Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar
Föstudaginn 21. desember 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Á dagskrá þessa fundar er einungis eitt mál, frestun á fundum Alþingis. Hins vegar hefur hv. 1. þm. Suðurl. farið þess á leit að fá að ræða við hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar og yfirlýsingar forsrh. eins og hv. þm. kýs að nefna erindi sitt. Forseti hefur leyft ómælda umræðu þar sem ekki náðist samkomulag um umræðu samkvæmt fyrri mgr. 32. gr. þingskapalaga. Hins vegar vill nú forseti með tilliti til þess að mjög dregur nær jólum, að starfsfólk hér hefur unnið ofurlangan vinnudag nú um langt skeið og hv. þm. eru eflaust orðnir þreyttir og í þörf fyrir að komast til síns heima, fara fram á að miðað sé að því að þessi umræða standi ekki mikið lengur en 1 -- 1 1 / 2 klukkutíma. Ég vænti þess að samstarf náist um að stefna að þessu og menn stilli máli sínu í hóf sem mest þeir mega, en að sjálfsögðu hefur forseti ekki leyfi til að hindra menn á nokkurn hátt. (Gripið fram í.) Skrifari minn bendir mér á að minna hv. þm. á að vera hér í húsinu til þess að unnt sé að samþykkja tillögu um frestun þinghalds.