Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 16. janúar 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 82/1989, sem er 227. mál Ed. og liggur hér fyrir til umræðu á þskj. 439 eftir meðferð málsins í Ed. en þar var gerð á því smávægileg breyting.
    Hér er um að ræða breytingar á lögum um málefni aldraðra sem taka til hlutverks Framkvæmdasjóðs aldraðra. Er gert ráð fyrir að víkka nokkuð hlutverk hans með því að bæta þar við ákveðnum verkefnum.
    Einkum er hér um að ræða tvær breytingar. Sú fyrri lýtur að því að sjóðnum sé heimilt að styrkja viðhald á þeim stofnunum aldraðra sem þegar eru starfandi. Viðhald þessara stofnana getur verið geysilega fjárfrekt og þungur baggi á rekstraraðilum. Því er talið eðlilegt að opna hlutverk sjóðsins þannig að einnig megi styrkja viðhald til viðbótar við styrki til nauðsynlegra breytinga og endurbóta sem breyttir tímar valda. Í 2. tölul. 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að bæta orðinu ,,viðhald`` inn í þá upptalningu sem þar er um verkefni sem sjóðnum er heimilt að styrkja, eins og breytingar á húsnæðinu og eðlilegar, sjálfsagðar og nauðsynlegar endurbætur. Fyrir liggja nú þegar margar umsóknir hjá stjórn sjóðsins um fjárveitingu til þess að kosta viðhald á húsnæði sem þegar er í rekstri og geta þær numið jafnvel 3 -- 4 tugum milljóna. Sýnir það best hversu brýnt er að það sé heimild fyrir sjóðstjórnina að styðja þennan þátt í endurbótum og viðhaldi húsnæðisins.
    Síðari meginbreytingin er hins vegar viðbrögð við þeim vanda sem iðulega kemur upp þegar öldrunarstofnun fær starfsleyfi eða breytingu á starfsleyfi eftir að fjárlagaár hefst og ekki var gert ráð fyrir nýrri stofnun eða breytingu við fjárlagagerðina og þess vegna ekki fjárveitingar á sjúkratryggingalið Tryggingastofnunarinnar til þess að kosta þann rekstur. Með breytingu á starfsleyfi er fyrst og fremst átt við það þegar heilbrrh. heimilar að þjónustuhúsnæðisrýmum verði breytt í hjúkrunarrými vegna þungrar hjúkrunar dvalargesta á viðkomandi stofnun. Þetta hefur gert það að verkum að öldrunarstofnanir hafa ekki getað tekið til starfa eða breytt starfsemi sinni fyrr en allt að ári síðar en þörf fyrir breytinguna hefur komið fram. Núna er þetta að gerast nánast stöðugt. Við fáum slíkar umsóknir frá rekstraraðilum dvalarheimila þar sem fólk sem hefur búið þar um tíma, jafnvel áratug eða áratugi, hefur auðvitað elst og þarf á meiri umönnun að halda og þá þarf meiri þjónustu sem verður rekstraraðilum dvalarheimilisins um megn miðað við þau daggjöld sem þeim eru ætluð. Þá hefur verið óskað eftir breytingu á formi þessa reksturs úr dvalarheimili í það sem við köllum hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými sem þýðir hærri daggjöld. Heilbrigðisyfirvöld hafa þá reynt að verða við þeim óskum ef svigrúm hefur verið í fjárveitingum til að verða við slíku. Hins vegar hefur það svigrúm sem sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar hefur haft til slíkra breytinga oftar en ekki verið mjög takmarkað. Sem dæmi

um þróun í þessu efni má geta þess að á seinasta ári, árið 1990, var vistrýmum breytt og heimiluð ný starfsemi sem kostaði samtals um það bil 30 millj. kr. í auknum útgjöldum.
    Árið þar á undan, á árinu 1989, var þessi upphæð hins vegar allmiklu stærri vegna þess að þá komu inn tvær eða þrjár nýjar stofnanir með háar upphæðir. Þar ber hæst nýja deild á Skjóli, hjúkrunarheimili aldraðra hér í borg, þar sem var leyfður rekstur nýrrar 36 rúma deildar sem kostaði ein 40 millj. kr. í aukin útgjöld það ár. Samtals voru viðbótarútgjöld vegna breytinga og nýrra stofnana sem hófu rekstur á árinu 1989 105,7 millj. kr. Það sýnir að hér getur verið um að ræða mjög stórar upphæðir.
    Nú er það svo, því betur, að okkur hefur tekist að koma allvel áfram uppbyggingu á húsnæði og þjónusturými fyrir aldraða þó að vissulega sé enn brýn þörf fyrir aukið húsnæði. Til eru dæmi þess í einstökum sveitarfélögum að þörfinni sé nokkurn veginn fullnægt og meira að segja hefur það aðeins komið fyrir að legurými hefur staðið autt, að ekki hefur verið þörf fyrir það en auðvitað ekki til langs tíma. Það sýnir þó að þannig er staðan á stöku stað og ber auðvitað að fagna því að sá árangur skuli hafa náðst en enn er að sjálfsögðu þörf fyrir viðbótarhúsnæði á ýmsum svæðum, þó kannski einkum hér á höfuðborgarsvæðinu.
    Fjárveitingar sem runnið hafa í gegnum Framkvæmdasjóð aldraðra á undanförnum árum eru framreiknaðar með vísitölu nú um áramótin upp á 1,7 milljarða kr. Þar af hafa fjárveitingar til framkvæmda í Reykjavík numið um það bil 775 millj. kr. þannig að verulegar fjárveitingar hafa farið úr sjóðnum og umtalsverður hluti þeirra hér á þetta svæði, en vissulega er hér mikill fjöldi aldraðra sem þarf að sinna og veita aðstöðu. En á sama tíma gerist það hins vegar að við höfum ekki rekstrarfé til þess að kosta
þær stofnanir sem þó eru fyrir hendi. Það er auðvitað sárt til þess að vita að það skuli kannski vera 140 -- 150 rúm sem eru ónotuð í sjúkrastofnunum á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali á ári. Þá kemur auðvitað upp sú hugsun að heimila Framkvæmdasjóði aldraðra einnig að taka þátt í rekstri stofnananna, ekki aðeins að byggja þær upp, ekki aðeins að leggja styrki til framkvæmda heldur einnig leggja tímabundið fé í rekstur. Þegar hér er talað um tímabundið, eins og segir í 4. tölul. í 1. gr. frv., er átt við það, eins og hér hefur komið fram, að aðeins er um að ræða rekstrarfjárveitingu innan fjárlagaárs. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því að nýjar stofnanir eða breyttur rekstur verði kostaður á fjárlögum næsta árs, eins og lög gera ráð fyrir, í gegnum sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar og þá hættir sjóðurinn að kosta rekstur viðkomandi stofnunar en hefur þá svigrúm til að koma inn í ný mál sem kunna að koma upp á næsta ári.
    Í seinustu mgr. 1. gr. frv. er tilgreint hversu hárri upphæð af heildarráðstöfunarfé sjóðsins megi verja til þessara nýju verkefna. Það er takmarkað við að það skuli ekki fara yfir þriðjung af árlegu ráðstöfunarfé eða eins og segir þar: ,,Heimilt er að veita allt að

þriðjungi af árlegu ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs aldraðra til verkefna skv. 3., 4. og 5. tölul. 1. mgr.`` Það er rétt að geta þess að í meðförum efri deildar var 5. tölul. bætt hér inn. Í frv. eins og það var lagt fram í upphafi var aðeins talað um 3. og 4. tölul., en það má segja að eðlilegt sé að 5. tölul. sé líka bætt þarna við, þannig að það sem kosta má með þessum þriðjungi af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins séu rekstrarverkefni, þ.e. þessi nýju verkefni um tímabundið rekstrarfé svo og það hlutverk sem sjóðurinn hafði áður skv. 3. tölul. greinarinnar, að styðja sveitarfélög til að koma á fót heimaþjónustu. Þar er um að ræða rekstrarverkefni einnig, a.m.k. að hluta til, og í 5. tölul. þar sem fjallað er um önnur verkefni sem sjóðstjórn kann að ákveða og ráðherra að samþykkja. Þar hefur hingað til ekki verið um stórar upphæðir að ræða. Þar hefur fyrst og fremst verið um að ræða fjármuni til rannsókna og nefndarstarfa og annars eftirlits og hafa ekki verið stórar tölur. En þessir þrír tölul. og þau verkefni sem þar er fjallað um mega aldrei nema hærri upphæð heldur en þriðjungi af árlegu ráðstöfunarfé þannig að tryggt er að 2 / 3 hlutarnir fara til uppbyggingarverkefnanna svo og til breytinga, endurbóta og viðhalds.
    Til að gefa hv. þm. aðeins hugmynd um hvaða tölur eru hér á ferðinni á nýbyrjuðu ári þá er í nýsamþykktum fjárlögum gert ráð fyrir að til sjóðsins renni 370 millj. kr. sem er sú heildartala sem áætlað er að skattur til Framkvæmdasjóðsins gefi, svokallaður nefskattur. Áætlað er að hann gefi 370 millj. kr. í tekjur og þær renna allar til sjóðsins. 2 / 3 hlutar eru þá 240 -- 245 millj. og er það allverulega hærri upphæð sem þá mundi fara til framkvæmda en á nýliðnu ári, þ.e. árinu 1990, en þá var aðeins varið til framkvæmda í gegnum Framkvæmdasjóðinn 196 -- 197 millj. Það var vissulega vegna þess að það árið bjó sjóðurinn við skerðingu, þ.e. Framkvæmdasjóðurinn fékk ekki alla þá upphæð sem skatturinn gaf af sér og hluti skattsins rann í ríkissjóð beint. Má kannski segja að það hafi verið rökstutt á þann hátt að ríkissjóður þurfti að standa undir þessum aukna rekstrarkostnaði vegna nýrra stofnana sem ég nefndi hér áðan.
    Herra forseti. Ég vona að ég hafi gert grein fyrir því nokkuð ítarlega hvað hér er um að ræða og hvað þetta frv. í raun felur í sér og sé ástæðulaust að hafa lengri framsögu um málið enda er það þegar búið að fá umfjöllun í fyrri deild. Ég legg til, að lokinni þessari umræðu, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.