Fyrirspurnir varðandi fjárlög
Föstudaginn 21. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin sem að vísu eru nokkuð rýr. Ég vek athygli á því að það virðist vera háttur sumra hæstv. ráðherra þegar þeir fá fsp. frá alþingismönnum að bíða með að svara þeim þar til eitthvað bitastætt sé í svarinu vegna þess að þeir vilji gera eitthvað frá þeim tíma sem spurningin var lögð fram og til þess tíma sem svarað er. Á þessu vil ég vekja athygli vegna þess að þetta fer í bága við þingsköpin eins og þau eru. Fsp. laut að því að spyrja um stöðu ákveðins máls á ákveðnu stigi málsins. Og það er auðvitað út í bláinn að afsaka þennan drátt með því að segja að hæstv. ráðherra hefði vonast til þess að á þessu mánaðarbili sem síðan hefur liðið hefði hann getað haft bitastæðara svar en hann hefur nú.
    Það er auðvitað góðra gjalda vert, og ég fagna því að hæstv. ráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík séu farnir að tala saman um þetta mál, en þetta lýtur auðvitað að öðrum sveitarfélögum líka. Það er hins vegar óafsakanlegt að bíða með að gefa svör í trausti þess að svarið verði öðruvísi eftir einhvern tiltekinn tíma sem er allt annar tími en sá sem gefinn er upp í þingsköpum Alþingis.
    Það eru ekki efni til þess, virðulegi forseti, að hafa þessa umræðu lengri, ekki af minni hálfu a.m.k., en ég vek athygli á því að það mál sem hæstv. ráðherra sagðist ekki vita af hverju ekki hefði verið svarað er mál sem hefur verið í höndum ráðuneytisins frá því í fyrravor og meiri hlutinn á hinu háa Alþingi, stjórnarmeirihlutinn í fjh. - og viðskn. lagði til að ákveðið mál fengi ákveðna afgreiðslu í trausti þess að ráðuneytið mundi finna út úr málinu þar til í haust, þannig að staða þess máls átti að vera skýr og það hefði án efa ekki kostað ráðuneytið nema kannski 15 mínútur að svara þessari fsp. Því að ef ekkert er farið að gera í málinu, þá er svarið bara það að það er ekkert farið að gera í málinu og þá veit maður það. En svo er dregið að svara fsp. eins og þessum sem hafa þýðingu við afgreiðslu fjárlaga, sem hafa þýðingu þegar verið er að afgreiða tekjufrv. fyrir næsta ár, sem endar auðvitað með því að ekki er hægt að taka málið upp fyrr en á næsta haustþingi.
    Ég vek athygli á þessu, virðulegi forseti. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi ekki staðið í stöðu sinni og brotið þingsköp með því að láta undir höfuð leggjast að svara einföldum fsp. eins og þeim sem ég hef hér getið. Læt ég svo málið niður falla af minni hálfu.