Fjárlög 1991
Föstudaginn 21. desember 1990


     Frsm. 2. minni hl. fjvn. (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    
    Virðulegi forseti. Frv. til fjárlaga fyrir komandi ár er nú komið til lokaumræðu og menn hljóta að hugleiða í sambandi við það hvað innihald þess boðar almenningi þessa lands. Hvernig verður rekstrarumhverfi ríkisbúskaparins og heimilanna á næsta ári svo að notað sé vinsælt orð? Þó að ekki liggi fyrir enn endurskoðuð þjóðhagsáætlun frá í haust er ljóst af ummælum þeirra sem Þjóðhagsstofnun stýra að flest horfir til verri vegar frá því sem þá var. Efnahagshorfur á alþjóðavettvangi eru mun lakari nú, einkum í Bandaríkjunum, og kann það að hafa áhrif á útflutning okkar og olíuverð er afar ótryggt. Horfur eru slæmar um loðnuveiðar. Bregðist þær er ljóst að mestur hluti þess örlitla hagvaxtar sem spáð var á komandi ári er horfinn og tekjuhlið fjárlaganna hefur raskast verulega. Þetta var niðurstaða fjmrn. í gær hvernig sem hæstv. fjmrh. þóknast að sú niðurstaða líti út í dag. Verði síðan að draga úr öðrum veiðum, eins og gefið hefur verið í skyn að geti orðið, verður verulegur samdráttur á öllum sviðum. Þessar horfur í efnahagsmálum nú benda til þess að í besta falli standi kaupmáttur launa í stað og verulegar líkur séu á að hann dragist saman. Þannig hljóðar jóla- og nýársboðskapurinn við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.
    Vitanlega er augljóst að við þær aðstæður sem við blasa hlýtur að kreppa að um hag heimilanna. Ekki stóð hann þó of föstum fótum sé tekið mið af þeim fregnum sem heyrast um geysilega fjölgun gjaldþrota einstaklinga nú á síðari hluta ársins. Einnig hefur komið í ljós að heimilin í landinu eru annar stærsti lántakandinn næst ríkissjóði. Uggvænlega tíð gjaldþrot einstaklinga og heimila haldast í hendur við ásóknina eftir bankalánum og hvort tveggja bendir til þess að sú velmegun sem hæstv. formaður fjvn. gerði að umtalsefni í ræðum sínum við 1. og 2. umr. fjárlaga sé ekki eins almenn og hann vildi vera láta. Hann ræddi þar um bílaeign, sjónvarps- og símatækjafjölda landsmanna og taldi þetta allt bera vott um góða afkomu almennings. Honum láðist að nefna að í strjálbýlu landi, þar sem almenningsfarartæki og samgöngur eru ekki með neitt svipuðum hætti og í öðrum löndum, ekki einu sinni á höfuðborgarsvæðinu, eru menn tilneyddir að eiga farartæki sín sjálfir. Símatæki eru ekki lúxus heldur öðrum þræði öryggistæki en um sjónvarpstækin má náttúrlega deila. En þegar litið er til þess sem áður var sagt um lántökurnar, þegar litið er til þess að aldrei hefur slíkur fjöldi fólks sem nú leitað t.d. til Mæðrastyrksnefndar og þegar litið er til þess að fjöldi þeirra sem leita á náðir félagsmálastofnana fer sívaxandi og þar fjölgar fyrst og fremst ungu fólki sem ekki kemst af og sér ekki önnur úrræði er augljóst að þrátt fyrir að margir búi við góðan hag er allt of stór sá hópur þegnanna sem nýtur ekki þessarar marglofuðu velmegunar en býr við bág kjör. Þeir sem ekki sjá þessa staðreynd hljóta að búa

í umhverfi sem meinar þeim að skilja lífskjör og lífsbaráttu þeirra sem búa við lakari aðstæður. Þeir hljóta að búa í umhverfi sem er svo frábrugðið því sem láglaunafólk lifir við að þeir hvorki trúa né skilja að slíkar aðstæður séu algengur raunveruleiki. Sú tekjujöfnun sem hæstv. ríkisstjórn hafði á prjónunum að koma fram er hvergi í sjónmáli. Bilið fer breikkandi. Og niðurstöður þessarar rekstraráætlunar ríkissjóðs sem hér er til umfjöllunar boða engar breytingar á þeirri staðreynd.
    Frv. til fjárlaga hefur nú tekið nokkrum breytingum frá því það fyrst var lagt fram. Tekist hefur að tosa tekjunum upp um rúma 2 milljarða. Að hluta til byggist þessi áætlun á óskhyggju. Ég á t.d. bágt með að trúa því að tekjur af bílainnflutningi aukist um milljónahundruð ef loðnan lætur ekki sjá sig og svo er um fleiri þætti. Með þessum og fleiri reikningskúnstum reiknast bilið billi tekna og gjalda rúmir 4 milljarðar og þykist þá ríkisstjórnin trúlega hafa sloppið vel að geta sýnt fjárlög með ekki meiri halla eftir þær spár sem uppi hafa verið þó að 4 milljarða halli ríkissjóðs sé vissulega alvarlegt mál. Hitt er þó miklu alvarlegra mál, sá stórkostlegi halli sem reynt er með ýmsum hætti að leyna.
    Brýnum úrlausnarmálum er vísað til heimildargreina í meira mæli en nokkru sinni hefur sést og þær upphæðir koma til greiðslu þegar á næsta ári. Lífeyrissjóðunum er ætlað að leysa vanda byggingarsjóðanna með lánum og lántökur ríkissjóðs eru síðan að fara úr öllum böndum. Nú þegar fer tíunda hver króna af útgjöldum ríkissjóðs til að greiða vextina einungis. Þrátt fyrir hækkun útgjalda er svo verulegur samdráttur í opinberum framkvæmdum. Útgjaldahækkunin er einkum vegna útþenslu í umsvifum ríkiskerfisins og alls kyns sóunar á vegum ráðherra og ráðuneyta. Hvergi er ráðist að rótum þessa vanda og fyrirheit hæstv. fjmrh. um jafnvægi í rekstri ríkissjóðs hafa snúist í andhverfu sína.
    Virðulegi forseti. Ég hef rætt almennt um fjárlagadæmið og útkomu þess og ætla ekki að fjalla svo neinu nemi um afgreiðslur einstakra mála. Ég get þó ekki látið hjá líða að minnast á nokkur mál sem varða miklu. Hafnamálin eru nú til afgreiðslu. Upphaflega var ætlað að leggja sérstakan skatt á hafnir landsins til að fjármagna framkvæmdir innan þeirra en síðan var horfið frá þeim fyrirætlunum þar sem enginn virtist vita hvernig ætti að koma þessari skattlagningu við og ekki var gerð nein tilraun til að gera grein fyrir því heldur. Það kann að vera nauðsynlegt að finna höfnum einhvern fastan tekjustofn, líkt og Vegagerð ríkisins, en menn eru farnir að verða trúdaufir á gildi slíkra ráðstafana þegar raunin verður sífellt sú að fastir tekjustofnar stofnana eru yfir höfuð aldrei friðhelgir. Hafnir landsins eru víðast hvar lífæðar byggðarlagsins og það varðar miklu að þær séu í sem bestu lagi. Hafnir á landinu sem njóta ríkisstyrks eru 70 talsins. Meðallíftími hafnarmannvirkja er um 35 ár. Þetta þýðir að endurbyggja þarf um tvær hafnir á ári. Á verðlagi dagsins í dag kostar um 470 millj. kr. að endurbyggja höfn eða hafnarmannvirki af meðalstærð og

greiðir ríkissjóður 75% kostnaðar að jafnaði. Þessar tölur sýna að rúmar 700 millj. kr. þyrfti árlega til að halda höfnunum í viðunandi ástandi.
    Til að mæta kröfum vegna breyttrar flutningatækni þyrfti að auka við þessa upphæð og sjá menn þá hversu fjarri lagi er sú upphæð sem lögð er til hafnamála nú. Í þeim efnum sem öðrum er vandanum vísað til framtíðarinnar en hafnirnar drabbast niður atvinnulífi landsins til ómælds tjóns.
    Þá vildi ég fara nokkrum orðum um annan málaflokk sem einatt verður hart úti þegar sameiginlegum fjármunum okkar er útdeilt þó ekki skorti faguryrðin á hátíðarstundum og á ég hér við menningarmálin. Flest erum við sammála um mikilvægi blómlegs menningarlífs og teljum það eina af undirstöðum íslensks þjóðfélags og víst er um það að fólk um allt land leggur ótrúlega mikið af mörkum í hreinni sjálfboðavinnu til þess að hlúa að þessari undirstöðu, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins. Nægir þar að vitna til starfsemi áhugaleikfélaga og söngkóra sem eiga sinn stóra þátt í eflingu félagslífs og blómlegs mannlífs á landsbyggðinni. Menningarhátíðir sem haldnar hafa verið víða um land á síðustu árum og flestar staðið vikum og jafnvel mánuðum saman hafa borið menningarviðleitni landsbyggðarfólks gott vitni og ekki skal heldur gert lítið úr miklu og oft fórnfúsu starfi að menningarmálum á höfuðborgarsvæðinu. En það eru auðvitað takmörk fyrir því hvað fólk getur á sig lagt við erfiðar aðstæður án þess að fá umbun fyrir. Stundum hvarflar þó að manni að einmitt það sé stefna stjórnvalda. Menning virðist helst aldrei mega kosta neitt. Það vantar þó ekki að ráðamenn blási í lúðra. Hæstv. menntmrh. efnir til umræðna um eitt og annað. Það er fundað um menningarstefnu og skólastefnu og hina ýmsu þætti menningarinnar en það verkar sem hljómandi málmur og hvellandi bjalla þegar því er ekki fylgt eftir. Niðurfelling virðisaukaskatts á íslenskar bækur verður þó að meta við stjórnvöld á ári læsis sem átti víst að vera ein skrautfjöðrin, en varla eru menn búnir að gleyma hvað það kostaði mikinn tíma og fyrirhöfn að ná þeim áfanga. Hæstv. ráðherrar stóðu svo sannarlega gegn því eins lengi og þeir gátu þrátt fyrir að þeir hrósuðu sér auðvitað af afrekinu þegar þar að kom.
    Í þessu sambandi má heldur ekki láta undir höfuð leggjast að minnast á við hvaða kost Námsgagnastofnun er ætlað að búa sem þó á að standa að því að leggja grunn að menntun barna landsins. Á ári læsis er kostur hennar þrengdur svo að hún getur ekki sinnt skyldum sínum.
    Ég man nú ekki margt sem ríkisstjórnin getur talið sér til tekna í menningarefnum þrátt fyrir stór orð um vinsemd í garð menningarinnar. Ég satt að segja veit ekki hvað hæstv. menntmrh. hefur haft í huga þegar hann gaf það til kynna í nýlegum sjónvarpsþætti að stefnan væri upp á við í fjárveitingum til menningarmála. Á sama tíma er t.d. þrengt svo að starfsemi Þjóðleikhússins að það á erfitt með að standa undir nafni. Þá hafa menn fylgst í forundran með leikritinu í kringum Óperuna en í þessum þætti er því vandamáli vísað að hluta til heimildargreina fjárlaganna eins og ýmsu öðru sem er sópað undir það teppi. Framtíðinni er ætlað að leysa úr því og er ástæðulaust fyrir ríkisstjórnina að guma af virðingu fyrir menningarstarfsemi af hvaða toga sem er né heldur umtalsverðum stuðningi við hana.
    Virðulegi forseti. Tekjuöflunarhlið ríkissjóðs hefur á undanförnum árum verið tekin til gagngerðrar endurskoðunar og er nú mun skilvirkari en áður þótt deila megi um réttlætið. Núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur hins vegar látið undir höfuð leggjast að endurskoða gjaldahliðina með sama hætti, endurskoða tilgang, markmið og umfang ríkisstofnana og komast fyrir óþarfa útgjöld og sóun. Þetta verður því að verða úrlausnarefni næstu ríkisstjórnar.
    Það er ekkert vafamál að spara má verulega í útgjöldum ríkisins án þess að nokkur beri óréttlátan skaða af og að því verður að vinda bráðan bug. Ráðdeild og sparnaður munu vera farsælastar ráðstafana í glímunni við ríkisútgjöldin. Þar þýðir ekkert að treysta á lottóvinninga eða kraftaverk. Niðurstaða þessa fjárlagafrv. sem nú kemur til afgreiðslu eru enn hækkaðir skattar og nú við 3. umr. bætast rúmir 2 milljarðar við þann póst og engar umtalsverðar sparnaðartilraunir og 4 milljarða halli.
    Virðulegi forseti. Vinnan við fjárlögin hefur um margt verið á óvenjulegan hátt nú að undanförnu. Lagafrumvörp um tekjuöflun koma ótrúlega seint og ná ekki öll fullnaðarafgreiðslu. Það er e.t.v. ekkert einsdæmi en er öllum til baga. Hitt er óvenjulegra að sífellt hefur þurft að skjóta málum til ríkisstjórnarinnar, málum sem fjvn. og Alþingi eiga með réttu að fjalla um. Síðan hefur staðið á ákvörðunum frá þessari hæstv. ríkisstjórn sem virðist eiga erfitt með að koma sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Þetta hefur gert nefndinni erfitt fyrir og tafið mjög öll störf hennar.
    Virðulegi forseti. Í hönd fer kosningaár og það fer ekki milli mála hversu ríkisstjórninni hefur verið í mun að fjárlögin sýndu góða útkomu og betri en efni standa til svo að ráðherrar geti hælt sér af góðri fjármálastjórn þegar til kosningabaráttu kemur. Því kjósa þeir að hafa í frammi alls konar blekkingar, fela raunveruleg útgjöld í heimildargreinum og lánsfjárlögum og vísa þeim, sem og margvíslegum óleystum vanda, til framtíðarinnar og til þeirra sem við eiga að taka. Vera má að einhverjir kjósendur falli fyrir þessari fjármálasnilld en það er ljóst að afkomendur okkar, sem verða að borga brúsann, munu ekki senda þessari ríkisstjórn nein blessunarorð þegar kemur að skuldadögum.