Slysavarnaskóli sjómanna
Þriðjudaginn 15. janúar 1991


     Flm. (Árni Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 194 að flytja frv. til laga um Slysavarnaskóla sjómanna ásamt þeim hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur, Guðmundi G. Þórarinssyni, Málmfríði Sigurðardóttur, Hjörleifi Guttormssyni, Stefáni Valgeirssyni, Matthíasi Á. Mathiesen, Kristínu Einarsdóttur, Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni og Sighvati Björgvinssyni.
    Eins og fram kemur í upphafi grg. hefur Slysavarnaskóli sjómanna nú starfað í rösk fimm ár og er orðinn einn mikilvægasti þátturinn í starfi Slysavarnafélags Íslands. Skólinn hefur fengið rekstrarfé á fjárlögum undanfarin ár. Tilgangurinn með þessu frv. er að löggilda skólann og tryggja að allir sjómenn, sem lögskráðir eru á íslensk skip, hafi lokið þar námi. Löggilding skólans tryggir enn fremur fastar fjárveitingar til hans sem veita mikið öryggi við allan rekstur hans.
    Það væri freistandi, virðulegi forseti, að fjalla nokkuð um þann mikla undirbúning sem hefur verið og var að starfi þessa mikilvæga skóla, Slysavarnaskóla sjómanna, sem Slysavarnafélag Íslands og fleiri aðilar ýttu úr vör með miklum myndarbrag. Skóli þessi hefur náð að þróast í þá átt og í þá stöðu að hann þykir gjörsamlega ómissandi og samtök sjómanna hafa lagt á það megináherslu að þessi skóli nái að eflast og þróast og dafna sem mest og best á næstunni.
    Til þess að gera hv. þingdeild nokkra grein fyrir því hversu mikilvægt mál er hér á ferðinni óskaði ég eftir því við rannsóknanefnd sjóslysa að hún tæki saman skrá yfir þau slys sem hafa orðið á undanförnum áratug um borð í íslenskum skipum eða slys sem tengjast sjómennsku að einhverju leyti. Það kemur fram í skýrslu sem mér barst frá rannsóknanefndinni í desember að á tíu ára bili, frá 1980 til og með árinu 1989, hafa orðið 4489 slys um borð í íslenskum skipum eða sem tengjast sjómennsku, slys sem hafa verið tilkynnt Tryggingastofnun ríkisins. Þetta er mikill fjöldi slysa, þau eru ekki öll alvarleg en þau hafa öll verið tilkynnt Tryggingastofnun ríkisins því þau eru þá væntanlega bótaskyld.
    Ég vil geta þess að árið 1980 urðu þessi slys sem tilkynnt voru 306 en árið 1989 var tilkynnt um 631 slys. Þeim hefur fjölgað um meira en helming. Þetta er mjög ískyggileg þróun enda þótt þessar tölur séu ekki nákvæmar frá ári til árs einfaldlega vegna þess að slysin eru oft tilkynnt miklu seinna en þau verða þannig að þau falla ekki undir þau ár sem þau eru tilkynnt.
    Mig langar að vitna í orð Óskars Vigfússonar, formanns Sjómannasambands Íslands, sem hefur fjallað um þennan þátt sjómennskunnar. Hann segir í blaðaviðtali fyrir nokkru að á síðasta ári --- og vitnar hann þá raunar í árið 1989, viðtalið er tekið á árinu 1990 --- hafi verið tilkynnt um 631 slys á sjómönnum og lætur nærri að á því ári hafi áttundi hver sjómaður slasast. Óskar minnir á það að fyrir fimm árum hafi verið tilkynnt um 415 slys og á þessu tímabili hafi

þeim fjölgað um 216, sem er þó minni fjölgun en ég gat um á þessu tíu ára tímabili, frá 1980 til 1989 til og með því ári. Með leyfi forseta vil ég lesa upp úr þessari blaðagrein eftirfarandi:
    ,,Að sögn Óskars Vigfússonar, formanns Sjómannasambands Íslands, hrýs mönnum orðið hugur við þessari þróun þó svo dauðaslysum hafi fækkað til muna frá því sem áður var. Þótt það komi ekki fram í slysaskráningu sjómanna um starfsaldur þeirra má hins vegar ætla að slys á nýliðum um borð séu í nokkrum mæli, einkum þegar það er haft í huga að um 300 manns hefja sjómannsstörf á ári hverju.
    Í ályktun 17. þings Sjómannasambandsins um öryggis- og tryggingamál er lögð áhersla á nýliðafræðslu og skorað á fjvn. að veita Slysavarnaskóla sjómanna fjárhagslegan rekstrargrundvöll svo einnig megi stórefla starfsfræðslu tengda öryggismálum meðal sjómanna og þeirra sem hug hafa á sjómennsku. Enn fremur krefst þingið þess raunar að Alþingi samþykki nú þegar kaup á annarri björgunarþyrlu og mótuð verði stefna varðandi Landhelgisgæsluna sem lýtur að endurnýjun og rekstri skipa og flugflota.``
    Ég vil láta það koma fram að í viðtölum við starfsmann rannsóknanefndar sjóslysa, Kristján Guðmundsson, kemur fram að við skýrslugerð, þegar skráð er frásögn sjómanna af þeim slysum og óhöppum sem þeir hafa orðið fyrir, þá geti þeir þess gjarnan að það hafi bjargað miklu að þeir hafi verið á námskeiði hjá Slysavarnafélagi Íslands. Það má fullyrða það á þessari stundu að Slysavarnaskóli sjómanna, eins og hann hefur verið rekinn á undanförnum árum, hafi bjargað fjölmörgum mannslífum og komið í veg fyrir alvarleg slys um borð í íslenskum skipum.
    Í skýrslu Slysavarnafélags Íslands um banaslys, sjóslys og önnur banaslys fyrir árið 1989, kemur fram að sjóslys og drukknanir hér við land 1988 voru ellefu en 1989 sjö. Hvort tveggja er of há tala.
    Ég vil láta þess getið að árið 1988 sóttu Slysavarnaskóla sjómanna 895 nemar sem komu á 41 námskeið. Árið 1987 var þessi tala þó enn hærri, þá komu 1118 nemar á 47 námskeið, árið 1989 voru nemarnir 1067 sem komu á 51 námskeið og árið 1990 1024 nemar sem komu á 46 námskeið. Það er áætlað að á síðasta ári hafi heildarfjöldi nema þó orðið nokkuð hærri eða um 1207 sem komu á 53 námskeið.
    Virðulegi forseti. Það er í mínum huga alveg ljóst að löggjafarvaldið, Alþingi Íslendinga, þarf að tryggja það á sem bestan hátt að Slysavarnaskóli sjómanna fái starfað með sem öflugustum hætti og með sem reglulegustum hætti og verði fastur þáttur í slysavörnum hér á Íslandi, þáttur sem hafi svo mikið að segja í sambandi við sjómannsstarfið að sjómenn sem óska eftir lögskráningu á íslensk fiskiskip verði að hafa lokið þessum námskeiðum til að teljast fullfærir sjómenn og til þess að geta fengið lögskráningu.
    Mig langar, virðulegur forseti, að fara í stuttu máli yfir greinar frv. og geta þeirra helstu atriða sem þar koma fram.
    Í 1. gr. segir að Slysavarnaskóli sjómanna sé miðstöð almennrar fræðslu um öryggismál sjómanna og

fari Slysavarnafélag Íslands með yfirstjórn skólans er starfi á vegum þess og ábyrgð. Markmið Slysavarnaskóla sjómanna sé að veita sjómönnum fræðslu um meðferð björgunar- og öryggisbúnaðar, um slysavarnir og að miðla upplýsingum um öryggismál sjómanna.
    Í þessari grein er raunar kveðið á um að Slysavarnaskóli sjómanna skuli vera miðstöð almennrar fræðslu fyrir sjómenn en að Slysavarnafélag Íslands fari með yfirstjórn hans og beri fulla ábyrgð á rekstrinum. Þá eru staðfest þau markmið með rekstri skólans sem starfað hefur verið eftir í rösk fimm ár án þess að hann hafi verið löggiltur.
    Í 2. gr. er fjallað um það að Slysavarnaskóli sjómanna skuli halda námskeið fyrir alla starfandi sjómenn um öryggis- og björgunarmál á helstu útgerðarstöðum landsins.
    Þá annist skólinn öryggis- og slysavarnafræðslu fyrir nemendur í skipstjórnar- og vélstjóranámi í framhaldsskólum.
    Aðalkennslugreinar Slysavarnaskóla sjómanna skuli vera: Fræðsla um öryggismál, slysavarnir, björgunaraðferðir, skyndihjálp, flutningur sjúkra og slasaðra, meðferð björgunarbúnaðar, slökkvibúnaðar og reykköfunartækja.
    Í þessari grein, 2. gr., er getið aðalþátta í starfsemi skólans: skipulag námskeiða á helstu útgerðarstöðum landsins, fræðsla fyrir nemendur í skipstjórnar- og vélstjórnarnámi, sem fer fram samkvæmt sérstökum samningi við menntmrn., og taldar upp helstu kennslugreinar.
    Í 3. gr. frv. er kveðið á um að það skuli verða skilyrði lögskráningar í skipsrúm að skipverji, sem skylt er að lögskrá samkvæmt lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, hafi lokið grunnnámi í Slysavarnaskóla sjómanna samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
    Þetta er ein mikilvægasta grein frv. Samkvæmt henni verður ekki unnt að lögskrá sjómann á skip nema hann hafi lokið grunnnámi í Slysavarnaskóla sjómanna. Eins og fram kemur í 7. gr. er þó ekki gert ráð fyrir að ákvæði 3. gr. komi að fullu til framkvæmda fyrr en að fimm árum liðnum frá gildistöku laganna.
    Ég varð þess var við undirbúning frv. og þegar ég sóttist eftir því að fá þingmenn til þess að flytja málið með mér að margir settu það fyrir sig að það skyldi bundið í þetta frv., sem væntanlega verður að lögum, að sjómenn sem óska eftir lögskráningu á skip, vilja ráða sig á skip, þurfi að hafa lokið námskeiðum hjá Slysavarnaskóla sjómanna. Þessi mótbára finnst mér ekki byggð á skynsamlegum rökum. Þó hefur það komið fram að þeir sem eru andsnúnir þessu ákvæði telja óeðlilegt að maður, sem t.d. ekki hefur lokið námskeiðum hjá Slysavarnaskóla sjómanna, geti ekki ráðið sig á skip, t.d. ef um skamman fyrirvara er að ræða og það skorti í áhöfn skips sem er að fara til veiða.
    Ég hins vegar lít svo á að þetta sé svo mikilvægt atriði að við eigum ekki að horfa í það þótt einn og einn sjómaður geti ekki ráðið sig í skipsrúm vegna

þess að hann uppfylli ekki þessa kröfu. Ég held að það sé miklu meira virði að við hugum vandlega að öryggismálum sjómanna og að þeir sjálfir, eins og þeir hafa sýnt mikinn áhuga á, aðhyllast það að öryggismálin hafi veglegri og meiri sess í þeirra starfi heldur en hingað til hefur verið. Ég tel þess vegna þetta ákvæði vera ákaflega veigamikið og skipta miklu máli. Það er komið til móts í raun við þau sjónarmið, þau andmæli sem fram hafa komið með því að hafa ákvæði í 7. gr. þar sem gert er ráð fyrir að 3. gr. komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en að fimm árum liðnum frá gildistöku laganna. Það jafngildir því að þeir sjómenn, sem ekki hafa lokið þessum námskeiðum, hafi fimm ára frest í raun og veru til þess að ganga frá þeim málum og tryggja sér þau réttindi sem við viljum festa með þessu frv. og þessari frumvarpssmíð.
    Í 4. gr. er gert ráð fyrir því að samgrh. tilnefni af sinni hálfu tvo fulltrúa til setu í skólanefnd og Slysavarnafélag Íslands þrjá fulltrúa og sé einn þeirra formaður nefndarinnar. Meginhlutverk skólanefndar sé að fjalla um málefni Slysavarnaskóla sjómanna, einkum varðandi tækjakaup og búnað hans, viðhald, framkvæmdir og áframhaldandi uppbyggingu.
     Skólanefnd Slysavarnaskóla sjómanna gerir tillögur til stjórnar Slysavarnafélags Íslands um námskeiðahald, námsskrá og lengd námskeiða á vegum skólans.
    Þessi grein skýrir sig að verulegu leyti sjálf. Í henni er kveðið á um skipan skólanefndar og gert ráð fyrir að samgrh. tilnefni tvo menn í hana og Slysavarnafélag Íslands þrjá, þar af formann. Þá er kveðið á um verkefni skólanefndar.
    Í 5. gr. er gert ráð fyrir því að skólanefnd ráði skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna en um mannaráðningar fer samkvæmt lögum Slysavarnafélags Íslands.
    Þarfnast þessi grein ekki frekari skýringa.
    Í 6. gr. er gert ráð fyrir því, sem auðvitað er veigamikið atriði, að rekstur skólans skuli greiddur úr ríkissjóði. Það hefur raunar verið gert að verulegum hluta hingað til. Skólinn hefur fengið fjárveitingar á fjárlögum. Það er hins vegar talið mjög nauðsynlegt að þessar fjárveitingar verði tryggðar með lögum. Það er gert ráð fyrir því með þessu frv. að skólinn komist inn á fjárlög og verði þar framvegis þannig að það þurfi ekki að leika neinn vafi á um framtíð hans eða stjórnendur skólans þurfi að velkjast í vafa um það hvort skólinn hefur meira eða minna af fjármunum úr að spila frá ári til árs.
    Í 6. gr. er enn fremur gert ráð fyrir því að Slysavarnafélag Íslands geri fjárhagsáætlun fyrir skólann og leggi fyrir samgrn. til staðfestingar.
    Í 7. gr. er gert ráð fyrir eins og efni standa til að lögin öðlist þegar gildi, en þó sérstaklega tekið fram, eins og ég hef áður getið, að 3. gr. frv. skuli ekki koma að fullu til framkvæmda fyrr en að fimm árum liðnum frá gildistöku laganna.
    Virðulegi forseti. Með þessu frv. fylgir alllöng grg. sem ég hirði ekki um að lesa en í henni er mikið af upplýsingum um þróun, skipulag og þá starfsemi sem

hefur átt sér stað í þessum merkilega skóla og reynt að leggja drög að því og raunverulega að leggja grundvöll að því að þessi skóli njóti meiri stuðnings en hann hefur kannski gert, njóti þess að verða skóli eins og aðrir skólar í landinu að öðru leyti en því að skólahald fer að mestu leyti fram með námskeiðum. Þessi löggilding skólans skiptir hann auðvitað mjög miklu máli og sjómannastéttina í heild. Í mínum huga er hér á ferðinni engu ómerkari skóli en aðrir þeir skólar sem eru á fjárlögum íslenska ríkisins og ég vænti þess að þetta frv. megi njóta stuðnings í hv. deild. Ósk mín er auðvitað sú að frv. geti orðið að lögum fyrir þinglok. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að flest þau samtök sem hér eiga hlut að máli styðja þetta frv. mjög eindregið og afdráttarlaust og ég held í þessu sambandi að það sé full ástæða til þess að þakka þeim ágætu mönnum sem á undanförnum árum hafa lagt þessum skóla lið á margvíslegan hátt. Þeirra er að góðu getið í grg. frv. og ég leyfi mér að
þakka þann stuðning sem skólinn hefur hlotið og vænti þess að hann sé enn þá, ef ég má orða það svo, á óskalista hv. þm. um þá skóla sem hv. þingdeild og þingið hefur áhuga á að löggilda og gera að gildum og góðum skóla í því annars ágæta skólakerfi sem við búum við.