Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar
Föstudaginn 21. desember 1990


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og fara um hana og ákvarðanir Búnaðarbankans, sem mjög hafa verið hér til umræðu, nokkrum orðum.
    Auðvitað er sú umræða sem fram hefur farið bæði hér og í þjóðfélaginu á síðustu vikum byggð á miklum misskilningi. Sú nafnvaxtahreyfing sem átti sér stað er ekki almenn vaxtahækkun eins og ákveðnir menn hafa látið líta út í fjölmiðlum á síðustu vikum. Hér er fyrst og fremst um hreyfingu á örlitlu af fjármagninu að ræða. Hvers vegna er hún? Hvers vegna þarf að fara í þessa uppsveiflu nú? Það er fyrst og fremst vegna þess að á næstu þremur mánuðum verður lítil uppsveifla á verðbólgu sem liggur fyrir í þetta 7 -- 10%. Það er samkvæmt spá Seðlabankans, samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar, samkvæmt spá fjmrn. Það er ljóst hvers vegna þetta er. Launahækkanirnar sem áttu sér stað 1. des. koma inn í grunn lánskjaravísitölunnar af fullum þunga nú í janúar. Síðan blasir það líka við að launahækkanir eru 1. mars. Menn hafa áttað sig á því að launin vega þungt í lánskjaravísitölunni, vega þar þriðjung.
    Til þess að útskýra hvað um var að vera vil ég segja það að nafnvextirnir eða óverðtryggðu kjörin hafa nú á seinni hluta þessa árs staðið, miðað við 4 -- 5% verðbólgu. Verðbólga í desember miðað við 12 mánuði varð 7,13%. Þess vegna varð nú að taka þessa ákvörðun. Það er rétt sem hefur komið fram hjá hæstv. viðskrh. að hér er fyrst og fremst verið að jafna bilið á milli verðtryggðra og óverðtryggðra kjara. Til þess að glöggva menn á því hvað er um að vera vil ég segja þingheimi frá því að 15 -- 20% af sparifénu í Búnaðarbankanum og bankakerfinu er á nafnvöxtum. 80% af sparifénu í Búnaðarbankanum er verðtryggt. Þar koma vísitölurnar sjálfrátt inn og sjá um verðbólguhækkanir. Þær koma þar sjálfrátt inn og koma með verðbólguvextina á spariféð, á höfuðstólinn í samræmi við verðbólguna.
    Af útlánum í Búnaðarbankanum eru 60% verðtryggð en 40% á nafnvöxtum. Þar koma, á þessum 60%, vísitölurnar sjálfrátt inn, hækka vextina sjálfrátt til skuldaranna. En á þessum 40% verða bankaráðin að hreyfa til til samræmis. Það eru því tvö mæliker í bönkunum eins og menn vita samkvæmt lögum frá Alþingi. Og meira að segja hefur Alþingi bannað að verðtryggja fjárskuldbindingar á útlánum sem eru undir tveimur árum.
    Ég varð líka að geta þess, af því að þetta er allt saman þekkt og upplýst, til að glöggva menn enn frekar t.d. á stöðunni í þeim banka sem ég veiti forstöðu, að þar eru 18 milljarðar af sparifé á verðtryggðum kjörum en 12 milljarðar af útlánum eru á verðtryggðum kjörum. Þarna er skekkja upp á 6 milljarða og auðvitað, ef þarna skapast mismunur milli verðtryggðra og óverðtryggðra kjara, myndast halli í bankanum. Hann getur numið nokkur hundruð milljónum á ári, við skulum segja ef í heilt ár væri mismunur á milli nafnvaxta og verðtryggðra upp á 3%, þá myndaðist í þessum banka halli upp á 180 millj.

kr. En þá spyrja menn auðvitað: Getur bankinn ekki tekið þetta á sig? Er gróði bankakerfisins ekki með þeim hætti að bankinn geti tekið það á sig?
    Nú hefur sú umræða verið með nokkuð glannalegum hætti. Verkalýðsleiðtogi úti í þjóðfélaginu hefur lýst því yfir að hagnaður bankakerfisins verði 3 milljarðar á þessu ári. Ég varð dálítið hugsi þegar þessi yfirlýsing kom, hverjir væru að gera það svona gott. Mér datt fyrst í hug að Seðlabankinn væri inni í þessari umræðu því að þar var gróði á síðasta ári upp á 2,2 milljarða kr. En það kom í ljós að hann átti ekki við Seðlabankann. Nú get ég upplýst það, ekki síst af því að hér situr hv. þm. Stefán Valgeirsson, fyrrv. formaður bankaráðs Búnaðarbankans, að útlit er fyrir það að hagnaðurinn í Búnaðarbankanum verði 100 millj. kr. minni á þessu ári en því síðasta. En eins og þið þekkið verða bankarnir samkvæmt lögum að skila ákveðnum hagnaði og staða bankans er allþokkaleg. En þetta segir allt um það að bankinn getur ekki tekið mikinn mismun á sig.
    Auðvitað spyr maður: Hvaða bankar eru þá að græða? Skyldi það vera Landsbankinn, sem alltaf hefur haft minni hagnað en Búnaðarbankinn? Ég hef grun um að ef menn skoða reikninga Landsbankans frá síðasta ári komist þeir að raun um það að hann var á núlli á því ári. Ég ætla að spá því hér að þegar niðurstaðan kemur úr þeim ágæta banka eftir þetta ár verði sú niðurstaða á núlli. Þannig að talið um gróða bankanna á þessu ári á ekki við rök að styðjast.
    Það er ljóst mál að mikið hefur gengið á í atvinnulífinu. Það hafa riðið yfir, eftir erfiðu árin 1987 og 1988, gjaldþrot og bankarnir hafa orðið fyrir miklum töpum sem ekki síst eru að koma fram á þessu ári. Ég vil líka, af því að ég minntist hér á Seðlabankann, minna menn á það að samkvæmt lögum eru bankarnir skikkaðir til þess að hafa háar upphæðir, svo milljörðum skiptir, bundnar þar inni á aðeins 2% vöxtum. Ríkisstjórnin gæti skoðað þetta mál, hvort þarna væri hægt að liðka til með einhverjum breytingum.
    En af því að við erum að tala um verðtryggð og óverðtryggð lán, við erum að tala um þessi tvö mæliker sem eru í húsi bankanna, samkvæmt lögum frá Alþingi, þá vill það svo til að sú hæstv. ríkisstjórn sem ég styð og tel að hafi unnið mörg góð verk, á margt göfugt enn í stefnuskrá sinni sem hún hefur ekki nýtt sér. Ég er hér með málefnasamning ríkisstjórnarinnar. Þar stendur skýrum stöfum á bls. 7:
    ,,Stefnt verður að því að afnema vísitöluviðmiðanir í lánssamningum eins fljótt og unnt er. Miðað verður við að árshraði verðbólgu verði innan við 10% á sex mánaða tímabili. Vísitölutenging fjárskuldbindinga til langs tíma verður athuguð sérstaklega og þess gætt að markaðsstaða spariskírteina ríkissjóðs veikist ekki. Áfram verður heimilt að gengistryggja lánasamninga.``
    Auðvitað blasa aðstæðurnar við að baki að þessu ber að koma til framkvæmda til þess að ekki séu tvö mæliker í húsi bankanna. Þetta er skýrt orðað í stefnuskránni. Auðvitað blasir það við, sem betur fer, að verðbólguspá næsta árs og horfur segir allt um það að

hér verður verðbólga undir 10% á næsta ári. Mesta afrek í mínum huga hjá þessari ríkisstjórn er að ná svo glæsilegum árangri, sigla þannig upp úr kreppunni, ná samkomulagi í þjóðfélaginu og þessum glæsilega árangri, að verðbólga verði undir 10% á heilu ári, sú lægsta í ein 20 ár, tvö ár í röð.
    Hér hefur verið rætt um hvort bankarnir hafi farið að lögum, hvort þeir séu að brjóta þjóðarsátt o.s.frv. Nú er það ljóst að bankarnir gengu inn í þjóðarsáttina af fullum þunga. Við þá náðist mjög merkilegt samkomulag sem segir það að menn eigi ekki að ganga með grjóthríð að bönkunum eftir svo gott starf sem þeir hafa unnið eftir nýjum reglum á því ári sem nú er að líða. Það var samið um allt annan útreikning á nafnvöxtum en gert hafði verið áður. Það var samið um, til þess að hraða nafnvaxtalækkuninni, að horfa einn mánuð til baka, tvo fram í tímann en áður hafði alltaf verið þrír mánuðir aftur. Eftir þessu samkomulagi hefur verið unnið við lækkunina en bankarnir hafa ekki farið núna jafnhratt í hækkanir. Tilefnin voru fyrr en þetta en bankarnir vildu sjá, bíða eftir niðurstöðum og hreyfa sig ekki upp á við fyrr en nauðsyn knúði þá til þess.
    Ég er með í höndum samkomulag sem fylgdi og gert var í þjóðarsáttinni. Þar stendur: ,,Vaxtaákvarðanir síðar á árinu munu verða miðaðar við að ávöxtun verðtryggðra og óverðtryggðra útlána verði sem jöfnust yfir árið.`` Ég býst við því að hæstv. ráðherrar þekki þetta, enda las hæstv. viðskrh. upp þessa yfirlýsingu.
    Ég vil segja það hér að ég tel mjög mikilvægt að leita leiða til að lækka raunvexti. Menn ættu fremur að ræða um það, enda gerði forsrh. það hér í sinni ræðu, og lýsti vilja til að ná samkomulagi um það. Ríkisstjórnin, bankarnir og aðilar aðrir í þjóðfélaginu eiga að stefna að raunvaxtalækkun. En þar verða allir að taka á og tala sama tungutak. Því auðvitað er það ljóst að ýmislegt veldur því að bankarnir geta ekki mjög hreyft sig til með raunvextina. Þar eiga húsbréfin sinn hlut. Þar eiga ríkisskuldabréfin sinn hlut. Þar eiga spariskírteinin sinn þátt. Þar eiga lífeyrissjóðirnir sinn þátt og fleira og fleira sem þar kemur inn.
    Ég vildi ræða örlítið um mikilvægi þess að bankaráð vinni sjálfstætt og starfi samkvæmt lögum og ég lýsi því yfir hér að ég er hvorki fangi ríkisstjórnarinnar í þessu máli né fangi bankastjóranna eins og látið hefur verið liggja að í blöðum. ( Gripið fram í: En fulltrúi Framsfl.) Og mig langar heldur ekki að vera fangi á Litla - Hrauni þó að það sé í kjördæmi mínu. Þess vegna hef ég kappkostað að vera heiðarlegur fulltrúi Framsfl. í þessu bankaráði. Ég hef unnið með bankaráðinu og þar er mjög góð samstaða. Allar ákvarðanir í vaxtamálum hafa verið unnar í gegnum endurskoðendur bankans sem heyra sjálfstætt og beint undir bankaráðið. ( Fjmrh.: Er það stefna Framsfl. sem þú ert að framkvæma?) Það væri nú mikilvægt ef hæstv. fjmrh., sem á sinn þátt í háum raunvöxtum, hefði hljóð á meðan ég lýk máli mínu hér.

    Ég vil ekki taka þátt í neinu hnútukasti í þessu máli og ég vísa ummælum um vantraust á bankaráðið á bug. Ég hef reynt að rekja það hér fyrir ykkur, hv. alþm., hver staðan var og hvers vegna. Það var gæfa þessa nýja bankaráðs í Búnaðarbankanum að geta verið mikill þátttakandi í þjóðarsáttinni. Það var Búnaðarbankinn sem hraðast og oftast leiddi niður nafnvextina. Ég hygg að ég sé búinn að standa að einum 20 -- 30 nafnvaxtalækkunum en aðeins orðið að síga með þá upp á við á móti verðbólgunni núna í tvö skipti.
    En eru ekki einhver alvarlegri tíðindi sem eru að gerast fremur en þetta, þó menn ætli ekki að láta sparifé á nafnvöxtum, á almennum launareikningum og almennum bókum í eigu fullorðins fólks og fleiri aðila, fátækra verkamanna sem vilja hafa þessa peninga tilbúna og til taks, láta þá ekki bara brenna upp eða vera á allt öðrum kjörum en hjá hinu fólkinu sem hefur efni á því að binda sitt fjármagn til langs tíma? Alvarlegustu tíðindin eru auðvitað þau að fyrir mánuði tóku tvær peningastofnanir síðan ákvörðun um að keyra upp vexti á innlánum. Íslandsbanki og sparisjóðirnir hækkuðu á dögunum raunvexti á sparifé úr 5,5% upp í 6,5%. Við í Búnaðarbankanum vorum farnir að hreyfa raunvexti á verðtryggðu sparifé einnig niður í sumar. Við lækkuðum þar örlítið og ég hygg að hinir bankarnir hafi gert það einnig. En þessi ákvörðun Íslandsbanka og sparisjóðanna segir að það mun hækka á hinni hliðinni líka í peningakerfinu nema menn reyni að minna á þjóðarsátt og ná samkomulagi við þessar peningastofnanir um breytingu.
    Ég vil taka sérstaklega undir orð hæstv. forsrh. um að lækka raunvexti. Ég vil lýsa því yfir að ég er tilbúinn sem bankaráðsformaður að leggja mitt af mörkum ef mennirnir hafa áhuga á að ræða um það við okkur, ef við höfum traust til þess að segja. Hæstv. viðskrh. fullvissaði þing og þjóð í sinni ræðu um það að þessi ákvörðun væri í samræmi við það sem menn settu sér. Flyt ég honum þakkir fyrir þau ummæli og er þá í mínum huga allur vafi horfinn og menn sjá að þær fullyrðingar að við höfum ekki farið að lögum og farið rangt að eiga ekki við rök að styðjast.
    Hann minntist hér á annað. Hann spurði: Hvers vegna lækkuðu ekki nafnvextirnir um laxveiðitímann? Það er nú svo með sumarið og laxveiðitímann að það gleymist margt þá. En það var ekki nákvæmlega það sem gerðist í bönkunum. Það var unnið af fullu kappi þar um laxveiðitímann. Og ástæða þess að nafnvextirnir fóru þá hægar niður var auðvitað fyrst og fremst sú að þá blasti það við í þessu þjóðfélagi að þjóðarsáttin var í hættu. BHMR - deilan stóð sem hæst. Menn vissu ekki hvað tveir næstu mánuðir bæru í skauti sínu fyrr en ríkisstjórnin tók af skarið með sínum skörungsskap í þeim efnum og setti á bráðabirgðalög, sem að vísu eru umdeild. Þar með blasti það við að þjóðarsáttin mundi haldast og menn sigu niður strax á eftir. Búnaðarbankinn fór með nafnvextina t.d. á víxillánum 20. sept. niður í 12,25%, lægstur allra peningastofnana, meðan aðrir eins og Landsbankinn héldu sig í 12,75% og Íslandsbanki ofar.

    Ég hef hér reynt að útskýra þessa niðurstöðu og vænti þess að bæði alþingismenn og ekki síður þjóðin fari nú að átta sig á því að hér er ekki um neina almenna hækkun að ræða heldur hreyfingu á örlitlu af fjármagni peningastofnananna, 15 -- 20% af sparifénu eins og ég sagði og skammtímaútlánum sem eru um 40% og eru þá oftar eyðslu - og óþarfalán. Ég veit að nú hefur þjóðin fræðst um það að allt tal verkalýðsforingjans og fleiri hefur villt þessa umræðu og á ekki við rök að styðjast.