Lágmarksframfærslukostnaður
Föstudaginn 21. desember 1990


     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Álit félmn. er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fékk á sinn fund Hallgrím Snorrason hagstofustjóra. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Þjóðhagsstofnun, Hagstofu Íslands og kjararannsóknarnefnd. Í umsögn Þjóðhagsstofnunar og Hagstofunnar kemur fram að þessar stofnanir telja ýmsa vankanta á að framkvæma þá athugun sem kveðið er á um í till.
    Nefndin flytur á sérstöku þskj. tillögu um breytingu sem m.a. felur í sér að í stað þess að fela Hagstofunni að gera umrædda athugun verði skipuð nefnd til að vinna að málinu og leiti hún aðstoðar sérfróðra aðila, m.a. Hagstofu Íslands. Þá telur nefndin ekki ástæðu til að tiltaka í einstökum atriðum þá þætti sem athugunin skuli beinast að heldur hafi sú nefnd, sem ríkisstjórninni er ætlað að skipa, svigrúm til að setja þann ramma sem hún telur eðlilegan vegna athugunar á lágmarksframfærslukostnaði.``
    Brtt. félmn. við þáltill. er svofelld:
    ,,1. Tillgr. orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að vinna að athugun á lágmarksframfærslukostnaði hérlendis. Nefndin kanni meðal annars hvaða not megi hafa af framfærslu- og neyslukönnunum sem þegar hafa verið gerðar og leiti aðstoðar Hagstofu Íslands og annarra sérfróðra aðila.
    Nefndin skili greinargerð um störf sín fyrir árslok 1991.
    Fyrirsögn till. orðist svo: Till. til þál. um athugun á lágmarksframfærslukostnaði.``