Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir því að flytja Alþingi skýrslu um þá alvarlegu atburði sem gerst hafa, bæði í Eystrasaltslöndunum og við Persaflóa. Sérstaklega vil ég flytja Alþingi skýrslu um afskipti ríkisstjórnarinnar af þessum málum.
    Ég mun fyrst ræða um atburðina í Eystrasaltslöndunum og þykir mér rétt að hafa nokkurn aðdraganda og draga saman á einn stað þær helstu dagsetningar sem einkenna afskipti okkar Íslendinga af málum þar allt frá því að þjóðþing Litáens samþykkti sjálfstæðisyfirlýsingu 11. mars 1990. Þegar að þeirri sjálfstæðisyfirlýsingu birtri samþykkti Alþingi heillaóskir til litáísku þjóðarinnar í tilefni sjálfstæðisyfirlýsingar hennar og var það gert 12. mars 1990. Ég hygg að Alþingi hafi þannig orðið hvað fyrst til þess að taka undir sjálfstæðisyfirlýsingu Litáa og með þessari samþykkt Alþingis var að sjálfsögðu undirstrikað að við Íslendingar höfum aldrei fallið frá viðurkenningu á sjálfstæði Litáa né annarra Eystrasaltsríkja.
    Þann 2. -- 5. ágúst 1990 kom hingað til lands sérstakur ráðgjafi Landsbergis, forseta Litáens, dr. Ramanos A. Bogdanas, og átti hér fundi með utanrrh. og gekk sömuleiðis á minn fund. Þá var ákveðið að bjóða forseta Litáens, prófessor Landsbergis, hingað til lands.
    Prófessor Landsbergis, forseti þjóðþings Litáa, var hér í heimsókn dagana 8. -- 10. okt. 1990 og gafst þá mjög gott tækifæri til þess að ræða við forsetann um stöðu mála í Litáen og reyndar í Eystrasaltsríkjunum öllum. Var sá fundur mjög gagnlegur. Augljóst var með komu Landsbergis og á þeim fundum sem við áttum með honum að mjög mikils var og er metin sú viðurkenning og sá stuðningur sem Íslendingar hafa sýnt Litáum í sinni sjálfstæðisbaráttu, en einnig verð ég að segja það að mjög komu fram hjá forsetanum vonbrigði með heldur slakar móttökur fjölmargra annarra lýðræðisþjóða. Að vísu vorum við í þeirri sérstöðu að augljóst var að við höfðum aldrei fallið frá, eins og ég sagði áðan, sjálfstæðisviðurkenningu okkar í garð Litáa, en svo hafa hins vegar fjölmargar aðrar þjóðir gert og raunar hafa líklega flestar vestrænar lýðræðisþjóðir á einn máta eða annan viðurkennt innlimun Litáens og Eystrasaltsríkjanna í Sovétveldið.
    Á þessum fundi með forseta Litáens var mjög um það rætt á hvern máta við gætum stutt þá í þeirra sjálfstæðisbaráttu. M.a. var þá rætt um þann möguleika að tekin yrðu upp stjórnmálasamskipti þessara þjóða með því að opna sendiráðsskrifstofur. Því var að sjálfsögðu mjög vel tekið af forseta Litáens en það kom mjög berlega í ljós að þeir voru í engri aðstöðu til þess að veita fulltrúa Íslands starfsaðstöðu í sínu landi og jafnvel ekki ræðismanni og alls ekki í neinni aðstöðu til þess að svara slíku með því að skipa sendiherra hér á landi. Hins vegar kom fram að þegar fram í sækti væri sjálfsagt að skoða þetta skref.
    Í þessum viðræðum kom jafnframt mjög glöggt fram að þeir teldu að við Íslendingar gætum á ýmsan máta orðið að liði í almennri þróun mála í Litáen. Hann gat þess t.d. að Norðmenn væru að íhuga að senda þeim ýmis eldri tæki til notkunar í landbúnaði og spurði hvort við Íslendingar gætum veitt einhverja svipaða aðstoð í sjávarútvegi. Má segja að á þessum fundum sem forseti Litáens átti hér, m.a. með þingnefndum og sömuleiðis að sjálfsögðu utanrrh. og mér, þá hafi að ýmsu leyti verið lagður grundvöllur að áframhaldandi samstarfi þessara þjóða á breiðum grundvelli.
    Ég hygg að það hafi verið 10. des. sem Landsbergis forseti fór til Bandaríkjanna til að ræða við stjórnvöld þar um stuðning. Hann hringdi til mín þaðan 12. des. og lýsti þá miklum áhyggjum af framvindu mála í Sovétríkjunum og í þeim samningum og viðræðum sem ákveðnar höfðu verið á milli Kreml og Litáens og taldi jafnvel að það kynni að draga þar til úrslita. Hann óskaði eftir því að við Íslendingar staðfestum ýmislegt af því sem við höfðum reyndar þegar látið fram koma.
    Eftir fundi með utanrmn. samþykkti Alþingi síðan þál. þann 19. des. um stuðning við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna og var henni þegar komið á framfæri. M.a. var henni komið á framfæri strax daginn eftir af hæstv. utanrrh. á fundi sem hann átti þá með utanríkisráðherrum Norðurlanda og utanríkisráðherrum Eystrasaltslandanna. Ég kom henni sömuleiðis á framfæri við forsetann og fékk staðfestingu og þakkarbréf skömmu síðar.
    Auk þess sem ég hef nú rakið hafa afskipti okkar Íslendinga af málefnum Eystrasaltsríkjanna verið ýmis önnur. Við flest tækifæri á alþjóðlegum fundum hafa íslenskir fulltrúar lýst slíkum stuðningi. M.a. hefur hæstv. utanrrh. gert það ítarlega á fundum Atlantshafsbandalagsins og á fundi Sameinuðu þjóðanna. Ég hef sömuleiðis gert það, m.a. á fundi Ráðstefnu um öryggismál og samvinnu í Evrópu sem haldin var í París dagana 19. -- 21. nóv. sl. Ég gerði það tvisvar í þeirri ræðu og þykir mér rétt, með leyfi forseta, að lesa þær greinar:
    ,,Tillagan um miðstöð til að koma í veg fyrir átök er athyglisverð. Er þar vísað til þeirrar greinar í þeirri samþykkt sem þarna var síðan undirrituð þar sem gert er ráð fyrir að koma á fót slíkri miðstöð sem taki á málum þar sem vandræði skapast í Evrópu. Við verðum auðvitað að horfast í augu við það að ágreiningur mun áfram koma upp á milli þjóða. Hann kann að koma upp varðandi skipti á hernaðarlegum upplýsingum. Einnig gæti hann risið um mannréttindamál. Raunar er svo einmitt nú að ýmsir minnihlutahópar berjast fyrir rétti sínum og smáþjóðir leitast við að endurheimta það sjálfstæði sem glataðist við ríkjaskiptingu eftir síðari heimsstyrjöldina. Virða ber sjálfsákvörðunarrétt allra þjóða.`` Er hér að sjálfsögðu fyrst og fremst vísað til Eystrasaltslandanna.
    Þó nokkru síðar segir, með leyfi forseta, þegar lýst hafði verið ánægju með þá breytingu sem virtist vera og vonandi verður í Evrópu í framhaldi af þeirri ráðstefnu sem hér er um að ræða:
    ,,Þó má ekki gleymast að enn eru þjóðir í Evrópu

að berjast fyrir þeim rétti sínum að taka sæti meðal hinna frjálsu þjóða álfunnar. Við verðum að treysta því að með vinsamlegum og jákvæðum samningum við hinn volduga nágranna sinn í austri endurheimti Eystrasaltsríkin þrjú bráðlega sjálfstæði sitt og taki sæti meðal okkar hinna. Í raun töldum við að fulltrúar Eystrasaltsríkjanna yrðu hér á þessum fundi sem sérstakir heiðursgestir. Er leitt að ekki gat úr því orðið.``
    Við Íslendingar sýndum á fleiri vegu á þessum fundi að við studdum Eystrasaltslöndin og styðjum. M.a. stóðum við ásamt Dönum fyrir blaðamannafundum þar sem þeir sátu fyrir svörum og sömuleiðis mættu forsætisráðherrar Danmerkur og Íslands og utanríkisráðherrar þeirra landa á móttöku, einir leiðtoga af þessum fundi, sem Eystrasaltsríkin héldu. Það voru hins vegar vonbrigði að undirtektir á þessum fundi voru ekki miklar. Það gerði að vísu forsætisráðherra Dana ágætlega og einnig kom fram stuðningur frá forsætisráðherra Bretlands en í raun ekki annar frá vestrænum ríkjum. Hins vegar gerðu það t.d. forseti Tékkóslóvakíu og aðrir frá Austur - Evrópu.
    Sömuleiðis er mikilvægt að minnast þess að heimsóknir hafa verið héðan til Eystrasaltsríkjanna, m.a. heimsótti formaður Sjálfstfl. þessi lönd og undirstrikaði stuðning okkar Íslendinga og forseti Norðurlandaráðs var í forustu fyrir nefnd frá Norðurlandaráði sem heimsótti þessi ríki. ( Utanrrh.: Og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson.) Já, það er rétt, og einstakir þingmenn. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var þar líka í heimsókn og hefur skrifað um það ítarlega skýrslu. Ég held því að ekkert fari á milli mála að við Íslendingar höfum sýnt stuðning okkar í verki eins og við frekast höfum getað.
    Því miður hafa svo atburðir orðið á annan veg en við og aðrir vonuðum. Við vonuðumst til þess að þær viðræður sem Eystrasaltsríkin höfðu fallist á að eiga með Sovétríkjunum, eiga með Kreml, leiddu til þess árangurs að þarna yrði endurheimt sjálfstæði, kannski að það tæki eitthvað lengri tíma en þessar þjóðir höfðu óskað, en stefndi þó örugglega í þá átt.
    Nú hefur hins vegar farið svo að Kremlverjar hafa kosið að beita valdi og brjóta á bak aftur þessa sjálfstæðishreyfingu Litáa og eru við bæjardyrnar hjá öðrum Eystrasaltsríkjum. Eftir að þetta varð ljóst hefur ríkisstjórn Íslands rætt málið á fjölmörgum fundum og utanrrh. hefur haft forustu um að sameina Norðurlöndin fyrst og fremst um aðgerðir til að mótmæla þeirri hernaðaríhlutun sem þarna hefur farið fram.
    Niðurstaðan af þessari viðleitni varð m.a. sú að forsætisráðherrar Norðurlandanna rituðu sameiginlegt bréf sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:
    ,,Forseti Sovétríkjanna,
    Mikhail Gorbatsjov, Moskvu.
    Herra forseti. Ríkisstjórnir og þjóðir á Norðurlöndum hafa þungar áhyggjur af atburðum síðustu sólarhringa í Litáen þar sem mannslíf hafa glatast í átökum. Við viljum fyrir hönd þjóða okkar beina þeim eindregnu tilmælum til yðar, herra forseti, að sovésk stjórnvöld og hersveitir grípi ekki til frekari valdbeitingar. Það er engum í hag að átök haldi áfram að

magnast. Lausn á deilunum í Eystrasaltsríkjunum fæst ekki öðruvísi en eftir pólitískum leiðum. Þess vegna hvetjum við yður og stjórnvöld í Sovétríkjunum til að taka nýtt frumkvæði að viðræðum við ríkisstjórnir Litáens, Lettlands og Eistlands.``
    Undir þetta skrifa Poul Schlüter, forsætisráðherra Danmerkur, Harri Holkeri, forsætisráðherra Finnlands, Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra Íslands, Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, og Ingvar Carlsson, forsætisráðherra Svíþjóðar.
    Ýmis Norðurlandanna kusu þó jafnframt að senda sérstakt bréf og það gerðum við Íslendingar. Ég afhenti því sendiherra Sovétríkjanna bréf sem ég undirritaði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, dags. 13. jan. sl., og vil ég einnig lesa það í óformlegri íslenskri þýðingu, með leyfi forseta. Þetta bréf er stílað til Mikhails Gorbatsjovs, forseta Sovétríkjanna.
    ,,Herra forseti. Mjög harma ég þau tíðindi sem mér bárust í morgun um ofbeldisaðgerðir sovéska hersins gegn litáísku þjóðinni. Ég hlýt að snúa mér beint til yðar og lýsi þungum áhyggjum vegna þessa máls. Ég bið yður að stöðva valdbeitingu gegn litáísku þjóðinni og lýðræðislega kjörinni stjórn landsins og fer þess á leit að þér kallið þegar í stað sovéskt herlið frá Litáen.
    Allar þjóðir heims vænta mikils af þeim endurbótum sem átt hafa sér stað í Sovétríkjunum og gera sér grein fyrir afgerandi áhrifum þeirra á umbreytingu stjórnmálalegra aðstæðna í Evrópu. Við höfum ásamt Sovétríkjunum bundið vonir við
nýja og varanlega skipan mála í Evrópu og að vantraust og tortryggni víki fyrir trausti og samstarfi sem byggi á grundvelli lýðræðis.
    Aðildarríki Ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu ákváðu í París fyrir tæpum tveimur mánuðum að byrja nýtt skeið í samskiptum ríkja Evrópu. Ríkisstjórn Íslands lítur svo á að mjög mikilvægt sé að ekkert verði aðhafst sem geti dregið úr þeim væntingum og áformum sem fram komu í Parísaryfirlýsingunni.
    Íslendingar hafa lýst því yfir við mörg tækifæri að þeir óski þess af heilum hug að samningaleiðin verði farin til að leysa deilur sovéskra stjórnvalda og Eystrasaltsríkjanna á grundvelli meginreglna lokayfirlýsingar Helsinki - fundarins.
    Við hvetjum yður til að endurskoða afstöðu yðar til Litáens og virða skuldbindingar um friðsamlega lausn deilumála.``
    Undir þetta bréf skrifaði ég.
    Þetta bréf hefur fengið góðar viðtökur og verið viðurkennt sem ákveðnasta bréfið frá Norðurlöndunum. Hins vegar hefur greinilega komið fram að þeir vilja gjarnan að við gerum það annað og meira sem við megum til þess að styðja þá í þessari baráttu. Utanrrh. hefur haft forustu um að ná Norðurlöndunum saman í slíkri viðleitni og það hefur vissulega borið árangur. Sömuleiðis hefur utanrrh. leitað til Norðurlandanna um stuðning við það að mál þetta verði tekið upp í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Einnig hefur utanrrh. ritað öllum utanríkisráðherrum Atlantshafsbandalagsríkjanna og lagt eindregið til að þetta alvarlega ástand verði rætt á vettvangi þess. Það hefur verið gert og er fundur þar, ef ég veit rétt, í dag um þau mál og hafa verið reyndar fundir í nefndum Atlantshafsbandalagsins um það.
    Ég skal ekki á þessu stigi segja hvað verður um þá viðleitni að fá málið upp tekið hjá öryggisráðinu. Það er nokkuð flóknara mál. Það þarf að fá einhvern flytjanda þess máls og þar hafa Sovétríkin, eins og allir vita, neitunarvald svo að ólíklegt er að það komist þar langt.
    Ég vil svo geta þess að mér hefur borist bréf frá forsætisráðherra Eistlands þar sem hann hefur óskað eftir því að mega heimsækja okkur Íslendinga. Það er sjálfsagt og mun ég svara því. Þetta bréf barst mér í morgun en ég mun svara því strax að hann sé velkominn hingað hvenær sem hann óskar.
    Ég vil einnig geta þess hér að mér hefur borist formlegt boð frá forseta Litaéns um að koma þangað í opinbera heimsókn. Ég hef mjög mikinn hug á að þiggja það boð en það kann að vera verulegum erfiðleikum háð eins og allir sjá og þar er ástatt nú svo að það kann að vera að það verði eitthvað að bíða.
    Ég hef svo ekki mörgum orðum við þetta að bæta. Ástandið í Litáen og Eystrasaltsríkjunum hygg ég að allir þingmenn þekki svona nokkurn veginn eins og ég. Atburðir birtast jafnóðum í fréttum. Þó þykir mér ástæða til að geta hér um það síðasta sem fram hefur komið. Ef rétt er að forseti Sovétríkjanna, Gorbatsjov, hafi ekki gefið skipun um að beita hervaldi í Litáen er það í raun afar umhugsunarvert og alvarlegt mál og getur varla þýtt annað en að herinn hafi þá á bak við tjöldin að því er virðist tekið að meira eða minna leyti völdin í Sovétríkjunum. Með öðrum orðum að þarna hafi orðið eins konar bylting hersins. Það er að sjálfsögðu afar umhugsunarvert ef slíkt gerist í slíku stórveldi sem Sovétríkin eru og hlyti að hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir alla þá viðleitni sem þjóðir Evrópu og Norður - Ameríku hafa undanfarna mánuði, og ár reyndar, lagt í að snúa málefnum Evrópu til betri vegar.
    Mér sýnist á þessu stigi kannski mestar vonir bundnar við viðbrögð Jeltsíns, forseta rússneska lýðveldisins, sem eins og allir þekkja er langsamlega stærst og áhrifamest innan Sovétríkjanna. Ef hann fær samþykkt á sínu þingi nú að draga her sem tengist Rússlandi burt frá Eystrasaltsríkjunum þá er þar orðið um meiri brest að ræða innan Sovétríkjanna en ég hygg að orð fái lýst og hlýtur þá á það að reyna hvort yfirstjórn hersins, sem er sameiginleg fyrir Sovétríkin, hlýðir slíkum tilmælum eða slíkri skipun. Þarna eru því að gerast hlutir sem eru svo sannarlega þess eðlis að með þeim verður vandlega fylgst.
    Það er ástæða til að meta það að samist hefur um stutt vopnahlé í Litáen og vonandi verða þeir samningar sem þar fara nú fram til þess að stöðva frekara blóðbað. Við það hljótum við að binda miklar vonir. Ég hygg þó að það sem ég nefndi áður um viðbrögð forseta Rússlands sé það mikilvægasta sem í þessu hefur nú gerst.

    Ríkisstjórnin hefur eins og ég sagði fjallað um þetta margsinnis og verið fullkomlega samstiga um það sem ég hef hér lýst og ég geri ráð fyrir því að utanrrh. muni koma nánar inn á þær aðgerðir hér á eftir.
    Ég sagði í upphafi míns máls að ég vildi einnig geta hér um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin við Persaflóa sem heimurinn sér ekki fyrir enda á núna og áreiðanlega bíða allir í ofvæni eftir því sem þar kann að gerast. Þar er hafin niðurtalning --- ekki kannski heimsstríðs, en stríðs sem getur haft gífurlegar afleiðingar um heim allan og það má segja að það sé orðið eins konar taugastríð og að því spurt hvor vægir.
    Ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu einnig fjallað um það mál. Hún hefur tekið við ýmsum áskorunum frá almenningi. M.a. tók ríkisstjórnin við áskorun frá 19. des. frá nokkur hundruð mönnum, ekki síst læknum m.a. en reyndar mörgum fleiri, þar sem skorað er á ríkisstjórnina að lýsa ótvírætt yfir andstöðu Íslands við stríðsaðgerðir gegn nokkurri þjóð í Austurlöndum nær. Og þar segir áfram, með leyfi forseta:
    ,,Við hvetjum íslensk stjórnvöld til að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir friðsamlegri lausn Persaflóadeilunnar og fyrir því að haldin verði sem fyrst alþjóðleg friðarráðstefna um Austurlönd nær með þátttöku allra deiluaðila í samræmi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna.``
    Einnig tók ríkisstjórnin við, eða ég fyrir hennar hönd reyndar við báðum þessum ályktunum, 10. jan. sl. ályktun frá nokkur þúsund Íslendingum sem rituðu undir svipaða ályktun sem ég sé nú reyndar ekki ástæðu til að lýsa. Hún er held ég nokkurn veginn orðrétt eftir þeirri sem ég las upp áðan ef ekki alveg orðrétt. Segja má að þessar ályktanir séu mjög í þeim anda sem ríkisstjórnin hefur leitast við að starfa og mun beita þeim áhrifum sem hún hefur.
    Ég minni á það að síðasta ályktun Sameinuðu þjóðanna var gerð 29. nóv. sl. og samkvæmt þeirri ályktun var heimilað að beita hervaldi eftir 15. jan., enda yrði tíminn fram að því vel nýttur, höfum við litið svo á, til að forða stríðsátökum við Persaflóa. Því miður verð ég að lýsa þeirri skoðun minni að ekki hafi tekist að nýta þann tíma eins og skyldi. Utanrrh. hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar leitast við að ná samstöðu með Norðurlöndunum um þrýsting á þá sem ráða ferðinni fyrst og fremst, einmitt til að nýta þennan tíma sem allra best.
    Norðurlöndin hafa sameinast um það að skora á Sameinuðu þjóðirnar að koma á friðarráðstefnu um Austurlönd og að setja sveitir til að koma í veg fyrir frekari átök á milli Íraka og nágranna þeirra þegar þeir hefðu dregið her sinn frá Kúvæt.
    Við Íslendingar höfum sömuleiðis lýst þeirri skoðun okkar hvað eftir annað, bæði munnlega og skriflega við okkar samstarfsaðila, að nauðsynlegt sé að taka á málefnum Palestínu í beinu framhaldi af þessum átökum við Kúvæt. Ég hlýt að lýsa þeirri skoðun minni að á það hefur mér þótt skorta í þeim viðræðum sem farið hafa fram, ekki síst á milli Bandaríkjanna og fulltrúa Íraka, þó að þær hafi ekki verið

miklar og kannski meiri í fjölmiðlum heldur en á fundum, að taka undir þessa kröfu eða setja fram þá tillögu að á málefnum Palestínumanna verði tekið.
    Því verður ekki neitað að í Palestínu hafa átt sér stað þeir atburðir síðustu árin sem engin siðmenntuð þjóð getur horft upp á. Þar hafa fleiri hundruð saklausir menn verið drepnir eða limlestir af her og það er engin furða þótt margir spyrji, m.a. þær þúsundir Íslendinga sem hafa skrifað undir þessar áskoranir: Er það ekki það sem stundum er kallað tvöfalt siðgæði að hlaupa upp með óvígan her þegar ráðist er í eitt land en hafa sig ekki í frammi þegar svo gengur á árum saman og hefur stöðugt farið versnandi eins og í Palestínu? Við höfum því séð ástæðu til að hvetja til þess að á það verði fallist að halda alþjóðlega ráðstefnu um Palestínu þegar Írakar hafa dregið burtu her sinn frá Kúvæt.
    Því miður hafa allar sáttatilraunir mistekist, m.a. aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna nú upp á síðkastið og þing Bandaríkjanna og Íraks hafa samþykkt heimild til stríðs. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem ég hef sagt um þetta, en vil lýsa því að ég lifi nú enn þá í þeirri von að þeim manni, sem hefur kosið að leggja undir sig Kúvæt með miklum og sterkum her, verði ljóst að hann fær ekki tekist á við her heimsbyggðar og dragi sig til baka áður en til blóðugra átaka kemur. En þetta er vissulega bara óskhyggja sem kannski byggist á því að ég trúi að enginn maður sé svo brjálaður, ef ég má kalla það það, að ganga alla þá braut sem hingað til hefur verið farin og kjósi frekar að bjarga sinni þjóð frá slíkum átökum en að leiða til þeirrar gjöreyðingar sem ég hygg að mundi fylgja stríði í Kúvæt og í Arabalöndunum.
    Ég læt þá lokið þessari skýrslu minni um ástandið í Eystrasaltsríkjunum og við Persaflóa. Ég hef reynt að gera grein fyrir afskiptum ríkisstjórnarinnar af þessum málum. Vissulega erum við Íslendingar litlir og okkar lóð er kannski ekki mjög þungt á vogarskálinni. En það er þó afar ánægjulegt að verða þess var að það er hlustað orðið líka á rödd lítillar þjóðar svo að það er ekki nokkur vafi á því, alveg sérstaklega í málefnum Eystrasaltsríkjanna, að þar hefur dropinn holað steininn. Það er ekki nokkur vafi á því að viðleitni okkar til að ná Norðurlöndunum betur saman hefur borið árangur og við höfum þá viðurkenningu frá Litáum alveg sérstaklega og nú með ósk forsætisráðherra Eistlands að koma hingað til lands. Og það hvetur okkur náttúrlega til þess að gera hvað það sem við getum gert til þess að beina slíkum málum á betri veg. Það staðfestir að við erum raunar öll í einum litlum bát og getum haft þar okkar áhrif.