Þingsköp Alþingis
Þriðjudaginn 15. janúar 1991


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 52/1985. Við 18. gr. laganna bætist svohljóðandi málsgrein:
    ,,Ef í lagafrv. er gert ráð fyrir útgjöldum úr ríkissjóði má ekki taka það til meðferðar nema einnig sé í frv. ákvæði um samsvarandi tekjur fyrir ríkissjóð.``
    Virðulegi forseti. Þetta er að mínu mati stórmál og í rauninni eina leiðin til þess að hægt sé að ganga frá hallalausum ríkisbúskap.
    Við fáum árlega hvert erindið á fætur öðru fram hér á hv. Alþingi þar sem gert er ráð fyrir að úr ríkissjóði verði varið svo og svo miklum peningum til þess að greiða fyrir eitt og annað án þess að nokkuð sé lagt til hvar á að taka þessa peninga, hvar eigi að afla þeirra eða hvar eigi að skera niður svo að nota megi sparnaðinn.
    Þar sem stærsta verkefni Alþingis er að setja fjárlögin, þá hlýtur það að vera markmiðið að hafa fjárlögin í jafnvægi, að gjöld og tekjur standist á og ríkissjóður skili helst einhverjum afgangi til þess að mæta hugsanlegum áföllum.
    Þess vegna á þingmönnum ekki að vera heimilt að ávísa á ríkissjóð nema sýna fram á raunhæfar tekjur í staðinn og rökstyðja þær. Annars má búast við því að hallinn aukist ár frá ári uns hann vex ríkissjóði endanlega yfir höfuð.
    Á mörgum nágrannaþingum okkar eru ríkar hefðir fyrir því að þingmenn geri ekki útgjaldatillögur nema jafnframt sjái þeir fyrir tekjum á móti.
    Á Alþingi Íslendinga virðist hins vegar ríkja sama hefð með öfugum formerkjum. Hér er stöðugt ávísað á ríkissjóð án þess að gera grein fyrir hvar fjárins skuli aflað.
    Virðulegi forseti. Nái þetta frv. fram að ganga mun öll fjárlagagerð á Íslandi verða bæði ábyrg og raunhæf. Tími fjárlagahalla er þá væntanlega allur og eftirsóttur jöfnuður mun ríkja framvegis í þjóðfélaginu.