Fangelsi og fangavist
Miðvikudaginn 16. janúar 1991


     Frsm. minni hl. allshn. (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Fyrst nokkur orð í tilefni af ræðu hæstv. dómsmrh. Hann rökstuddi hér sínar skoðanir á því að þetta skyldi vera svo sem segir í frv. upphaflega og taldi í fyrsta lagi að málskotsrétturinn beint til ráðuneytisins væri hinn eini rétti skulum við segja vegna þess að eins og við leggjum þetta til gæfi ekki sömu skilvirkni í svo viðkvæmum málum og þarna er um að ræða og vísaði svo til þess að meiri hl. allshn. væri sömu skoðunar. Allt er þetta svo sem gott og blessað og bætti svo við líka að umasagnaraðilar allir nema fangelsismálastjóri væru þessarar sömu skoðunar.
    Ég hef bent á það í mínu máli að þessir umsagnaraðilar hafa í raun og veru ekkert verið spurðir um þennan málskotsrétt. Þeir hafa ekki verið spurðir hvort eðlilegt væri að skjóta málinu fyrst til Fangelsismálastofnunar. Þeir hafa verið spurðir um frv. eins og það liggur fyrir og allir eru sammála um að það sé til bóta frá því sem verið hefur, líka minni hl. í allshn.
    Hæstv. ráðherra sagði svo að málskotsréttur til tveggja dómstiga eins og hér er lagt til flækti málið. Þetta má svo sem vel vera rétt. Mér dettur í hug hvort hæstv. dómsmrh. sé að velta fyrir sér breytingum á dómaskipaninni í þá veru að við sleppum bara héraðsdómstólunum og færum með þetta beint upp í Hæstarétt. Það er miklu einfaldara. Það er kannski leið. Við skulum þá ræða það. En það er dálítið stærra mál en við erum að tala um hérna en mér sýnist þetta vera viss angi af því ef menn vilja einfalda þetta svo mjög að hafa bara eitt dómsstig og þá kannski sérstaklega í heldur viðkvæmari málum.
    Hér er vissulega um viðkvæm mál að ræða. Þetta eru jafnframt mál sem þurfa að fá skjóta afgreiðslu og þess vegna er það sem við í okkar tillögum vildum ekki lengja þann frest sem má líða þar til fullnaðarúrskurður er kominn á málið. Við erum með tvo sólarhringa alveg eins og meiri hl. allshn. leggur til tvo sólarhringa í sínum tillögum um að þetta fari beint til dómsmrn. Við höfum orð fangelsismálastjóra fyrir því að einn sólarhringur nægi honum. En það getur vel verið að dómsmrn. þurfi miklu lengri tíma, það þurfi helmingi lengri tíma en fangelsismálastjórinn. Það má vel vera. Ég veit ekki af hverju. Það bendir a.m.k. ekki til ef dómsmrn. eða starfsmenn þess þurfa helmingi lengri tíma en fangelsismálastjóri að þeir séu eitthvað hæfari til þess að úrskurða í svona máli en fangelsismálastjóri og hans starfsmenn.
    Svo kemur hæstv. ráðherra enn inn á það, sem áður hefur komið fram hér í málflutningi talsmanna meiri hl. allshn., að Fangelsismálastofnun sé of nálægt fangelsunum eða fangelsismálastjóri of nálægt fangelsisstjórunum til þess að þetta geti talist eðlileg stjórnsýsla. Ég hef rakið það, m.a. með tilvitnun í bréf fangelsismálastjóra, að Fangelsismálastofnun annast ekki daglegan rekstur fangelsanna. Það gera fangelsisstjórarnir sjálfir og bera ekki einstök mál beint undir fangelsismálastjóra. Það er ekki rétt. Fangelsismálastjóri er fangelsisstjórunum til leiðbeiningar og hann

hefur yfirumsjón með fangelsunum. Þannig er málið. En það gerir hann ekki vanhæfan til þess að úrskurða í málum sem þessum, það er aldeilis fráleitt.
    Það kemur auðvitað ekkert á óvart að starfsmenn dómsmrn. séu sömu skoðunar og hæstv. ráðherra. Það væri nú skárra ef þeir færu að standa uppi í hárinu á hæstv. ráðherra. Mér er hins vegar dálítil forvitni á að vita hvers vegna þessi breyting hefur orðið á afstöðu starfsmanna ráðuneytisins. Þegar þessi löggjöf var sett 1988 var að vísu annar ráðherra. Hæstv. núv. iðnrh., Jón Sigurðsson, var þá dómsmrh. Ég var nú ekkert að beina til hans fyrirspurnum hér áðan, enda var hann ekki viðstaddur og ég var ekkert að krefjast þess að hann kæmi og vitnaði í þessu máli. En ég neita því ekki að mér þætti afskaplega fróðlegt að heyra hans skoðanir á þessu, hvort honum þyki eðlilegt að þessi leið sé farin, sem hér er lagt til, eftir að hann beitti sér fyrir þeirri löggjöf meðan hann var dómsmrh. að flytja þessi viðfangsefni úr ráðuneytinu og til Fangelsismálastofnunar. Hvað hefur breyst? Mér þætti afskaplega verðmætt að fá að heyra álit hæstv. núv. iðnrh. og viðskrh. og fyrrv. dómsmrh. Það má vel vera að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hafi verið að kynna hans skoðanir hér áðan án þess að hún tæki það sérstaklega fram. ( RG: Þetta eru mínar skoðanir.) Já.
    Hv. þm. Stefán Valgeirsson beindi hér til mín fyrirspurn. Ég skildi fyrirspurnina þannig hvort mér þætti betra að Fangelsismálastofnun yrði umsagnaraðili í svona málum, hvort mér þætti betra að breyta frv. þannig heldur en að tillögur okkar yrðu felldar. Því er mjög fljótsvarað. Mér þætti það miklu betra. En ég stend hins vegar við þá skoðun, sem kemur fram í okkar brtt., að mér finnst eðlilegast að Fangelsismálastofnun úrskurði fyrst og hennar úrskurði sé síðan hægt að áfrýja til dómsmrn.
    Ég rakti það hér áðan að ég hefði farið fram á það við 2. umr. málsins að allshn. kæmi saman til þess að athuga þetta betur og því var í raun hafnað. Ég er enn þeirrar skoðunar að það væri gagnlegt að nefndin skoðaði þetta betur, m.a. með vísun til þess sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði. Mér finnst alveg fullkomið efni til þess að athuga málið betur. Menn hafa skipt um skoðun í þessu máli. Það hafa nefndarmenn í allshn. gert án þess að ég sé að rekja það neitt sérstaklega. Menn höfðu tjáð sig á annan veg á fyrri stigum málsins í allshn. en varð við lokaafgreiðslu málsins í nefndinni. Það kann að benda til þess að fleiri geti skipt um skoðun.