Fyrirspurnir varðandi fjárlög
Föstudaginn 21. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Það er nú þannig að á þessum árstíma eru yfirleitt miklar annir bæði hér í þinginu og í ráðuneytum, en það er alveg rétt hjá hv. þm. Friðriki Sophussyni að yfirleitt á að reyna að sinna þeim fsp. sem berast í tæka tíð. Það er þó þannig með fyrri fsp. að ég hafði vænst þess að hafa frá meiru að segja þegar ég svaraði þeirri spurningu heldur en ég hafði nákvæmlega þegar hún var borin fram vegna þess að á árinu hafa farið fram undirbúningsviðræður af hálfu embættismanna ríkisins og Reykjavíkurborgar og einnig einstakra annarra bæjarfélaga til þess að fara yfir þau málefni sem um er rætt í fsp.
    Embættismenn fjmrn. og Reykjavíkurborgar hafa lagt nokkra vinnu í þetta mál. Ég hef einnig rætt það við borgarstjórann í Reykjavík nokkrum sinnum í stuttum samtölum og við höfum ákveðið að hittast, og gerðum það nú reyndar fyrir allnokkru síðan, einum og hálfum mánuði eða svo, en bæði hef ég verið önnum kafinn og borgarstjórinn nýlega tekið að sér ný verkefni sem stjórnarmaður í Landsvirkjun þannig að við höfum ekki getað fundið okkur tíma til að hittast og fara yfir þessi mál. En við staðfestum það í samtali fyrr í þessari viku að við mundum gera það næstu daga.
    Ég held að í sjálfu sér hafi ekki verið upp á fjmrn. að klaga í framkvæmd þessa máls þó það megi segja að ég og borgarstjóri hefðum kannski átt að veita þessu máli meiri forgang frá okkar pólitísku önnum, en það afsakar það ekki að sjálfsagt hefði verið hægt að skýra frá þessu skriflega í svari.
    Varðandi seinni spurninguna segi ég það hreinskilnislega hér að mér er ekki nákvæmlega kunnugt hvers vegna það hefur dregist að veita svar við henni en ég mun kynna mér það.