Slysavarnaskóli sjómanna
Þriðjudaginn 15. janúar 1991


     Matthías Á. Mathiesen :
    Herra forseti. Ég er einn af meðflm. þessa frv. Hv. 3. þm. Norðurl. e., 1. flm., hefur gert grein fyrir okkar flutningsmanna sjónarmiðum, auk þess sem í grg. með þessu frv. er rakin saga þessa máls, þróun og þær staðreyndir sem þar liggja fyrir.
    Hér kom hæstv. samgrh. og ég á ekki von á öðru en að það geti tekist hið besta samstarf á milli flm. og hans og ráðuneytisins, svo gott samstarf sem hefur verið milli ráðuneytisins hingað til og Slysavarnafélags Íslands um þessi mál. Ég held líka að það sé mjög þýðingarmikið eins og fram kom hjá 11. þm. Reykv. að við náum þessu frv. fram á Alþingi nú, það verði samþykkt og það orðið að staðreynd sem unnið hefur verið að á undanförnum árum.
    Vikið hefur verið að því að það þurfi að sjálfsögðu að tryggja að Slysavarnaskóli verði ekki staðbundinn við eitt ákveðið svæði heldur svo vítt um landið sem slysavarnasamtökin starfa. Ég er því fullkomlega sammála og veit að þannig hefur verið að hlutunum staðið af hálfu Slysavarnafélags Íslands, þannig hafa þeir viljað sinna þessu eftir því sem þeir hafa haft bolmagn til. Það kemur einmitt skýrt fram í grg. frv. á bls. 6 og ætla ég að lesa það hér upp, með leyfi forseta:
    ,,    Námskeið skólans, sem flest standa í fjóra daga, höfðu þá verið haldin víða um land, en flest um borð í Sæbjörgu í Reykjavík. Allmargar skipshafnir höfðu þá komið til Reykjavíkur og gist í Sæbjörgu.`` --- Kemur þar fram aðstaðan sem er fyrir hendi hjá Slysavarnafélaginu og hefur verið gerð af þess hálfu. Ég held áfram: ,,Mikill áhugi var á því að sigla Sæbjörgu sem víðast til námskeiðahalds, en slök fjárráð komu í veg fyrir það. Þó var siglt til Vestmannaeyja og Akureyrar 1987.``
    Það liggur því alveg ljóst fyrir hver er vilji og hver er ætlunin í þessum efnum. En það er alltaf gott að fá góðar ábendingar og þegar þetta verður rætt í samgn. þessarar hv. deildar getur það með einum eða öðrum hætti orðið til leiðbeiningar í sambandi við framgang þessa máls. En ég undirstrika stuðning og vænti þess að það takist svo gott samstarf um þetta mál að það náist fram á þessu þingi.