Tryggingagjald
Föstudaginn 21. desember 1990


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 450 er að finna nál. 1. minni hl., en hann skipar auk mín hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason.
    Eins og fram hefur komið mun 2. minni hl. nefndarinnar gera sérstaka grein fyrir sínu áliti sem dreift hefur verið. Það er ljóst að þetta frv. sem hér er til umræðu kom allt of seint fram á þinginu, svo seint að raunverulega er varla hægt að ætlast til þess að hv. Alþingi afgreiði þetta mál fyrir jólaleyfi. Ekki bætti úr skák að ágreiningur varð milli stjórnarflokkanna um nokkur ákvæði frv. eftir að það var lagt fyrir þingið. Þrátt fyrir það að hv. fjh.- og viðskn. hafi haldið tvo fundi áður en málinu var vísað til nefndarinnar er ljóst að tímaskortur hamlaði því að frv. fengi þá skoðun í nefndinni sem því ber.
    Eftir þær breytingar sem gerðar verða á frv., ef tillögur meiri hl. hv. nefndar verða samþykktar, er ljóst að athugasemdirnar með frv. eru í verulegu ósamræmi við frv. sjálft. Stafar þetta af því að frv. í sinni upprunalegu mynd er samið af nefnd en nefndin tók að sér m.a. að jafna starfsskilyrði atvinnugreinanna og þess vegna var það ein megintillaga nefndarinnar að sú aðalregla kæmi fram í 2. gr. frv. að tryggingagjaldið, sem er orðið samnefnari fyrir fimm skatta og gjöld, sé hið sama fyrir allar atvinnugreinar.
    Til að rökstyðja þetta er síðan í athugasemdum með frv. skýrt út til hvers þetta sé gert. Með því að breyta frv., og þar með að setja lög sem eru í ósamræmi við 2. gr. frv., er verið að hverfa frá þessari jöfnun eða a.m.k. að samþykkja einungis hækkun á vissum skattgreiðendum en taka ekki það skref sem nefndin sem samþykkti frv. taldi nauðsynlegt.
    Samkvæmt því sem kemur fram af hálfu nefndarinnar sem samdi frv. er þetta frv. einn þáttur í skattkerfisbreytingu til að jafna samkeppnisstöðu innlendra útflutnings- og samkeppnisgreina gagnvart erlendum keppinautum.
    Hér er aðeins um að ræða hluta af þessari skattkerfisbreytingu og með því að breyta frv. er verið að draga úr þessum hluta. Önnur frv. sem nauðsynlegt er að fylgi þessu hafa ekki komið fram og ég leyfi mér að vitna til fskj. með nál. 1. minni hl. En á því fskj. er umsögn Vinnuveitendasambands Íslands. Þar er það undirstrikað að það sé forsenda fyrir því að þetta frv. fái samþykki á Alþingi að hin frv., sem eru í órofa tengslum við þetta, fái jafnframt afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Eða eins og segir í álitinu: ,,Þetta frv. er ekki sjálfstætt og afmarkað mál.``
    Það er full ástæða til þess, virðulegi forseti, að rifja það upp að í almennum athugasemdum með frv. til breytinga á tekjuskatts- og eignarskattslögunum, en það frv. var til afgreiðslu hér fyrir örfáum dögum síðan, er þess getið sérstaklega að strax eftir jólaleyfi sé von á frv. sem tekur á því efni sem Vinnuveitendasambandið er að vísa til.
    Í almennu athugasemdunum með því frv. segir að nefndin hafi lagt til að í fyrsta áfanga yrði tekjuskattshlutfall félaga lækkað úr 50% í 45%. Í áliti nefndarinnar kom einnig fram að hún telji æskilegt að lækka skatthlutfallið enn frekar í áföngum á næstu árum þannig að það verði svipað og gengur og gerist í helstu viðskipta- og samkeppnislöndum okkar.
    Þá eru jafnframt boðaðar ýmsar breytingar á skattlagningu fyrirtækja svo sem leiðir til þess að jafna afkomusveiflur milli ára og fleira. Síðan er það undirstrikað að frv. þar að lútandi komi fram í upphafi næsta árs.
    Hér er komið að atriði sem ég tel fulla ástæðu að leggja mikla áherslu á og hefði satt að segja verið ástæða til þess að hæstv. sjútvrh. og hæstv. viðskrh. væru viðstaddir umræðuna því að ég veit að vinnuveitendur telja sig hafa traustar heimildir fyrir því að skattalagabreytingarnar verði með því sniði sem þessir tveir hæstv. ráðherrar hafa lagt áherslu á, en þar er um að ræða lækkun á tekjuskatti til þess að ljóst sé að skattar hækki ekki með minnkandi verðbólgu. Þá er það forsenda Vinnuveitendasambandsins að ekki verði hætt við að leyfa fyrirtækjum að leggja til hliðar í fjárfestingarsjóð 15% af ágóða og loks að verðbreytingafærslum verði breytt, en sú kynduga staða kemur upp núna að mörg fyrirtæki sýna verulegan ágóða í rekstri á yfirstandandi ári án þess að sá ágóði sé til eða fyrir hendi. Gott dæmi um þetta er Samband ísl. samvinnufélaga sem vegna verðbreytingafærslu, vegna tekjufærslu, sýnir verulegan ágóða þótt sá ágóði sé eingöngu bókhaldslegur vegna þess að vísitölur hreyfast ekki með jöfnum hraða.
    Þetta eru nokkuð flókin efni, efni þó sem ég veit að sumir hæstv. ráðherrar skilja og nefni ég þá sérstaklega Halldór Ásgrímsson sjútvrh., sem er endurskoðandi að mennt, en hann hefur átt viðræður við fulltrúa atvinnulífsins og sýnt þessu máli verulegan skilning og ég veit að það er í trausti þess að þessi bókhaldslegi hagnaður, sem í raun er ekki til staðar í fyrirtækjunum, verði ekki skattlagður með breytingum á skattalögum á grundvelli frv. sem verður lagt fram í upphafi næsta árs, sem vinnuveitendur, a.m.k. að stórum hluta, telja sig geta samþykkt það frv. sem hér er fyrir hendi.
    Á þetta legg ég áherslu, virðulegi forseti, vegna þess að það er sífellt bent á það af hæstv. ríkisstjórn að nauðsynlegt sé að varðveita svokallaða þjóðarsátt en þegar vitnað er til hennar þá er jafnan greint frá því að þetta og hitt sé vilji Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins. Það er þess vegna alveg ljóst að það er skilningur Vinnuveitendasambandsins að þessar breytingar verði gerðar á skattalögum eins og boðað er í því frv. sem nýlega var afgreitt frá hv. deild um tekju- og eignarskatt og litið er á það frv. sem hér er til umræðu aðeins sem einn þátt þessarar breytingar.
    Á þetta legg ég áherslu og ef hæstv. ráðherrar sem hér eru staddir, sem eru hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., óska ekki eftir að taka þátt í þessari umræðu þá verð ég að líta svo á að þeir hafi skilning á þessari afstöðu Vinnuveitendasambandsins.
    Mér er skylt að taka það fram að Landssamband

iðnaðarmanna vill ekki að þetta mál fái afgreiðslu að svo stöddu og telur að hin frv. sem á vantar verði að koma fram áður en endanleg afgreiðsla frv. geti átt sér stað.
    Þá vil ég einnig að það komi skýrt fram að fulltrúar landbúnaðarins, fulltrúar frá Stéttarsambandi bænda, bentu á að hækkun tryggingagjalds af launum bænda gerði það að verkum að sauðfjárafurðir hækkuðu um 1% strax á næsta ári en um 2% tæp þegar og ef gjaldið yrði 4,25%.
    Þá vil ég geta þess, virðulegi forseti, að það er nauðsynlegt að breyta öðrum lögum til þess að þetta frv. nái þeim tilgangi sem að er stefnt.
    Verði þetta frv. samþykkt gerist það að miklu fleiri borga til Atvinnuleysistryggingasjóðs en þeir sem gert hafa það hingað til. Eins og sakir standa hafa þeir einir réttindi til atvinnuleysisbóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem eru meðlimir í stéttarfélögum. Með þessu frv. er í raun tekið fyrsta og stærsta skrefið í þá átt að ýmsir einyrkjar úr atvinnurekendastétt, t.d. bændur og reyndar fjölmargir iðnaðarmenn og iðnmeistarar og fjöldi annarra launamanna sem þó eru atvinnurekendur, sem taka laun eða fá reiknuð laun, að þeir greiði af sínum launum til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þetta þýðir að það er nauðsynlegt að breyta lögunum um Atvinnuleysistryggingasjóð í þeim anda sem hv. 17. þm. Reykv. Geir H. Haarde hefur lagt hér til í Nd. með framlagningu frv. á Alþingi.
    Vinnuveitendasambandið hefur lýst yfir stuðningi við það frv. en ég vil að það komi skýrt fram að Alþýðusamband Íslands hefur enn ekki sagt sitt álit á frv. né heldur á þeim þætti þessa frv. sem snýr að þessu tiltekna atriði og í raun má ekki búast við því að umsögn Alþýðusambandsins geti legið fyrir fyrr en í fyrsta lagi um 20. jan. á næsta ári. Þetta kom fram í nefndarstörfunum.
    Það sem ég vil undirstrika, og það kemur skýrt fram í fskj. með nál., er að það er nauðsynlegt að réttindi og skyldur fari saman. Sé frv. skoðað rækilega kemur í ljós að því miður hafa þeir sem sömdu það víða kastað til þess höndum. Ég vil í því sambandi benda á 19. gr. frv. sem ég held að sé skólabókardæmi um það hvernig ekki á að semja lög.
    Virðulegi forseti. Að lesa lagagrein sem hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta: ,,Ákvæði laga þessara koma í stað þeirra ákvæða laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum, laga nr. 64/1981, um Atvinnuleysistryggingasjóð, með síðari breytingum, og laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, er fela í sér ákvörðun gjaldstofns og gjaldtöku af launagreiðendum sem miðast við launagreiðslur eða launatímabil.`` --- Slíkar tilvitnanir eru mjög óljósar og satt að segja glannalegar, eins og einn gesta nefndarinnar orðaði það og er alls ekki frambærilegur frágangur á lögum.
    Það mætti í raun og veru orða þessa grein þannig að breyta skuli ákvæðum í lagasafni á Íslandi með tilliti til þess sem þarna stendur, svo ónákvæmlega er þetta orðað og minnir þetta á dóma sýslumanns nokkurs sem hirti ekki um að fletta upp á lagaákvæðum heldur vitnaði bara í Lagasafn Íslands. Álíka er gengið frá þessu máli. Skal ég ekki orðlengja frekar um það né heldur að nefna tiltekinn sýslumann í því sambandi. Ég hygg þó að ýmsir frændur mínir í Húnaþingi gætu nefnt hann.
    Þá er ég kominn að því að lýsa í örstuttu máli brtt. sem við í 1. minni hl. flytjum á þskj. 447. Brtt. er sáraeinföld. Hún gengur út á það að breyta hlutfallinu 6% í 5,5% í þeim flokki sem greiða skal hærra tryggingagjald á næsta ári.
    Með þessari brtt. er verið að ganga inn á hugmyndir nefndarinnar sem samdi frv. eða með öðrum orðum að nota þær auknu tekjur sem fást með breikkun skattstofnsins til þess að lækka um 0,5% gjaldið af þeim greinum sem mest greiða í tryggingagjaldinu. Til að skýra þetta nánar má vitna til þess sem segir í svokallaðri hvítri skýrslu sem nefnd er Endurskoðun á skattlagningu fyrirtækja. Á bls. 37, í töflu 3 í þeirri bók er sýnt fram á hvað það þýðir ef tryggingagjaldið í hærri flokknum er einungis 5,5% en ekki 6%. Þar kemur í ljós að tekjuauki ríkissjóðs verður enginn ef við notum 5,5% hlutfallið en verður 500 millj. ef 6% eru notuð. Með öðrum orðum: Við tökum undir það sem kom fram hjá nefndinni sem samdi frv. og viljum fylgja hennar sjónarmiðum eftir, að þessi skattkerfisbreyting leiði ekki af sjálfu sér til aukinnar skattheimtu ríkisins. En því miður virðist hæstv. ríkisstjórn leika þann leik að vera sífellt að breyta lögum í þeim einasta tilgangi að ná meiri skattpeningum, og dugir samt ekki til því ávallt eykst hallinn.
    Falli þessi brtt. teljum við ástæðulaust að styðja þetta frv. og munum að sjálfsögðu ekki gera það.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, rétt ítreka það sem ég hef lagt töluverða áherslu á í þessu máli mínu: að hér er aðeins verið að taka eitt skref af nokkrum sem nauðsynlegt er að taka á sama tíma til að ná þeim árangri sem að er stefnt og aðilar vinnumarkaðarins, a.m.k. vinnuveitendur, geta sætt sig við. Á þetta legg ég höfuðáherslu því ef b fylgir ekki a-inu þá er verr af stað farið en heima setið.
    Lýk ég hér máli mínu, virðulegi forseti.