Fjárlög 1991
Föstudaginn 21. desember 1990


     Frsm. samvn. samgm. (Karvel Pálmason) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir sameiginlegu nál. samvn. samgm. sem er á þskj. 388 svo og brtt. sömu nefndar á þskj. 389 við 4. gr. frv. lið 10-322 Flóabátar og vöruflutningar.
    Ég skal ekki, virðulegi forseti, hafa mörg orð um nál. og brtt. sem eru á sérstöku þingskjali, þær skýra sig nokkuð sjálfar, en ég vil þó fara örfáum orðum um nefndarstarfið.
    Samvinnunefnd samgöngumála hefur að venju fjallað um erindi þau sem Alþingi hafa borist um framlög á fjárlögum til stuðnings við rekstur flóabáta vegna vöru- og fólksflutninga á einstökum svæðum. Farsvæði þessara báta eru á Faxaflóa, á Breiðafirði, á Ísafjarðardjúpi og á leiðinni frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja. Enn fremur eru flutningastyrkir á Eyjafirði og milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar.
    Jafnframt hefur nefndin tekið fyrir og rætt erindi sem borist hafa vegna flutninga á landi, svo sem til reksturs snjóbifreiða eða vegna mikils snjómoksturs þar sem erfitt reynist fyrir viðkomandi byggðarlög að standa straum af þeim kostnaði sem þau verða að bera samkvæmt snjómokstursreglum Vegagerðar ríkisins. Enda þótt reglurnar hafi verið rýmkaðar á síðustu árum verða íbúar í snjóþungum héruðum fyrir verulegum kostnaði umfram aðra þegna þjóðfélagsins við að halda uppi nauðsynlegum samgöngum. Til að minnka eitthvað þennan aðstöðumun hafa verið veitt á fjárlögum hvers árs framlög til þeirra aðila sem að dómi nefndarinnar eru verst settir að þessu leyti.
    Halldór Kristjánsson, skrifstofustjóri í samgrn., og Guðmundur Einarsson, forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, hafa eins og áður mætt á fundum nefndarinnar og veittu þeir henni margvíslegar upplýsingar sem komu nefndinni að verulegu gagni. Færir nefndin þeim sérstakar þakkir fyrir störf þeirra í hennar þágu.
    Á undanförnum árum hefur í framsögu fyrir tillögum nefndarinnar verið gerð grein fyrir einstökum þáttum þeirra, sérstaklega varðandi hin stærri verkefni, þ.e. flutninga á sjó. Þar sem fyrir þessum þáttum er skilmerkilega gerð grein í áliti nefndarinnar sé ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um einstaka báta heldur vísa til nál. Ég vil taka það fram að með flestöllum umsóknum fylgdu greinargóðar upplýsingar um viðkomandi verkefni og á þetta einkum við um flutninga á sjó. Enda þótt þeir aðilar sem styrk til landflutninga njóta hafi einnig sent nefndinni greinargóðar upplýsingar um rekstur og annað er umsóknir varðar er í nokkrum tilvikum misbrestur á því að reikningar fylgi umsókn og voru nefndarmenn nú sem áður sammála um að styrkur yrði ekki greiddur á næsta ári fyrr en reikningar bærust samgrn. fyrir yfirstandandi ár.
    Enn fremur vill nefndin beina því enn á ný til samgrn. að þeim aðilum sem fá stofnstyrki undir liðnum ,,Flutningar á landi`` verði kynnt sú meginregla nefndarinnar að stofnstyrkir vegna ákveðinna verkefna verði eingöngu veittir í þrjú ár.
    Nefndin hefur við úthlutun stofnstyrkja að jafnaði

miðað við það að styrkurinn verði ekki hærri samtals en helmingur kostnaðar við kaup á vélum og tækjum.
    Ég mun nú víkja að tillögunum og þeim breytingum sem nefndin er sammála um að gera á fjárframlagi til þessa málaflokks á fjárlögum fyrir árið 1991.
    Nefndin leggur til að framlag til flóabáta og vöruflutninga verði 173 millj. 230 þús. kr. á næsta ári. Samsvarandi upphæð á fjárlögum yfirstandandi árs er 131 millj. 100 þús. kr. Til greiðslu kom reyndar aðeins lægri fjárhæð því í fjáraukalögum fyrir árið 1990 var þessi upphæð skert um 3 millj. kr.
    Til flutninga á landi er lagt til að verja 24 millj. 430 þús. kr. en í ár er til þessa þáttar varið 21 millj. 415 þús. kr.
    Til reksturs ferja og flóabáta leggur nefndin til að framlagið verið 148 millj. 800 þús. kr. en samsvarandi framlag á fjárlögum í ár er 109 millj. 685 þús. kr.
    Nefndin leggur til að veittir verði styrkir til 58 verkefna vegna flutninga á landi, tveimur fleiri en eru í fjárlögum í ár. Af þessum liðum vil ég nefna að teknir eru inn tveir nýir stofnstyrkir.
Annars vegar til Auðkúlu- og Þingeyrarhrepps en þessir hreppar voru fyrir skömmu sameinaðir í eitt sveitarfélag. Styrkur þessi sem er sá fyrsti af þremur er til að kaupa snjóbifreið sem halda á uppi ferðum yfir vetrarmánuðina milli Þingeyrar, Hrafnseyrar og Mjólkár. Hins vegar er veittur stofnstyrkur til Nauteyrarhrepps til að festa kaup á snjóblásara. Ég leyfi mér enn fremur að minnast á lið nr. 58 í brtt. en um hann er það að segja að hann er fyrst og fremst hugsaður sem sjóður sem hægt yrði að grípa til þegar samgöngur teppast og grípa þarf til dýrari flutningatækja. Slíkir flutningar yrðu síðan greiddir skv. reikningi og hefur verið farið fram á það við Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóra í samgrn., að hann annist greiðslur slíkra reikninga í samráði við formenn samgn. Alþingis. Að þessu sinni er fjárveiting skv. þessum lið hækkuð verulega og er skýringin sú að nefndin telur brýnt skv. fyrirliggjandi staðreyndum að styrkja loftflutninga til einangraðra staða á Vestfjörðum og á Austfjörðum. Nefndin mun eftir jólahlé koma saman og ræða m.a. þetta svo mjög brýna verkefni. Greiðslur verði inntar af hendi í samráði við formenn samgn. eins og aðrar greiðslur skv. þessum lið.
    Til reksturs ferja og flóabáta leggur nefndin til að styrkir verði veittir til átta verkefna. Áður en ég segi skilið við flóabáta og ferjur er rétt að geta þess að málefni stærri ferja og flóabáta voru mikið rædd á fundum nefndarinnar, einkum í undirnefnd. Þar sem verulegar fjárfestingar hafa þegar verið ákveðnar í smíði og kaupum á ferjum og flóabátum, sem skipta munu hundruðum milljóna króna, taldi nefndin mjög brýnt að hún fjallaði mun meira um mál er snerta þessar ferjur og báta þá á breiðum grundvelli. Með hliðsjón af þessu ákvað nefndin að taka málefni þeirra til sérstakrar athugunar og meðferðar í byrjun næsta árs.
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki hafa fleiri orð að því er þetta varðar. Ég vísa enn til nál. og brtt. og

hygg að það skýri sig nægilega sjálft án þess að fleiri orð þurfi um það að hafa.
    Ég vil í lokin þakka meðnefndarmönnum fyrir gott samstarf í nefndinni.