Fangelsi og fangavist
Miðvikudaginn 16. janúar 1991


     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég óska að taka hér stuttlega til máls við 3. umr. um þetta ágæta mál sem er breyting á lögum um fangelsi og fangavist.
    Meginmál frv. og brtt. meiri hl., sem þegar hafa verið samþykktar, er að einangrunarvist lengir ekki fangavist, að fangi á rétt á að kæra ákvörðun um einangrun og ákvörðun um önnur agaviðurlög og að tímamörk, 48 stundir, eru á afgreiðslu kæru. Berist úrskurður ekki innan þess tíma fellur ákvörðun um einangrun eða önnur agaviðurlög er um ræðir úr gildi.
    Þessar breytingar á lögunum um fangelsi og fangavist eru allar jákvæðar og það er ekki ágreiningur um þær í raun. Ágreiningurinn eins og hér hefur komið fram er um hvort kæra eigi agabrot svo sem einangrunarvist til Fangelsismálastofnunar eða dómsmrn. og um það fjalla þær tillögur sem hv. 2. þm. Reykn. mælti hér fyrir fyrir stundu. Það kom fram hjá frsm. nefndarinnar við 2. umr. að í flestum tilfellum var það skoðun umsagnaraðila að kæra skyldi til dómsmrn. Þær umsagnir skipta vissulega máli þar sem þeir sem leitað var umsagnar hjá eru þeir aðilar sem gæta hagsmuna fanga á einhvern hátt.
    Því hefur verið haldið fram að verði þessu frv. ekki breytt á þá lund sem hv. 2. þm. Reykn. hefur lagt til sé verið að færa hlut Fangelsismálastofnunar að þessu leyti aftur til dómsmrn. og þar með víkja frá annars ágætri stefnu.
    Ég vil þess vegna líta á þá fimm þætti sem tilgreindir eru í lögunum og eru höfuðviðfangsefni Fangelsismálastofnunar. Þar er alveg ljóst að verksviðið er fyrst og fremst rekstur og félagsleg þjónusta við fangelsi. Í 2. gr. í kaflanum um stjórn og skipulag segir, með leyfi forseta: ,,Starfrækja skal sérstaka stofnun, Fangelsismálastofnun, til þess`` --- og ég legg áherslu á þessa þætti --- ,,að annast daglega yfirstjórn á rekstri fangelsa; að sjá um fullnustu refsidóma; að annast eftirlit með þeim sem frestað er ákæru gegn, dæmdir eru skilorðsbundið, fá skilorðsbundna reynslulausn, náðun eða frestun afplánunar; að annast félagslega þjónustu við fanga og þá sem taldir eru upp í þriðja lið; að sjá um að í fangelsum sé veitt sérhæfð þjónusta svo sem heilbrigðisþjónusta, prestsþjónusta o.s.frv.``
    Ég get alveg fallist á að það hefði e.t.v. átt að setja tilkynningaskyldu á einhvern hátt til Fangelsismálastofnunar um þann úrskurð sem felldur væri í dómsmrn. vegna þess félagslega þáttar sem svo gaumgæfilega kemur fram hér í 2. gr. En það er ekki að mínu mati verið að ganga á einn né neinn hátt fram hjá Fangelsismálastofnun með tilliti til þessarar verkefnaskilgreiningar.
    Við skulum líta á það að fangelsisstjóri ber ábyrgð á rekstri gagnvart Fangelsismálastofnun. Dómsúrskurður á að falla eftir að fangelsisstjóri hefur fellt þann dóm að viðkomandi fangi skuli hljóta refsingu svo sem einangrunarvist. Þessum dómi fangelsisstjóra er þar með verið að vísa eða áfrýja, samkvæmt frv. og eins og það liggur fyrir, til æðsta valds, dómsmrn.,

sem á að úrskurða innan tveggja sólarhringa.
    Ég lít svo á að Fangelsismálastofnun eigi í raun að fylgjast með, hafa eftirlit með aðbúnaði fangans, líka meðan á einangrun hans stendur, en Fangelsismálastofnun eigi ekki, samkvæmt þeirri skilgreiningu sem kemur fram í 2. gr. um málefni hennar, að vera úrskurðaraðili, eigi ekki að fella dóma, það er annars stjórnvaldsstigs.
    Ég vil því láta það koma fram hér að ég tel það mjög eðlilegt að úrskurður um þetta mál komi beint frá ráðuneyti. Ég lít ekki svo á að hlutverk Fangelsismálastofnunar sé á einn eða annan hátt flutt til ráðuneytisins vegna þess, ég lít svo á að hún muni áfram sinna verkefnum sínum gagnvart viðkomandi fanga en að dómur og úrskurður eigi í raun heima annars staðar.