Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 21. desember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað sjálfsagt að um þetta ákveðna atriði, sem hv. þm. nefndi, verði fjallað í nefnd, en ég vil benda hv. þm. á að þegar frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins var til umræðu á síðasta þingi, sem þá varð að lögum, var þetta ákvæði fellt brott og fellt niður í upptalningunni um þá lánaflokka sem heyrðu undir Byggingarsjóð ríkisins. Í skýringum sem fylgdu með því, af hverju það var lagt til, kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:
    ,,Eins og nú háttar í húsnæðiskerfinu eru lánaflokkar í Byggingarsjóði ríkisins sem ótvírætt lána til félagslegra íbúða. Þar er um að ræða lán til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði og lán til almennra kaupleiguíbúða. Frv. gerir ráð fyrir að sá lánaflokkur sem þjónar því hlutverki að útrýma heilsuspillandi húsnæði verði lagður niður. Umsóknir um slík lán hafa verið afar fáar og Byggingarsjóður verkamanna sér nú einnig um þennan þátt. Lánaflokkurinn er því óþarfur.``
    Um þetta var fjallað ítarlega af þeirri nefnd sem samdi frv. M.a. áttu sæti í þeirri nefnd starfsmenn Húsnæðisstofnunar og forstöðumaður Byggingarsjóðs verkamanna og þetta varð samkomulagsálit nefndarinnar að þessi lánaflokkur væri óþarfur, ekki síst þar sem verið var að rýmka verulega ákvæðin um félagslegar íbúðabyggingar og gera þar með sveitarfélögunum auðveldara að koma upp leiguíbúðum í stað heilsuspillandi húsnæðis. Þannig var það álit nefndarinnar, sem í raun var staðfest af Alþingi á sl. vori, að þessi lánaflokkur væri óþarfur og gæti vel fallið undir lánakerfi í félagslegum íbúðum, sérstaklega þar sem þetta var útvíkkað. Og eins, varðandi endurbætur og viðbyggingar, var það mat nefndarinnar að þetta gæti fallið undir almenn ákvæði í Byggingarsjóði ríkisins, þ.e. þann lánaflokk sem fjallar um endurbætur og viðbyggingar á húsnæði.
    Auðvitað mun nefndin fjalla ítarlega um þetta mál og skoða þær ábendingar sem fram hafa komið frá hv. þm., en ég óska eindregið eftir því að greitt verði fyrir því að þetta mál fái að fara til nefndar nú á þessum deildarfundi.