Fangelsi og fangavist
Miðvikudaginn 16. janúar 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Reykv. beindi til mín örstuttri fyrirspurn vegna þess máls sem hér er á dagskrá og skal ég reyna að svara henni. En áður en ég geri það langar mig til að segja aðeins örfá orð um málið í heild.
    Eins og eflaust allir vita er tilefni þessa frv. sem hér er á dagskrá ályktun umboðsmanns Alþingis um það að ákveðin atriði í löggjöf okkar stönguðust á við ákveðna grein í mannréttindasáttmála Evrópu. Ég vil í fyrstu lýsa ánægju minni með það að allir sem hér hafa um fjallað eru sammála um megintilgang frv. og meginbreytinguna sem það felur í sér.
    Einnig vil ég lýsa ánægju minni með störf allshn. Nd. Ég álít að þau hafi verið óvenjulega vönduð og nefndin hafi tekið sér góðan tíma til þess að vinna þetta verk. Hinu er hins vegar ekki að leyna að nefndin klofnaði í því atriði sem hér er sérstaklega til umfjöllunar núna, þ.e. brtt. þeirra hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, Kristínar Einarsdóttur og Friðjóns Þórðarsonar. Hv. 6. þm. Reykv. beindi til mín fyrispurn um það hvað ég teldi því til fyrirstöðu að Fangelsismálastofnun yrði þarna umsagnaraðili eða úrskurðaraðili þannig að málskotsrétturinn yrði til tveggja aðila, bæði til Fangelsismálastofnunar og dómsmrn.
    Því er til að svara að ég tel þetta ekki vera rétt, fyrst og fremst af því að ég tel að málskotsréttur til tveggja aðila í þessu efni gefi ekki sömu skilvirkni og algjör nauðsyn er í svo viðkvæmu efni sem úrskurður um agabrot í fangelsi hlýtur að vera. Það er fyrsta atriðið og meginatriðið í minni afstöðu.
    Ég hlýt líka að vísa til þess að meiri hl. allshn. og raunar aukinn meiri hl. nefndarinnar er sömu skoðunar. Einnig umsagnaraðilar sem til nefndarinnar komu, að því er mér virðist allir nema sá einn sem hér á sérstaklega hlut að máli, Fangelsismálastofnun eða fulltrúi hennar. Einnig má benda á það að starfsmenn Fangelsismálastofnunar sem slíkrar, hvort sem er forstjóri, fangelsisstjórar eða fangaverðir, eru í rauninni jafnsett stjórnvald. Það er yfirleitt meginforsenda fyrir stjórnvaldskæru að kært er til æðra stjórnvalds. En þarna er lagt til að hafa málskotsrétt til tveggja stiga og það hlýtur að flækja mál.
    Auk þess er ég líka þeirrar skoðunar að eins og brtt. er orðuð þá sé hún vart framkvæmanleg, að kæra til tveggja aðila á tveimur sólarhringum. Ég fæ í rauninni ekki skilið að það sé framkvæmanlegt eins og hér er lagt til.
    Enn fremur má benda á það að Fangelsismálastofnun er, eins og margoft hefur komið fram hér í þessum umræðum og fyrr í þessu máli, afskaplega náinn aðili þeirra starfsmanna sem þarna fjalla um, náinn samstarfsaðili þess aðila sem hefur kveðið upp þann dóm sem er til umfjöllunar og úrskurðar. Það kann vel að vera að Fangelsismálastofnun hafi þar af leiðandi verið beinn eða óbeinn þátttakandi í þeirri ákvörðun sem er að koma til úrskurðar.
Þess vegna tel ég að tímamörkin sem hér eru sett eins og samþykkt var við 2. umr., brtt. meiri hl. nefndarinnar, um tvo sólarhringa séu í rauninni lágmark en jafnframt tryggi þau tímamörk þegar úrskurðurinn er til dómsmrn. að fullnaðarafstaða náist í eins viðkvæmu máli og agaviðurlögum í fangelsi eins fljótt og ákveðið og nokkur kostur er. Þetta er meginafstaða mín í þessu máli. Ég hef borið hana undir starfsmenn í dómsmrn., sem margir eiga að baki langan starfsaldur í þessum viðkvæma málaflokki, og þar eru sömu skoðanir uppi á teningi og mér sýnist að meðal allra sem hér hafa komið að sé sama niðurstaða.