Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar
Föstudaginn 21. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi óska forseta Sþ., forseta Nd. og forseta Ed. og starfsfólki Alþingis til hamingju með það að störfum á Alþingi síðustu daga hefur verið stýrt svo vel að þingheimur hefur tíma til þess að sitja hér á almennum málfundi um efnahagsmál og peningamál, þegar starfsfólk þingsins hefur unnið nætur, kvöld og daga undanfarið og allir þingmenn vita að það bíður eftir því að geta farið að sinna fjölskyldum sínum og jólaundirbúningi. ( FrS: Þessi ræða hefði mátt koma fyrr.) Já, hún hefði mátt koma fyrr. En fyrsta skylda ( ÞP: Er búið að afgreiða lánsfjárlög?) Nei, þeim var frestað samkvæmt ósk Sjálfstfl. En ég segi þetta hér vegna þess að venjan hefur verið sú, ég held að það sé nánast engin undantekning frá þeirri venju um langan tíma, að menn ljúka afgreiðslu frv. og þeirrar lagasetningar sem þarf að sinna fyrir jól, en menn taka ekki upp almennar stjórnmálaumræður á þessum síðustu dögum. Og ég segi þetta vegna þess að það er merkilegt að forusta Sjálfstfl. sem hefur í merki sínu 40% verðbólgu, 14% raunvexti, milljarða viðskiptahalla, gjaldþrot atvinnulífsins, skuli kjósa að koma hér upp og vilja ræða það og jafnvel gagnrýna að raunvextirnir séu 6%, verðbólgan sé 7% og jákvæð formerki séu á öllum öðrum sviðum í efnahagslífinu.
    Hér endurtaka menn hver um annan þveran að þetta sé allt saman á ábyrgð ríkissjóðs og fjmrh. Já, við skulum spyrja að staðreyndunum í þeim efnum. Hverjir voru raunvextirnir á spariskírteinum ríkisins þegar Sjálfstfl. fór með forustu? Þeir voru 9%. Hverjir eru raunvextirnir á spariskírteinum ríkisins nú? Þeir eru 6%. ( ÞP: Rúmlega 7.) Þeir eru 6%, Þorsteinn Pálsson, með sama mælikvarða, hv. þm. En það er eðlilegt að hv. þm. Þorsteinn Pálsson sitji órór í sæti sínu þegar hann er minntur á það að fjármála - og efnahagsstjórn hans leiddi til þess að hann gat ekki selt spariskírteini ríkisins nema á 9% raunvöxtum, og það sem meira var, varð að binda hendur bankanna til þess að kaupa spariskírteini ríkisins vegna þess að það var ekki einu sinni hægt með þessu háa vaxtastigi að selja þau á frjálsum markaði. Það varð til viðbótar að koma til binding á bankana. Þegar ég kom í fjmrn. var þar samningur um að binda hendur bankanna í kaupum á spariskírteinum og raunvaxtastigið var með þessum hætti. En hvernig er veruleikinn nú? Frjálst markaðskerfi á þessum sviðum, þar sem ríkissjóður hefur náð meiri árangri með lægri vöxtum í sölu þessara ríkispappíra en Sjálfstfl. hefur nokkurn tíma komist nálægt. Það er staðreyndin. Það er niðurstaðan af þessari efnahagsstefnu sem markaðurinn sjálfur hefur dæmt. Og ef Sjálfstfl. trúir ekki dómi markaðarins, hverju ætti hann þá að trúa?
    Á þessu ári hefur verið fullkomið frelsi á þessum markaði. Ríkissjóður hefur selt sína pappíra með lægra vaxtastigi, um það bil þriðjungi lægra vaxtastigi en var þegar Sjálfstfl. réð hér. Þriðjungsmunur í raunvöxtum er risavaxinn. Almenningur á Íslandi mun á næstu árum þurfa að borga til baka kostnaðinn af

spariskírteinunum á hinu háa raunvaxtastigi Sjálfstfl. Svo kemur formaður Sjálfstfl. og segir hér: Það er efnahagsstefnan sem hefur búið til þetta raunvaxtastig. Hvernig var þá sú efnahagsstefna sem bjó til 9 -- 10% raunvaxtastig á spariskírteinum ríkisins, vaxtagólfinu sjálfu, og 14 -- 18% raunvaxtastig á almenna markaðnum? Hvaða orð má hafa um þá efnahagsstefnu Sjálfstfl. ef hv. þm. Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson, telur sig þess umkominn hér síðustu klukkustundir fyrir jólafrí að eyða dýrmætum tíma til þess að setja sig á háan hest í þessum málum? Hvað gerðist svo eftir að við tókum við, þegar bankarnir neituðu að lækka raunvextina, bankarnir neituðu að lækka nafnvextina og bankarnir sögðu upp samningnum við ríkissjóð til þess að skilja hann einan eftir? Hvað gerðist? Jú, eins og hér var um getið áðan. Ríkissjóður fór í fararbroddi raunvaxtalækkunarinnar mánuð fyrir mánuð, missiri fyrir missiri sl. tvö ár. Það er ríkissjóður sem hefur leitt raunvaxtalækkunina á þessum markaði allan þennan tíma. Það eru staðreyndirnar, það er veruleikinn. Það er það sem allir viðurkenna.
    En til viðbótar hefur tekist að snúa því við sem var er við komum í fjmrn. Þá var 80% af lánsfjárþörf ríkisins mætt með erlendum lánum. Árið 1989 snerum við því við í 80% innlend lán og í ár yfir 100% á frjálsum markaði með lækkandi raunvöxtum. Og ef það sýnir ekki muninn, að snúa 80% erlendri lánsfjármögnun á tveimur árum yfir í 100% innlenda lánsfjármögnun í fullri frjálsri samkeppni og með lækkandi raunvöxtum, þá veit ég ekki hvað er mælikvarði á árangur efnahagsstefnu. Enda er það auðvitað þannig að virtustu efnahagsstofnanir á Vesturlöndum, IMF, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og OECD, hafa í skýrslum sínum eindregið og afdráttarlaust fellt sinn dóm yfir þessum árangri og hann er mjög jákvæður, en vara jafnframt við því að efnahagsstefna Sjálfstfl. komist hér til valda á nýjan leik. Og þegar bæði markaðurinn og virtustu efnahagsstofnanir á Vesturlöndum kveða upp þennan sama dóm, þá þykist forusta Sjálfstfl. vera þess umkomin síðustu klukkustundir fyrir jól að setja sig á háan hest og biðja um utandagskrárumræður um þessi mál. Það væri vissulega tilefni til að ræða þetta hér dag eftir dag, til að draga fram hverja staðreyndina á fætur annarri til að leiða fram þennan mun. Bera saman tímann þegar mennirnir á háa hestinum réðu hér öllu og því sem hefur gerst síðan. Það er nefnilega ríkissjóður sem hefur leitt þessa raunvaxtalækkun, sem hefur skapað þennan stöðugleika með innlendri lánsfjáröflun og sem hefur treyst sér til þess í fyrsta sinni í langan tíma að gera það við fullkomlega frjálsar samkeppnisaðstæður á peningamarkaðnum.
    Það hefur mikið verið gert úr því að í sumar bauð ríkissjóður fáeinum stórkaupendum, viðskiptabönkum og lífeyrissjóðunum, viss ... ( Gripið fram í: Var það útsala?) Það var engin útsala, það sýnir nú best fákunnáttu þingmanns Sjálfstfl., þetta frammíkall --- viss jákvæð skilyrði vegna þess, eins og tíðkast í almennum viðskiptum á frjálsum markaði, að góðum viðskiptavinum eru veitt betri kjör. Ef markaðskerfið

gengur ekki út á það að góðum viðskiptavinum séu veitt betri kjör, þá veit ég ekki út á hvað markaðskerfið gengur. En það sýnir kannski fákunnáttu Sjálfstfl. í markaðskerfinu að þeir skuli standa hér upp og hneykslast á þessu líka. Er ekki kominn tími til að halda námskeið fyrir þingflokk Sjálfstfl. í markaðskerfinu? Jú, við gerðum þetta. ( ÞP: En þetta markaðskerfi þýddi hærri vexti.) Það þýddi smávegis viðbót, hv. þm. Þorsteinn Pálsson, já, já, það er alveg rétt, brot úr prósenti í tvo mánuði, hv. þm. En því lauk í ágúst, hv. þm. Ríkissjóður hefur ekki verið á þessum markaði síðan í ágúst nema að bjóða almenningi spariskírteinin í áskrift á 6% vöxtum. Hann hefur ekkert verið á þessum markaði síðan í ágúst þannig að ríkissjóður hefur ekkert verið að þrengja að bönkunum, a.m.k. ekki síðan í ágúst. Bankarnir geta ekkert notað ríkissjóð sem afsökun síðan í ágúst fyrir þessu háa raunvaxtastigi, ekki með neinum hætti. (Gripið fram í.) Já, við getum alveg rætt ríkisvíxlana, ég er tilbúinn til þess hér áfram að fara í gegnum þetta lið fyrir lið, atriði fyrir atriði og mánuð fyrir mánuð. ( FrS: Gerðu það nú.) Já, ég skal gera það, hv. þm. Friðrik Sophusson, sem hefur legið í bankaráði Landsbankans og beðið þar um vaxtahækkanir á undanförnum mánuðum af því að það hefur auðvitað verið krafa Sjálfstfl. að halda hér aftur inn á sömu vaxtahækkanabrautina. ( FrS: Hver hefur sagt það?) Hver hefur sagt það? Það flýgur nú margt í Austurstrætinu, hv. þm. Friðrik Sophusson. En ef hv. þm. er reiðubúinn að koma hér upp á eftir og bera það til baka að hann hafi verið talsmaður vaxtahækkana í bankaráði Landsbankans, þá mundi ég fagna því.
    Staðreyndin er nefnilega sú að það er ekki ríkissjóður sem er ábyrgur fyrir því að viðskiptabankarnir hafa verið á þessari villubraut. Það er fákeppniseðli íslensku viðskiptabankanna, það er þessi eilífi samanburður á milli þeirra, það er að ekki hefur tekist að koma á eðlilegum samkeppnisháttum milli viðskiptabankanna sjálfra. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að breyta skipan bankakerfisins hér á landi til þess að efla þessa samkeppni. Og ég er líka þeirrar skoðunar að það eigi að banna bönkunum að breyta vöxtunum nema á um það bil tveggja mánaða fresti. Þessar eilífu breytingar og eltingar bankanna út frá einhverjum spám sem þeir hafa takmarkaða hugmynd um eru ekki eðlilegir þættir í starfsemi bankanna. ( FrS: Er það þá markaðskerfi?) Já, já, það getur verið markaðskerfi, vissulega, hv. þm., ef það gildir um alla aðra markaði. Ég nefni að ríkissjóður, sem hv. þm. og aðrir hafa verið að tala um sem einn helsta samkeppnisaðila á þessu sviði, breytir ekki sínu raunvaxtastigi á spariskírteinum nema í fáein skipti á hverju ári. ( FrS: Hann gerir það tvisvar á dag.) Það er rangt, hv. þm. Ef þm. er að vísa til húsbréfakerfisins sem banki hv. þm., Landsbankinn, tók að sér að ávaxta, þá er ég reiðubúinn í ítarlegar umræður um það að meginábyrgðin á því sem gerðist í húsbréfakerfinu í haust og vetur voru feilspekúlasjónir þeirra forsvarsmanna Landsbréfa í Landsbankanum sem stjórnuðu þeim viðskiptum. Og ef hv. þm. vill fara í

ítarlegar umræður um það, þá er ég tilbúinn í það. Það var einfaldlega Landsbankinn sem feilspekúleraði á þessum markaði og það var það sem leiddi til þessara breytinga, en þeir sem lásu markaðinn rétt lentu ekki í neinum vandræðum. Og auðvitað er það þannig í frjálsu markaðskerfi að mönnum er frjálst að verða á eins og Landsbankanum varð á við þessi skilyrði.
    Virðulegi forseti. Staðreyndirnar í þessu máli eru mjög einfaldar. Á síðustu tveimur árum hefur raunvaxtastig spariskírteina fallið úr 9% niður í 6%. Á síðustu tveimur árum hefur raunvaxtastigið í bankakerfinu fallið úr 14% niður í 8%. Á síðustu tveimur árum hefur 80% af erlendri lántöku verið snúið í yfir 100% innlenda lánsfjármögnun hjá ríkissjóði við frjálsa samkeppni. Á þessum tveimur árum hefur verðbólgan verið tekin úr 30% niður í 7 -- 8%. Á þessum tveimur árum hefur tekist að snúa gjaldþroti efnahagslífsins yfir í tímabil nýs stöðugleika. Og svo koma þessir menn, forustumenn Sjálfstfl. og eyða tíma okkar og starfsfólks þingsins í almennt kjaftæði um þetta mál í stað þess að fara heim og lesa lexíuna sína og læra af reynslu undanfarinna ára til þess að Sjálfstfl. endurtaki ekki sömu mistökin þegar og ef hann kemst til valda á nýjan leik.