Fjárlög 1991
Föstudaginn 21. desember 1990


     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. fór nokkrum orðum um málefni landbúnaðarins og sagði m.a. frá því að hlutur þess atvinnuvegar í fjárveitingum hefði mjög batnað í hans tíð. Hann fór sérstaklega fram á það við forseta þingsins að fá tækniútbúnað til þess að geta sýnt niðurstöður af þessari fullyrðingu. Mér finnst mikil ástæða til þess að vekja athygli á því að það er ekki nægilegt að hafa góðan tækniútbúnað. Það dugir ekki að hafa góðan myndvarpa né heldur góðar glærur eða litskyggnur ef menn skilja ekki það sem á þeim er. Og það vildi svo til að ég fékk hér ljósrit af þeirri heimild sem hæstv. landbrh. bar helst fyrir sig í þessum efnum og átti að sýna sérstaklega fram á það hve mikið hefði dregið úr niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum og þá væntanlega í tíð Sjálfstfl.
    Það er raunar hárrétt sem hæstv. landbrh. segir að því leyti að á fyrri hluta þessa áratugar voru niðurgreiðslur á landbúnaðarvörur tiltölulega mjög miklar. Á sumar vörutegundir m.a.s. svo ríflegar að þær greiddu allan kostnað og jafnvel meira en framleiðslukostnaðinn. Þannig var þetta á fyrstu fjórum árum þessa áratugar. Það er líka hárrétt sem hæstv. landbrh. þá sagði að þá brá svo við að úr þessum niðurgreiðslum dró.
    En svo bregður aftur annað við í lok áratugarins og það er ekkert sérstaklega bundið við hans embættisferil í landbrn. Það sem gerðist í þeim efnum var einfaldlega það að lagður var söluskattur á landbúnaðarvörur og síðan virðisaukaskattur og það var gert samkomulag um það þegar þessar ákvarðanir voru teknar að þessi skattahækkun yrði ekki látin ganga út í vöruverðið og þess vegna hafa niðurgreiðslur á síðari árum aukist. Mér finnst afar þýðingarmikið að menn hafi þetta rétt eftir og ekki síst í návist hæstv. fjmrh. sem eins og allir vita sér hvergi eftir peningum nema þegar landbúnaður á í hlut. ( Fjmrh.: Þetta er nú ekki sanngjarnt. Þetta er nú bara ekki sanngjarnt.) Og það er afar þýðingarmikið að menn átti sig á því einmitt í þessu samhengi að stórlega hefur dregið úr fjárveitingum til landbúnaðarins á síðari árum. Þetta er ég ekki að segja í ámælistón, hvorki til hæstv. landbrh. né hæstv. fjmrh. Við höfum einfaldlega verið að færa landbúnaðinn að því marki að ná fram hagræðingu og endurskipulagningu. Og ég kann þess ekki dæmi, t.d. í sambandi við störf mín í fjvn., að náðst hafi sambærilegur árangur annars staðar sem hefur gerst í landbúnaðinum. Þess vegna er það ógætilegt af hæstv. landbrh. að vera að telja það fram sem sérstakan árangur í hans starfi að aukið hafi verið við tiltekna kostnaðarþætti í rekstri landbúnaðarins. Það er ógætilegt og menn skulu gera sér það fullkomlega ljóst að virðisaukaskatturinn --- og nú bið ég hæstv. fjmrh. að taka vel eftir --- að virðisaukaskatturinn sem er innkallaður af landbúnaðarvörum er á mjög svipuðum nótum og niðurgreiðslurnar. Skatttekjurnar sem ríkissjóður hefur af þessari framleiðslugrein eru ekki mjög óáþekkar því sem er um kostnaðinn. Og þrátt fyrir það að ég og hæstv. landbrh. séum e.t.v., og eðlilega,

ósammála um ýmislegt í þessum efnum, þá megum við ekki gleyma staðreyndum sem skipta hér alveg sérstöku máli. Það hefur sem sagt orðið sú breyting á, gagnstætt því sem hefur gerst í flestum greinum þjóðfélagsins, að landbúnaðurinn tekur sífellt minna fjármagn til sín. Þetta er grundvallaratriði.
    Hæstv. landbrh. talaði líka um það að hlutur ýmissa stofnana væri betri nú heldur en áður var. Hann nefndi sérstaklega til Búnaðarfélag Íslands í þeim efnum. Nú ætla ég ekki að deila um þá hluti. ( Landbrh.: Ég nefndi árið 1988.) Já, ég kannast vel við það. Reyndar var nú ýmsu breytt þá og við skulum ekki fara út í þá hluti. En það sem ég vildi minna hæstv. landbrh. sérstaklega á í þeim efnum er að þau átök sem urðu í kringum árið 1988 --- og þá vil ég biðja menn vel að muna --- urðu til þess að farið var sérstaklega yfir málefni Búnaðarfélags Íslands af fulltrúum fjögurra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Og það fékkst sameiginleg niðurstaða úr þeirri umræðu sem fól í sér sparnað og lægri útgjöld og meiri peninga frá bændunum sjálfum. Það er grundvallaratriði í þessari umræðu, og það sem ég hef talið sérstaklega ámælisvert, hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh., er að það var ekki staðið við þessa niðurstöðu. Þessi niðurstaða var svikin --- þrátt fyrir að aðstoðarráðherra hæstv. núv. landbrh. tæki þátt í þeirri gjörð.
    Um þessi mál snerist m.a. ræða varaformanns fjvn. Alþingis hér við 2. umr. um fjárlögin og þetta er það sem deilan er um á milli mín og hæstv. landbrh. Ég þarf ekkert að vera að metast um það hverjir voru betri og hverjir voru verri. En sá sem stendur ekki við samkomulag skal ekki vera í friði fyrir mér.