Lánsviðskipti
Þriðjudaginn 15. janúar 1991


     Guðmundur G. Þórarinsson :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til að þakka þingkonum Kvennalistans framlagningu þessa frv. sem að mínu viti er brýnt. Því miður er það svo að reynsla undanfarinna ára sýnir að það er alveg nauðsynlegt að fram komi frv. og sett verði lög um þau atriði sem fjallað er um hér. Auðvitað á það að vera grunnatriði að viðskiptatraust viðkomandi lántakanda sé aðalgrunnurinn að tryggingu fyrir því láni sem hann tekur. Það er ekki þannig. Ég veit ekki um neinn Íslending sem getur tekið 100 þús. kr. víxil í banka án þess að útvega einn ef ekki helst tvo ábyrgðarmenn. Þá verða menn, jafnvel þó að augljóslega séu þeir öruggir greiðendur, í fyrsta lagi að ganga fyrir sína vini eða ættingja til að fá þá til að rita sem ábyrgðaraðila á jafnvel lægstu fjárskuldbindingu. Þetta sýnir að greiðslugeta lántakandans er ekki lögð til grundvallar.
    Kannski er þetta nú minna mál en hitt að Íslendingar hafa undanfarið, og reynslan sýnir það, verið ákaflega ógætnir þegar að því kemur að skrifa upp á fjárskuldbindingar fyrir vini eða kunningja eða jafnvel ættingja. Allt of fáir gera sér grein fyrir því hvað það þýðir að skrifa upp á slíkar skuldbindingar og í allt of mörgum tilvikum hafa slíkar skuldbindingar lent á ábyrgðarmönnum sem grandalausir hafa ritað undir gífurlegar fjárskuldbindingar. Oft eru þetta ættingjar og því miður eru of mörg dæmi um það að heilu fjölskyldurnar missa sínar eignir vegna slíkra uppáskrifta. Ég held þess vegna að það sé jafnframt mjög mikilvægt í þessu frv. að lánastofnun verði, a.m.k. ef um verulegar fjárskuldbindingar er að ræða, að gera þeim grein fyrir eðli málsins sem upp á slíkar áskriftir rita.
    Það eru ótrúlegar sögur af því hvernig Íslendingar bregðast við að taka á sig ábyrgðir jafnvel vegna ókunnugra aðila. Alþingi Íslendinga er ekki rétti staðurinn til að segja slíkar sögur en ég hef heyrt svo ótrúlegar sögur að það er vart hægt að trúa þeim ef ekki lægju fyrir nokkuð öruggar sannanir. Jafnvel eru dæmi um það að maður sem gengur inn á rakarastofu til að láta klippa sig bregst við af liðlegheitum þegar annar kemur inn og finnur ekki réttan rakara til að skrifa upp á fyrir sig og skrifar upp á ábyrgðarvíxla vegna greiðslukorta eða annars slíks og lendir svo í að missa íbúðina sína á endanum fyrir allt saman. Þannig hafa Íslendingar talið það sjálfsögð liðlegheit í gegnum árin að taka á sig fjárskuldbindingar og ábyrgðir annarra án þess að gera sér nokkra grein fyrir því hvað því getur fylgt. Með tilkomu raunvaxta og lánskjaravísitölu hafa hins vegar málin snúist þannig að liðlegheitin hafa orðið martröð fyrir allt of marga.
    En ekki bara það, heldur eru dæmi um og þau of mörg að bankar og lánastofnanir hafa látið sig hafa það að láta lántakendur afla ábyrgðarmanna meðal vina sinna og kunningja á víxla sem undirritaðir eru blankó. Tryggingarvíxlar, sem ekki er nein upphæð á, heldur ótilgreind ábyrgð sem enginn veit í rauninni hvar endar. Slíkt ætti auðvitað að vera alveg gersamlega bannað og margir hafa farið flatt á slíkum undirskriftum.
    Þess er getið hér að ekki sé löggjöf um skuldabréf. Ég held að hér á landi sé mjög mikilvægt að slík löggjöf sé sett. Flestir sem undirrita skuldabréf í dag, hvort sem það er sem ábyrgðarmenn eða lántakendur, gera sér ekki grein fyrir ýmsum ákvæðum í texta slíkra skuldabréfa, t.d. því að falli ein einasta afborgun hefur lánveitandi eða eigandi skuldabréfsins í langflestum tilvikum rétt til að gjaldfella allt skuldabréfið með því sama. Ég þekki dæmi um að skuldabréf til tíu ára, sem borgað er af tvisvar til þrisvar sinnum á ári, hefur verið gjaldfellt allt við það að fyrsta eða önnur afborgun af því
gjaldfellur, fyrsta eða önnur af 30. Og það þýðir að öll skuldin til 10 ára er sett á dráttarvexti um leið. Þetta er leikur sem innheimtumenn leika mjög gjarnan því að við erum í þeirri stöðu nú að við höfum hér atvinnuinnheimtumenn sem kunna sitt fag til hlítar og hafa lært á allar þær aðferðir sem færar eru til þess að hámarka þann afrakstur sem unnt er að ná við innheimtu slíkra skulda. Það þýðir að við greiðsluþrot á jafnvel einni afborgun getur viðkomandi lent í því að vera með 10 ára lán á dráttarvöxtum í heild. Og eins og dráttarvextir hafa verið hér að undanförnu held ég að flestir geri sér grein fyrir því að ef um einhverja upphæð að ráði er að ræða, þá líður ekki langur tími þar til viðkomandi aðili á enga leið út. Svo ört hækka dráttarvextirnir.
    Ég ætla ekki að rekja þetta mál hér frekar. Það þyrfti og væri sjálfsagt hægt að fara um það miklu, miklu fleiri orðum. Fyrsti flm. flutti hér ítarlega og mjög ágæta ræðu með þessu frv. Þetta mál mun fara í nefnd. Ég mun fyrir mitt leyti leggja áherslu á að það fái hraða og vandaða afgreiðslu ef það kemur til þeirrar nefndar sem ég sit í, fjh. - og viðskn. Nd., og ég fullyrði að hér er um hið þarfasta mál að ræða og tímabært að fram komi.