Tryggingagjald
Föstudaginn 21. desember 1990


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Ég kem hér í ræðustólinn vegna ummæla hv. 15. þm. Reykv. um frv. það sem ég hef hér lagt fram og varðar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar. Nú vill að vísu svo til að það frv. er ekki á dagskrá nú og hefur reyndar ekki komist á dagskrá deildarinnar vegna anna. Því er það heldur óviðurkvæmilegt að vera hér að lýsa afstöðu samtaka sem ekki hafa fengið þetta mál til meðferðar vegna þess að það hefur ekki verið sent neitt til umsagnar enn sem komið er. Hins vegar er það auðvitað ekkert launungarmál að í þessu frv. eru atriði sem gera má fastlega ráð fyrir að Alþýðusamband Íslands sé andvígt, þ.e. ákvæði þess efnis að menn geti fengið atvinnuleysistryggingabætur án þess að vera félagar í stéttarfélagi, sem mér finnst reyndar svo sjálfsögð mannréttindi að það ætti ekki að þurfa að ræða það einu sinni. En ég ætla að bíða með að ræða það mál efnislega þangað til frv. sjálft kemst á dagskrá.
    Hitt er aftur á móti alveg ljóst, eins og hv. 1. þm. Reykv. hefur hér bent á í umræðunni, að það frv. sem hér er til meðferðar kallar óhjákvæmilega á einhverjar breytingar á gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar vegna þess að gert er ráð fyrir að fleiri greiði í Atvinnuleysistryggingasjóð heldur en nú er og þess vegna hljóta þeir aðilar að eignast þar einhvern rétt. Reyndar er það svo í dag að ýmsir greiða í sjóðinn án þess að eiga þar rétt til bóta, hafa sem sagt bara skyldurnar en ekki réttindin. Þannig að þetta frv. sem ég hef hér flutt og hefur verið gert að umtalsefni miðar að því að bæta úr þeim réttindaskorti. Auðvitað er það rétt, sem fram kemur í nál. hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar og Friðriks Sophussonar, að það frv. getur hæglega verið grunnur að frekari breytingum sem þarf að gera í tengslum við þetta tryggingagjald. Og vitaskuld væri það kærkomið að taka þátt í að vinna að frekari endurbótum á þessu sviði á grundvelli þess frv.