Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 21. desember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér er til umræðu stjfrv. sem fjallað hafði verið um í þingflokki Framsfl. og eins og það er lagt fram er ég reiðubúinn að samþykkja það. Hins vegar hefur það gerst að í félmn. Ed. hafa verið samþykktar breytingar við frv. og í þeirri hraðferð sem hér á sér stað við afgreiðslu mála gefst lítill tími til að átta sig á öllu sem fram fer. Mig langar, með leyfi forseta, til að lesa upp grein sem hér er lagt til að falli brott og ég get ekki sætt mig við að verði felld úr þeim lögum sem eru í gildi. Þetta er 22. gr.:
    ,,Húsnæðismálastjórn er heimilt að veita lán úr Byggingarsjóði ríkisins til þess að endurbyggja heilsuspillandi húsnæði sem hagkvæmt er talið að endurnýja að mati byggingarfróðra manna sem Húsnæðisstofnun ríkisins og viðkomandi sveitarstjórn tilnefna.
    Skulu matsmenn gera úttekt á húsnæðinu og gera kostnaðaráætlun um nauðsynlegar endurbætur.
    Lán þessi mega nema allt að 70% af viðgerðarkostnaði en þó aldrei hærri upphæð en 70% af hámarksláni skv. a - lið 1. mgr. 13. gr.
    Lánið skal veitt gegn 2. veðrétti að jafnaði, en heimilt er að miða við tiltekið hlutfall brunabótamats eða fasteignamats.
    Lánstími má vera allt að 26 árum en um lánskjör fer að öðru leyti eftir ákvæðum 30. gr.``
    Ég hef ekki haft tök á að bera saman allar þær tilvitnanir sem hér eru í aðrar greinar, en ég fæ ekki séð annað en að hér sé verið að fjalla um heimild sem er í núgildandi lögum þess efnis að hægt sé að fara í viðgerðir á heilsuspillandi húsnæði ef kostnaður fer ekki yfir 70%, miðað við hámarkslán, og sé heimilt að veita 70% af viðgerðarkostnaðinum. Þá tel ég að hér sé um mjög þarft lagaákvæði að ræða. Mér er ljóst að víða hefur verið byggt eftir þessum lögum. Sem betur fer hefur þeim fækkað sem þurfa á því að halda, en það gerir það líka að verkum að þá er enn þá minni nauðsyn að fella þetta út.
    Mér er ljóst að ýmsir aðrir möguleikar eru varðandi félagslegar íbúðir, en við lestur minn á þeim valmöguleikum sem þar er um að ræða sé ég samt verulega annmarka á því að þær úrlausnir komi til greina, t.d. til sveita. Ég mælist í fullri vinsemd til þess að þetta verði skoðað nokkuð gaumgæfilega í nefnd og kannað hvort ekki næst friður um það að frv. verði afgreitt eins og það var lagt hér inn, en ef menn eru harðir á því að taka upp breytingar á húsnæðislöggjöfinni verði flutt sérstakt frv. um það þannig að hinu fyrra máli verði ekki stefnt í voða með því að setja inn breytingar um alls óskylt efni því að frv. eins og það er lagt fram, herra forseti, fjallar um stimpilgjöld og það er ágreiningslaust mál. Ég tel því ekki eðlilegt að setja þar annað mál fast tengt með þessu móti sem ágreiningur er um.