Fangelsi og fangavist
Miðvikudaginn 16. janúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst eðlilegt að dómsmrn. sé þarna úrskurðaraðili. Það sem kannski hefði átt að koma inn í þessa brtt. væri að Fangelsismálastofnun ætti að vera umsagnaraðili og sú umsögn ætti að berast til dómsmrh. áður en úrskurður er kveðinn upp. Það mættu vera tímamörk þar á.
    Ég veit náttúrlega ekki hvernig hefur verið unnið í nefndinni í sambandi við þetta mál en auðvitað er það alveg rétt hjá flm. brtt., hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, Kristínu Einarsdóttur og Friðjóni Þórðarsyni, að allar forsendur liggja fyrir því að fá slíka umsögn. Það er að vísu rétt að gert er ráð fyrir því að hægt sé að kæra áfram til dómsmrn., en sama er.
    Ég held að þessi breyting sé nauðsynleg. Ég vil nú skjóta því til 1. flm. brtt. hvort það væri ekki leið að fresta þessari umræðu og nefndin skoðaði hvort ekki væri hægt að komast að slíku samkomulagi. Mér finnst sú leið a.m.k. skynsamleg.
    En hæstv. dómsmrh. á sjálfsagt eftir að svara hér spurningum. Ég vil nú með allri vinsemd beina því til 1. flm. að hann láti álit sitt í ljósi hvort þetta væri a.m.k. betri leið en að brtt. yrði felld.