Starfsmannamál
Föstudaginn 21. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Þegar Alþingi samþykkti á sínum tíma ný lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga var það ekki athugað sem skyldi að í raun felst breytt verkaskipting í því að flytja fólk en ekki verkefni milli þessara tveggja stjórnstiga. Því miður var ekki nægilega hugað að því að við þessa breytingu eru þúsundir af starfsfólki sem færast frá sveitarfélögum til ríkis. Það hefur þær afleiðingar samkvæmt gildandi lögum að þessir starfsmenn ættu samkvæmt þeim að breyta um stéttarfélag og ýmsar aðrar breytingar að verða á þeirra stöðum.
    Á þessu ári hefur verið lögð mikil vinna í það af hálfu fjmrn., heilbrrn. og annarra ráðuneyta og forustumanna Bandalags starfsmanna ríkis og bæja að finna viðeigandi lausnir á þessu vandamáli. Í þessu frv. er lagt til að lögfesta breytingar sem eiga að auðvelda það sem þingið var áður búið að ákveða í lögum. Ein af þeim leiðum sem þarna eru farnar er að heimila fjmrn. einnig að flytja framkvæmd kjarasamninga út til einstakra stofnana og heim í héruð til þess að flytja ekki þá starfsemi og það forræði sem áður var heima í héraði suður til Reykjavíkur eða í miðstýrðan hluta stjórnkerfisins. Er ég sannfærður um að það er einnig jákvæður og nauðsynlegur þáttur í þessum breytingum.
    Þetta mál hefur ekki verið ágreiningsmál hér á hv. Alþingi og mælist ég til þess að að lokinni 1. umr. verði því vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.