Húsnæðislánastofnanir og húsbankar
Miðvikudaginn 16. janúar 1991


     Flm. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir að taka hér til máls og lýsa sinni skoðun á því frv. sem hér hefur verið lagt fram. Það er greinilegt að hún hefur farið mjög rækilega í þetta frv. og fundið galla þess. Hins vegar hefur hún ekki fundið neina kosti sem því eru samfara annað heldur en það að hugur flm. er greinilega góður.
    En lokaorð hæstv. félmrh. voru þau að ef þetta yrði að lögum, þá værum við komin út í algjört öngstræti. Spurningin er sú hvort við séum ekki nú þegar í öngstrætinu og hvort við eigum ekki að reyna að koma okkur úr því. Það er því miður mín skoðun að við höfum ekki borið gæfu til þess á síðustu árum að rata þá leið sem okkur ber að fara í þessum málum. Við höfum eins og ævinlega þegar um vandamál er að ræða komið öllu yfir á ríkið, látið ríkið sjá um hlutina, látið ríkið sjá um það að bera kostnaðinn ef einhver er. Ég viðurkenni það fúslega að þetta hefur kostnað í för með sér fyrir þá sem ætla að njóta lánanna. Hins vegar er það líka spurning: Hver á að bera kostnaðinn? Á það að vera ríkissjóður með þeim auknu sköttum sem mundu brúa það bil eða á það að vera sá sem nýtur lánsins?
    Ég viðurkenni það fúslega að áhættan af því að húsnæðisstofnanir verði gjaldþrota eru einhverjar og áhættan af því að bréf af þessu tagi verði ekki eins auðseljanleg og ríkisskuldabréf, eins og þau eru í dag frá Húsnæðisstofnun, er líka töluverð af því að það er munur á því hvort það er ríkið sem stendur að hlutunum eða frjáls samtök. En það sem hér er verið að leggja til og það sem þetta frv. gengur út á er einmitt spurningin um það hvort það séu hinir frjálsu aðilar í þessu þjóðfélagi sem eiga að standa að húsnæðislánunum eða hvort það eigi að vera ríkið og hafa skattpeninga þjóðarinnar í veði. Það er það grundvallaratriði sem er munurinn á þessu frv. og því kerfi sem er í gildi í dag.
    Ef við förum yfir það kerfi sem nú er og það kerfi sem var og er raunar enn þá, það kerfi sem átti að leysa af hólmi, 1986 - kerfið, þá eru að sjálfsögðu ýmsir kostir í húsbréfakerfinu. Ég neita því ekki. Enda virðist húsbréfakerfið að verulegu leyti, að einhverju leyti alla vega, vera byggt á þeim hugmyndum sem þetta frv. hefur lagt til og þá sérstaklega að nota skyldi húsbréf í staðinn fyrir það lánakerfi sem var 1986, að það skyldu vera húsbréf sem væru í viðskiptum. En húsnæðismálin eru núna í þessu tvöfalda kerfi, það er bæði verið að eiga við kerfið frá 1986, það er enn þá við lýði, jafnhliða því að það er verið að nota húsbréfakerfið. Ég hef lýst yfir þeirri skoðun minni, þó ég sé þar ekki beint að túlka skoðun míns þingflokks, að það eigi að loka kerfinu frá 1986. Ég er einnig á þeirri skoðun að það eigi að hækka vextina til samræmis við það sem gengur á markaðnum. Það gengur ekki lengur að hafa þennan vaxtamun sem leiðir til enn þá verra gjaldþrots byggingarsjóðanna þegar að því kemur. Það verður að fara að taka á þessum málum með einhverjum raunhæfum hætti. Og

hugmyndin sem kemur fram í þessu frv. er einmitt að losa ríkið undan þeirri áþján sem húsnæðiskerfið er. Það á að vera nóg fyrir ríkið að hugsa um þá sem minna mega sín, þá sem eru að kaupa íbúðir í fyrsta skipti, þá sem hafa orðið undir í baráttunni, þá láglaunahópa sem þurfa aðstoð við að fá þak yfir höfuðið. En ríkið á ekki að vera að hugsa um þá sem vel geta bjargað sér sjálfir. Þeir eiga að keppa innbyrðis á þeim markaði sem er. Vanti þá lán, þá á ríkið ekki að vera að veita þeim lán með einhverjum afsláttarvöxtum. Á því er þetta frv. byggt. Það er byggt á því að þeir sem geta bjargað sér sjálfir þeir bjargi sér, en þeir sem ekki geta bjargað sér, þar komi ríkisvaldið inn og aðstoði þá við að eignast húsnæði eða fá þak yfir höfuðið.
    Þetta vildi ég segja sem svar við ræðu hæstv. félmrh. Ég ítreka það að ég þakka henni fyrir að hafa kynnt sér svona ítarlega þessar hugmyndir. Ég veit að hún er mjög opin fyrir nýjum hugmyndum í húsnæðismálum, m.a. út af því hvernig komið er í þessum málaflokki. Ég hefði kosið að fulltrúar annarra flokka, og þá sérstaklega fulltrúi Sjálfstfl. sem ég hélt að væri inni á línu af þessu tagi, hefðu komið hér upp og tjáð sínar hugmyndir í húsnæðismálum. Ég hef ekki orðið þess áskynja hvaða leið þeir ætla að fara nema þá leið að þeir vilja fela bankakerfinu að sjá um þetta. Ég veit ekki hvort þeir vilja hafa þetta undir hatti ríkisins áfram eða að einkaframtakið og verðbréfamarkaðirnir taki þarna við og sjái um að fjármagna húsnæðiskerfið. Það væri alla vega mjög fróðlegt að heyra þeirra skoðanir.