Slysavarnaskóli sjómanna
Þriðjudaginn 15. janúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég þakka hv. flm. fyrir það frumkvæði og þann áhuga sem hér er sýndur á málum Slysavarnaskóla sjómanna. Það er engin deila um það að starf Slysavarnaskóla sjómanna hefur skilað miklum árangri og er þegar á góðri leið með að færa til betri vegar almenna þekkingu og meðvitund fyrir öryggismálum í íslenska flotanum. Það er einnig þegar ljóst af skýrslugjöf um óhöpp sem orðið hafa á sjó undanfarin missiri og ár að þar hefur þjálfun sjómanna sem gengið hafa í gegnum skólann þegar borið árangur, bjargað mannslífum og skilað okkur minna tjóni en ella mætti búast við að orðið hefði í slíkum tilvikum.
    Verkefni Slysavarnaskóla sjómanna hafa verið í mótun og allt starf skólans undanfarin ár. Það er ekki fyrr en hin síðustu 1 -- 2 árin að starf skólans hefur verið tiltölulega fast mótað af þeim fimm árum sem skólinn hefur haft nokkra starfsemi í gangi. Það er því sjálfsagt á réttum tíma og réttum stað nú að fara að ræða hvort tímabært sé að lögfesta með einhverjum hætti starfsemi skólans og koma þessu fyrirkomulagi í enn fastmótaðra form en hingað til hefur verið. Þess er þó rétt að geta sem kom að nokkru leyti fram í máli frsm. að starfsemi skólans hefur verið fest í sessi með ýmsum hætti á undanförnum árum, svo sem með starfsreglum sem settar hafa verið og undirritaðar voru af forvera mínum, Matthíasi Á. Mathiesen, fyrir skólann og með samningum milli Slysavarnaskóla sjómanna og menntmrn. um samstarf þessara aðila hvað snertir fræðslu um öryggismál nemenda stýrimannaskólanna og vélskólanna. Með slíkum aðgerðum hefur skólinn verið að festast í sessi á undanförnum árum og starf hans verið að mótast. Það er því að mörgu leyti eðlilegt að nú sé það tekið upp og rætt hvort og þá með hvaða hætti tímabært sé að lögfesta starfsemina.
    Ég vil leggja á það áherslu sem síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Vestf., sagði að sú samstaða sem yfirleitt hefur tekist og ríkt um málefni Slysavarnaskólans er ákaflega dýrmæt. Ég vonast til þess að í meðförum þessa frv. verði það einkum og sér í lagi haft að leiðarljósi að varðveita slíka samstöðu. Ég vil því leggja á það áherslu að gott samráð verði haft við helstu samtök aðila á þessu sviði, hagsmunaaðila, stofnanir og aðra sem eðlilegt má telja að kalla til ráðslags um málið.
    Alþingi og alþingismenn hafa á undanförnum árum oft og með ýmsum hætti sinnt öryggismálum sjómanna og fyrir það ber að þakka. Mér finnst þar af leiðandi fara vel á því að Alþingi sjálft eða þingmenn hafi frumkvæði að því að ræða og eftir atvikum að sjálfsögðu setja lög um þessa starfsemi.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um efni frv. Ég vil þó leggja áherslu á það, ekki síst þegar rædd verða ákvæði 3. gr., sem væntanlega gætu orðið mönnum helst að verulegu umtalsefni, og varðar spurninguna um það hvort og þá hvernig eigi að gera slíka fræðslu

eða göngu á slíkan skóla að skilyrði lögskráningar í skipsrúm. Í því efni er ekki síst mikilvægt að reynt verði að ná samstöðu um þennan málaflokk, svo viðkvæmur sem hann er að ýmsu leyti.
    Það er að sjálfsögðu ekki vafi á því, og ég vil að afstaða mín í því efni komi skýrt fram, að æskilegt er að ná fram þeirri skipan mála að einhver fræðsla af þessu tagi sé ávallt fyrir hendi þegar menn takast á við þessi störf. Spurningin er meira um það í mínum huga hvernig því verði komið á og því komið fyrir. Ég held að hyggilegt sé að ætla þar ákveðinn aðlögunartíma eins og reyndar er gert í frv. Ég minni á þá aðferð sem farin var og yfirleitt hefur verið farin þegar starfsréttindi eru með einhverjum slíkum hætti bundin, annaðhvort þá við menntun af þessu tagi eða almennt við sérmenntum, að gefa slíkum breytingum aðlögunartíma og jafnvel taka ákveðið tillit til og gera greinarmun á annars vegar þegar starfandi mönnum í viðkomandi grein og hins vegar þeim sem ráðast til starfa í faginu eftir tilkomu slíkrar lagasetningar. Það kemur að sjálfsögðu til greina að gera þar eftir atvikum einhvern greinarmun á.
    Ég minni einnig á þá aðferð sem farin var þegar ráðist var í sérstaka herferð til að útrýma undanþágum varðandi réttindi skipstjórnarmanna. Þá var hvort tveggja gert, gefinn ákveðinn aðlögunartími að breytingunum en einnig þeim sem þegar voru starfandi í greininni og höfðu langa starfsreynslu að baki gert kleift með sérstökum námskeiðum og sérstökum hætti að öðlast slíka fullgildingu. Það teldi ég æskilegt að hv. samgn. deildarinnar, sem væntanlega fær þetta mál til skoðunar, ræddi og athugaði.
    Ég vil svo að lokum leyfa mér að vænta þess, sem ég reyndar gef mér og hef ekki áhyggjur af, að fulltrúar þess ráðuneytis og þeirra stofnana og samtaka sem hér eiga hagsmuna að gæta geti átt gott samstarf við hv. þingnefnd. Ég vil fyrir mitt leyti bjóða fram slíkt samstarf af hálfu samgrn. og Siglingamálastofnunar, ef það mætti verða til að auðvelda afgreiðslu málsins og koma því í farsæla höfn.