Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar
Föstudaginn 21. desember 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég fékk boð frá forseta þar sem hann skorar á okkur að stytta mál okkar. Ég setti það upp að þessi umræða yrði tekin upp aftur í janúar og mun því segja aðeins örfá orð. En mér þykir það dálítið snúið ef það verður fyrsta daginn, frekar í fyrstu viku þinghaldsins. ( Forseti: Forseti mun hafa um það samráð við formenn þingflokka og hv. þm. svo að það verður ekki vandi að koma því fyrir.)
    Ég ætlaði að vísu ekki að taka til máls vegna þess að ég vil taka tillit til starfsfólksins hér, en þar sem hv. þm. Guðni Ágústsson gat mín í ræðu sinni vil ég segja honum þetta, ef hann heyrir mál mitt. Okkur var sagt það í bankaráðinu allt sl. ár eða fyrri part sl. árs að það yrði tap á rekstri Búnaðarbankans nema vextir yrðu hækkaðir. Og það voru sömu mennirnir sem segja nú fyrir um hvað er að gerast í Búnaðarbankanum. Ég reyndi að standa á bremsunni eins og ég gat og ég verð að segja það að sá sem stóð oftast með mér, ykkur þykir það kannski ótrúlegt af því að það var vinstri stjórn þá, var hv. þm. Friðjón Þórðarson. En auðvitað er það málið að af því að við stóðum á móti vaxtahækkunum þá vildu þeir sem ráða blokkunum skipta um menn.
    Tvískinnungurinn í þessu öllu er á þessa leið. Við stóðum t.d. á móti því að teknir yrðu upp þessir svokölluðu kjörvextir og hindruðum það. En hvað gerðist fyrstu mánuðina eftir að við Friðjón fórum úr bankanum? Þeir voru teknir upp. Og hvað þýddi það? Það þýddi 0,75% hækkun, bara sú kerfisbreyting. Svo koma menn hér og segja: Þið hafið staðið á móti hækkunum á raunvöxtunum. Þeir eru t.d. í Búnaðarbankanum núna 8,75% og voru 7,5 meðan við hv. þm. Friðjón Þórðarson vorum þar.
    Af því að ég tek tillit til hæstv. forseta og starfsfólksins hér þá læt ég þetta nægja. En ég mun taka það betur í janúarmánuði þegar við komum saman.