Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 21. desember 1990


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er til umfjöllunar er leiðréttingarfrv., frv. sem flutt er til þess að leiðrétta margháttaðar villur sem komið hafa í ljós eftir að Alþingi afgreiddi síðast lög um þessa stofnun, Húsnæðisstofnun ríkisins, á síðasta vori. Hér voru afgreidd í miklum flýti, eins og flestir muna eflaust, lög um svokallaðar félagslegar íbúðir á síðasta vori. Frv. var hraðað með óeðlilegum hætti í gegnum þingið og síðan hefur komið í ljós að á þeirri meðferð voru margháttaðir annmarkar og meinbugir sem þarf að leiðrétta.
    Upphaflega frumvarpið, sem hér er til meðferðar, gerir ráð fyrir því að tekið verði af skarið um stimpilgjaldsfrelsi lánssamninga sem Húsnæðisstofnun gerir við framkvæmdaraðila vegna félagslegra íbúða. Skal ég ekki hafa um það atriði mörg orð önnur en þau að með þessari stefnu, bæði þessu atriði og lögunum eins og þau voru samþykkt í vor, kemur auðvitað glöggt fram hvernig mismunað er milli annars vegar þeirra sem notfæra sér félagslegt húsnæði og hins vegar hinna sem reyna að byggja á eigin spýtur. Annar hópurinn verður að borga stimpilgjöld og hinn ekki. Það vill reyndar þannig til að í húsbréfakerfinu hefur fjöldi skjala vaxið mjög sem hver og einn þarf að greiða stimpilgjöld af þannig að kostnaður vegna þessa þáttar hefur stórhækkað að undanförnu hjá venjulegu fólki sem ekki er í félagslega kerfinu. En látum það vera. Ég skal ekki eyða frekari tíma í það. Ég bendi bara á þetta ósamræmi sem hér er.
    Að því er varðar önnur atriði sem inn í þetta frv. hafa komið í meðferð Ed. er þess að geta að í 1. gr. hafa verið teknar inn þrjár leiðréttingar sem greinilega hefur þótt nauðsynlegt að gera eftir að menn fóru að skoða ráð sitt eftir að lögin voru afgreidd í vor. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að bera þetta saman í þeim önnum sem hafa verið hér undanfarnar klukkustundir og dægur, bera nákvæmlega saman hvort þessar tilvitnanir og annað er rétt en treysti því að svo sé.
    Hins vegar er í 3. gr. frv. vikið að því máli sem ég gerði hér að umtalsefni hinn 26. nóv. sl. í framhaldi af því að út var gefin sérprentun félmrn. á lögum um Húsnæðisstofnun frá 1988, með síðari breytingum. Ég vakti máls á því að ráðuneytið hefði tekið sér það vald að leiðrétta texta í lögunum í þessari sérprentun og þó svo að slík breyting ráðuneytisins hefði að sjálfsögðu ekki lagagildi væri hún villandi og óheimil og nálgaðist það að vera fölsun. Ég fagna því þess vegna sérstaklega að það er farið að mínum ráðum í þessu efni. Ég lagði það til í umræðum hér þann 26. nóv. sl. að þessu yrði breytt með lögum í einhverju af þeim frv. sem væntanleg væru frá ráðherra um þetta mál. Það er gert hér og ég hlýt auðvitað að fagna því.
    Hins vegar er það svo, virðulegi forseti, að það virðist ekki ætla af þessum málum að ganga, af þessu blessaða frv. eða þessum blessuðu lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, og öllum þeim mistökum og villum sem inn í þau hafa slæðst. Ég sé ekki betur, virðulegi forseti, en að í þessari meðferð hafi komið inn enn ein villa og vil þess vegna gefa forseta færi á að leiðrétta hana fyrir 3. umr. Mér hefði auðvitað verið í lófa lagið að bíða með að benda á það þangað til við 3. umr. eða þangað til að lögin væru samþykkt. Í 4. gr. frv., eins og nú stendur, segir:
    ,,Fjmrh. er heimilt að endurgreiða stimpilgjald af skjölum þeim sem um getur í 1. gr. og stimpluð voru eftir 1. júní sl.``
    1. gr. fjallar ekki um neina endurgreiðslu stimpilgjalda. 1. gr. fjallar nú um allt annað. 2. gr. frv. fjallar um þetta. 4. gr. vísar þess vegna í ranga grein og enn á ný verður þessu ekki breytt nema með brtt. sem ég vænti að aðstandendur þessa frv. muni flytja við 3. umr. ef þeir vilja koma þessu máli hér í gegnum þingið með réttum hætti til þess að ekki komi enn einu sinni skökk lagatilvísun eða enn ein villan inn í þessi blessuð, vesalings lög.