Fangelsi og fangavist
Miðvikudaginn 16. janúar 1991


     Frsm. minni hl. allshn. (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Þetta mál var til 2. umr. rétt fyrir jólahlé. Ég gerði þá grein fyrir brtt. sem eru á þskj. 387 og fluttar voru af mér ásamt hv. þm. Kristínu Einarsdóttur og Friðjóni Þórðarsyni. Ég kallaði þessar till. aftur til 3. umr. í gær þegar greidd voru atkvæði eftir 2. umr. Þegar þetta mál var til umræðu fyrir jólin voru ekki margir hv. þm. viðstaddir enda fór umræðan fram á kvöld- og næturfundi. Þar sem mér finnst um nokkur grundvallaratriði í stjórnsýslu vera að ræða verð ég að fara um þetta nokkrum orðum án þess þó að ég ætli að endurtaka ræðu mína frá því fyrir jól.
    Við endurflytjum þessar brtt. nú við 3. umr. sömu flm. og fyrr. Brtt. eru sem sagt þær sömu og fluttar voru við 2. umr. Þessar brtt. okkar fela í sér að ákvörðun um einangrun fanga eða agaviðurlög sæti ekki kæru beint til dómsmrn., eins og frv. gerir ráð fyrir, heldur verði að kæra fyrst til Fangelsismálastofnunar.
    Ég vísaði í ræðu minni fyrir jól til bréfs fangelsismálastjóra þar sem sagði, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hins vegar er í fyrirliggjandi lagafrv. gert ráð fyrir því að fangi geti skotið ákvörðun forstöðumanns fangelsis beint til dómsmrn., fram hjá Fangelsismálastofnun. Vegna þessarar málskotsleiðar vill stofnunin benda á að skv. lögum nr. 48/1988 fer Fangelsismálastofnun með daglega yfirstjórn fangelsismála, þ.e. rekstur allra ríkisfangelsanna, fullnustu refsidóma og öll mál sem varða fanga. Stofnunin leyfir sér að leggja til við hv. allsh. Nd. Alþingis að þær breytingar verði gerðar á lögum um fangelsi og fangavist nr. 48/1988 að fangi geti skotið ákvörðun forstöðumanns fangelsis fyrst til Fangelsismálastofnunar en hafi jafnframt heimild til að skjóta ákvörðun stofnunarinnar til dómsmrn. sem fer með yfirstjórn fangelsismála. Þannig gæti fangi ekki skotið ákvörðun fangelsisstjóra beint til ráðuneytisins eins og ráð er fyrir gert í fyrirliggjandi frv.
    Tillögur Fangelsismálastofnunar byggjast á því að skapa eðlilega, rétta og umfram allt hraðvirka málskotsleið vegna stöðu og verkefna stofnunarinnar í fangelsiskerfinu og að málefni er varða stofnunina berist henni fyrst. Slíkt hlýtur að teljast rétt opinber stjórnsýsla.`` Þetta var úr bréfi fangelsismálastjóra.
    Þessar brtt. okkar hníga sem sagt í þessa átt. Við viljum taka tillit til þessara ábendinga fangelsismálastjóra.
    Fangelsismálastofnun ríkisins var sett á fót með lögum nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, sem öðluðust gildi 1. jan. 1989. Þá tók Fangelsismálastofnun við verkefnum fangelsismáladeildar dómsmrn. og verkefnum Skilorðseftirlits ríkisins.
    Í 2. gr. laganna sem ég var að vitna til er kveðið á um að Fangelsismálastofnunin annist daglega yfirstjórn á rekstri fangelsa, sjái um fullnustu refsidóma, annist félagslega þjónustu við fanga og þá sem frestað er ákæru gegn, dæmdir eru skilorðsbundið, fá skilorðsbundna reynslulausn, náðun eða frestun afplánunar. Það er jafnframt hlutverk stofnunarinnar að annast eftirlit með þeim. Fleiri eru viðfangsefnin að sjálfsögðu án þess að ég ætli að telja þau hér frekar upp.
    Fangelsismálastofnun var m.a. sett á stofn til að sameina hjá einu stjórnvaldi þau mál sem áður voru í fangelsismáladeild dómsmrn. og hjá Skilorðseftirliti ríkisins. Með þessari kerfisbreytingu var komið á fót lægra settu stjórnvaldi sem ábyrgð ber á öllum þeim málum er lögum samkvæmt heyra undir stofnunina. Fangelsiskerfið er þannig byggt upp samkvæmt fangelsislöggjöfinni að forstöðumenn ríkisfangelsanna bera ábyrgð á rekstri sinna fangelsa og ákvörðunum sínum gagnvart Fangelsismálastofnun. Stofnunin skiptir sér ekki dagsdaglega af rekstri fangelsanna eða daglegum ákvörðunum forstöðumanna þeirra. Fangelsislöggjöfin sýnist byggð þannig upp að jafnmikið stjórnarfarslegt bil er á milli Fangelsismálastofnunar og hinna einstöku fangelsa annars vegar og Fangelsismálastofnunar og dómsmrn. hins vegar.
    Vegna þessa vaknar sú spurning hvaða rök séu nú til að breyta þessari kerfisuppbyggingu sem lögin settu í þá átt að ákvörðunum forstöðumanna fangelsanna verði skotið beint til dómsmrn. og fram hjá Fangelsismálastofnuninni í þeim málum sem hér um ræðir. Ég sé ekki betur en með þeim fyrirætlunum sem eru í frv., eins og það kemur frá hæstv. dómsmrh., sé beinlínis gengið gegn tilgangi laganna og uppbyggingu þeirra á fangelsismálakerfinu. Þar af leiðir, ef þetta er rétt skoðun, að með þessu móti er verið að færa hlutverk Fangelsismálastofnunar, að þessu leyti a.m.k., aftur til ráðuneytisins.
    Ég skal ekki rekja fleiri atriði af þeim sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni við 2. umr. Við þá sömu umræðu töluðu tveir hv. nefndarmenn í allshn., fulltrúar í meiri hl. nefndarinnar, gegn þessum brtt. okkar sem ég hef hér gert grein fyrir.
    Formaður nefndarinnar, hv. þm. Jón Kristjánsson, ræddi um hlutverk Fangelsismálastofnunar og vísaði til 2. gr. laganna um fangelsi og fangavist. Þau atriði hafði ég að öllu leyti rakið, en niðurstaða hans var allt önnur en mín. Hann talaði um að í þessum ákvæðum fælist leiðbeinandi hlutverk Fangelsismálastofnunar til fangelsisstjóranna, og það er vissulega alveg rétt. En Fangelsismálastofnunin rekur ekki fangelsin heldur hefur hún yfirumsjón með þeim, það eru fangelsisstjórarnir sem annast hinn daglega rekstur.
    Ég fór fram á það við 2. umr. að málið yrði tekið fyrir að nýju og kannað betur í hv. allshn. Það hefur ekki verið gert enda mátti skilja orð hv. formanns við 2. umr. þannig að þeirri beiðni væri hafnað og það hefur verið gert í verki. Það er svo sem ekkert við því að segja, formaðurinn ræður því og hefur vafalaust talað í nafni félaga sinna sem stóðu að meirihlutaálitinu.
    Hv. þm. Ingi Björn Albertsson, sem er einn af meirihlutamönnum í allshn., vísaði í sinni ræðu til umsagnar Landssambands lögreglumanna sem lýsti ánægju sinni með frv. Það var vissulega alveg réttilega vísað til bréfs Landssambands lögreglumanna. En ég bendi á að þeir taka ekkert á málskotsrétti til

Fangelsismálastofnunar og kannski ekki von vegna þess að um það var ekkert fjallað í frv.
    Umsögn Fangavarðafélagsins gerir það ekki heldur. Hv. þm. minnti á það að fulltrúi úr dómsmrn., sem kom á fund nefndarinnar, Þorsteinn A. Jónsson, hefði upplýst að þessi háttur væri viðhafður í nágrannalöndum. Ég efast ekki um að svo sé, ég hef ekki kannað það en geng út frá því sem gefnu að hann viti nákvæmlega hvernig þeim málum er háttað. Má svo sem vel vera að það þyki nógu gott að vísa til þess sem gerist hjá nágrannaþjóðum okkar þegar það hentar. En út af fyrir sig get ég vel skilið --- og reynt, skulum við segja, að setja mig í spor fulltrúa úr dómsmrn. Mér sýnist þetta benda til þess að þeir sjái eftir þessum málaflokki úr ráðuneytinu og vilji ráða yfir honum beint og milliliðalaust. Þannig var þetta áður. En ég vil að menn geri sér þá grein fyrir því, ef þeir styðja þetta frv. eins og það er og eru andvígir þeim brtt. sem ég hef talað fyrir, að þá er verið að færa þetta viðfangsefni að nokkru leyti aftur inn í ráðuneytið. Því verða menn að gera sér grein fyrir.
    Ég minntist í ræðu minni á að fulltrúi frá félagssamtökunum Vernd hefði komið til viðræðna við nefndina og hefði mælt eindregið með því að frv. yrði samþykkt eins og það er, óbreytt. Ég lét þau orð falla í minni ræðu að með fullri virðingu fyrir þeim félgasamtökum sýndist mér alveg ljóst að þau kæmu ekkert inn í ákvarðanir hinnar opinberu stjórnsýslu. Þetta var ekki sagt með neinum niðrandi orðum í garð Verndar. Þetta er líknarfélag áhugafólks og allt gott um það að segja. En það er ekki hluti af stjórnsýslunni og ber auðvitað enga ábyrgð samkvæmt lögum. Álit formanns Verndar sem kom á fund nefndarinnar var að frv. væri til bóta og um það erum við alveg sammála, allir nefndarmenn í allshn.
    Hæstv. forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta.
Ég ítreka þá skoðun okkar flm. að brtt. ber að samþykkja vegna þess að í þeim felst rétt stjórnsýsla. Og ég bið menn að hafa það sérstaklega í huga að ef þær verða felldar er verið að gera grundvallarbreytingu á lögunum um Fangelsismálastofnun.
    Það má vel vera að ástæða sé til að taka þá löggjöf til endurskoðunar. En það hefur ekkert komið fram í sambandi við flutning þessa frv. sem segir okkur að slíkt sé nauðsynlegt. Þvert á móti finnst mér skorta röksemdir fyrir því að sú leið sé farin sem gert er ráð fyrir í frv.