Jarðalög
Þriðjudaginn 15. janúar 1991


     Flm. (Eiður Guðnason) :
    Herra forseti. Ég hef á þskj. 297 ásamt hv. þm. Skúla Alexanderssyni og Danfríði Skarphéðinsdóttur leyft mér að flytja frv. sem horfir til smávægilegra breytinga á forkaupsréttarákvæðum jarðalaga.
    Samkvæmt 6. gr. núgildandi jarðalaga skal afla samþykkis sveitarstjórnar og jarðanefndar þegar fyrirhuguð eru aðilaskipti að réttindum yfir fasteign eða stofnun slíkra réttinda, svo sem með kaupum, gjöf, skiptum, nauðungarsölu o.s.frv. eins og nánar er tilgreint í lögunum. Þetta frv. sem ég flyt hér ásamt þeim þingmönnum sem ég áður nefndi gerir ráð fyrir því að samþykkis sveitarstjórnar og jarðanefndar þurfi ekki að afla þegar ríkissjóður eða stofnanir á vegum ríkissjóðs fá fasteignir að gjöf. Gildandi ákvæði um að samþykkis þurfi ekki að afla gilda eingöngu þegar ríkissjóður kaupir eða selur fasteignir.
    Í 35. gr. gildandi jarðalaga er fjallað um hvenær ákvæði um forkaupsrétt komi ekki til framkvæmda. Lagt er til að þessi ákvæði verði rýmkuð á þann veg að forkaupsréttarákvæði falli ekki aðeins brott þegar ríkissjóður sjálfur ráðstafar fasteignaréttindum heldur líka þegar slíkum réttindum er ráðstafað til hans, t.d. að gjöf.

    Skemmst er frá því að segja að tilefni þess að þetta frumvarp er flutt er það að á undanförnum árum hafa komið upp þau tilvik að ríkissjóður eða ríkisstofnanir hafa fengið fasteignir að gjöf, t.d. með erfðaskrá eða gjafabréfi. Ákvæði jarðalaga um samþykki og forkaupsrétt geta í slíkum tilvikum komið í veg fyrir að vilji gefandans nái fram að ganga og þessar hans eignir gangi til ríkisins eða ríkisstofnana. Þetta held ég að sé í eðli sínu rangt, að einstaklingar geti ekki ráðstafað eignum sínum til ríkissjóðs eða ríkisstofnana með gerningi eins og hér hefur verið lýst, gjafabréfi eða erfðaskrá, og því er þetta frv. flutt. Flutningsmenn telja eðlilegt að breyta þessum ákvæðum.
    Ég vona að þessi tiltölulega einfalda og að ég tel sjálfsagða breyting fái greiðan gang í gegnum nefnd og þessa hv. deild og orðlengi þetta ekki frekar, herra forseti, en legg til að lokum að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.