Lánsviðskipti
Þriðjudaginn 15. janúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Þetta frv. sem hér er til umræðu tekur fyrst og fremst á einum þætti þessa máls, þessa flókna máls. Ég hef nú aðeins hlaupið yfir þetta frv. og 3. gr. er sú grein sem er mest afgerandi í raun og veru í þessu frv. Eftir sem áður eru leiðir til þess að fá lán með ábyrgð eða veði annarra. En það ástand sem ríkir í þjóðfélaginu nú --- höfum við ekki treyst okkur til eða haft frumkvæði á að reyna að fara með það hér inn á þing til einhverrar lausnar. Þar á ég við hvernig er farið með þetta fólk sem er komið í greiðsluvandræði sem í mörgum tilvikum getur með þá nýju veði, viðbótarveði, fengið skuldbreytingu þar sem þá er bætt við, hækkaðir vextir af þessum nýju lánum. Þetta er mest aðkallandi málið í öllu þessu kerfi.
    Ég hef verið að reyna að kynna mér hvernig þetta er erlendis og það hefur nú komið fram hér hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að ef menn búa t.d. á Norðurlöndum og fara inn í banka, þá verða menn að koma með öll spilin á borðið. Það er ekki eins og hér. Ef maður biður þar um, ja, við skulum segja bara milljón, þá meta þeir hvað menn þurfa til þess að það sé einhver von að þeir geti staðið undir greiðslunum, þ.e. það er ekki eins og hér þar sem maður fær kannski þriðjung eða í mesta lagi helming af því láni sem menn þurfa til þess að geta rekið t.d. fyrirtæki. Síðan líður stuttur tími þangað til menn komast í greiðsluþrot og þá kemur að þessu að vextirnir hækka. Það er ljótt að þurfa að segja það, en þetta er í mínum huga mafíustarfsemi. Á þessu máli þyrfti auðvitað að taka og ég er búinn að leggja mikla vinnu í það að reyna að finna leiðir út úr þessu með ýmsum mönnum en því miður hefur mér ekki tekist að ljúka því verki þannig að ég sé það að á þessu þingi verður lítil von um það hér á eftir að það nái fram að ganga. En þetta er einn þáttur í þessu máli og að einu leyti að mér sýnist fljótt á litið mikils vert að bankinn eða lánastofnunin verður að gera þeim, sem skrifa upp á eða lána veð, grein fyrir áhættunni sem þeir taka af því. Hitt þekki ég ekki. Það sem ég veit um þetta, þá held ég að ábyrgðarmanni sé alltaf gert viðvart um leið og þetta er komið í vanskil, ég veit ekki annað, þannig að menn fylgjast með því. En þegar maður skrifar upp á sem við sjálfsagt gerum að einhverju leyti öll fyrir okkar ættingja, þegar það er komið í vanskil, þá stendur oft þannig á að menn ráða ekki við það, þeir sem hafa skrifað upp á, öðruvísi en að taka þá dýr lán eða jafnvel taka við lánunum.
    Hins vegar þekki ég ekki það sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sagði hér áðan að þó að þeir gjaldfelli lánin, þá hefur a.m.k. í ríkisbönkunum alltaf verið leið til þess að semja um það að þeir taki það til baka ef það er hægt að koma málum í lag eða þá að skuldbreyta. Hins vegar er það með öll vanskil að þar eru dráttarvextir og alls konar kostnaður.
    Hér er um afskaplega alvarlegt mál að ræða. Forustumenn þjóðarinnar eru að tala um að það sé ekki hægt að ná vöxtum niður með handafli. Vextir voru

hækkaðir með handafli. Þeir voru hækkaðir með handafli bæði 1984 og 1988. Nú er verið að tala um að það sé nauðsyn að hækka raunvexti um 2 -- 3%. Þjóðfélagið sé þannig að það sé grundvöllur fyrir 2 -- 3% raunvaxtahækkun ofan á 8,2 -- 8,6% sem er í viðskiptabönkunum og auðvitað hærra annars staðar. Og ef menn þurfa að skuldbreyta, þá enn þá hærra.
    Það hringdi í mig bóndi sem er allskuldugur, sagðist hafa þurft í skuldbreytingu að skrifa undir með 10,5%. En við sem erum hér á löggjafarþinginu náum ekki saman þó við hugsum eins til þess að taka á þessari svívirðu sem viðgengst í þjóðfélaginu að þessu leyti. Við náum bara ekki saman. Það er það sem er að.
    Ég mun nú skoða þetta frv. mikið betur en mér hefur tekist, jafnvel ef ég sé mér það fært að koma með einhverjar breytingar, ef ég held að það skemmi ekki fyrir framgangi þess. Ég geri það ekki ef ég held það. En þetta er bara einn liður í þessu og það þarf að hugsa um hina.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði áðan að menn ættu að geta farið í bankana til þess að fá lán en ekki í Húsnæðisstofnun. Munurinn er sá að ef menn taka lán í Húsnæðisstofnun, þá geta þeir venjulega látið sína eign, sína íbúð að veði. En bankarnir hafa þann sið að ef það hvílir á t.d. að 60%, þá fá þeir ekki lán nema með ábyrgð eða annarri tryggingu og þetta skulum við líka hafa í huga. Bankarnir eru þannig að þeir lána til svo stutts tíma að það getur enginn staðið við það. Það er eitt. Það getur enginn staðið við það. Þannig að auðvitað ættu þeir sem sjá og skilja hvað er að gerast í þjóðfélaginu, eignatilfærsla sem er og allt þetta svínarí, auðvitað hefðu þeir átt að ná saman og reyna að gera þær ráðstafanir sem til þarf. Auðvitað er gott að flytja svona frv. En við erum nú búin að vera lengi hér. Það á ekki greiðan gang í gegnum þingið nema fleiri, helmingurinn af þingmönnum a.m.k., nái saman.