar sókn til þess að ná fullum réttindum gagnvart öllum útlendingum í okkar auðlindalögsögu.
    Ég leyfi mér að fullyrða að ég sé ekkert lakari liðsmaður vestnorrænnar samvinnu en hver annar hér á hv. Alþingi. Ég hef lagt mig eftir því að eiga góð samskipti og ná góðum samböndum við stjórnmálamenn í Færeyjum og á Grænlandi. Ég hef átt sæti í Vestnorræna þingmannaráðinu frá stofnun þess og allt fram á síðustu ár þangað til ég tók sæti í ríkisstjórn og tel mig geta fullyrt að skynsamlegt sé við núverandi aðstæður að við höfum þann hátt á að veita þessum þjóðum aðgang með undanþágum til löndunar og viðskipta við okkur eins og við höfum gert, og án vandkvæða að mínu mati, höfum til að mynda tryggt grænlenska rækjuveiðiflotanum við austurströnd Grænlands aðstöðu í íslenskum höfnum eins og á hefur þurft að halda. Við höfum sýnt Grænlendingum í því sambandi sérstök liðlegheit eins og t.d. með því að heimila íslenskum hafnarstjórnum að veita afslætti frá löndunargjöldum og fleira mætti þar til nefna. En það breytir ekki þeirri grundvallarafstöðu minni að samskiptum og samningum þjóðanna um nýtingu sameiginlegra fiskstofna þurfi að miða lengra áleiðis áður en tímabært sé að breyta sérstaklega gagnvart þessum aðilum því grundvallarákvæði löggjafar að við heimilum ekki nema með sérstöku leyfi og sérstökum undanþágum erlendum fiskiskipum að athafna sig úr íslenskum höfnum.