Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 16. janúar 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Herra forseti. Það er rétt að fjár er vant til þess að bæta aðstöðu aldraðra í landi okkar. Þetta frv. er að mínu viti ekki til þess og skringilegt var að heyra röksemd hv. síðasta ræðumanns sem lýsti því hver þörf væri á því að bæta aðstöðu aldraðra með því að auka byggingar fyrir aldraða en fagnaði því um leið að lagt væri fram frv. sem skerðir einmitt þá möguleika sjóðsins. Ég þykist nú vita það að það geti varla verið að þetta sé sú röksemd sem liggur til grundvallar niðurstöðum hv. fjvn. En ég veit að hv. 1. þm. Vesturl. er ötull talsmaður þessara mála innan fjvn. og þess vegna þótti mér þarna skjóta nokkuð skökku við.
    Hitt veit hann auðvitað manna best og þingmenn líka að hér er verið að skerða í raun og veru það fjármagn sem Framkvæmdasjóður aldraðra hefur til bygginga fyrir aldraða vegna þess að það skortir fé á fjárlögum til þess að hægt sé að standa almennilega undir rekstri þessara stofnana. Í öðru orðinu tala hv. þm., og flestir yfirleitt, um það hve mjög skorti stofnanir og húsnæði fyrir aldraða. Í hinu orðinu lýsa þeir því yfir að samt sé ekki hægt að reka slíkt húsnæði. Það er ekki aðlaðandi að vera aldraður við þær aðstæður. Hver einasti einstaklingur í þjóðfélaginu vonast eftir góðri aðstöðu í ellinni. Þeir sem nú eru aldraðir og þurfa að bera þunga skatta til ríkisins og til hins opinbera, reyna að útvega sér húsnæði við sitt hæfi og oft með þeim hætti að til þess að fá íbúð í hinu marglofaða þjónustuhúsnæði, þá dugir ekki að selja heilu einbýlishúsin sem margt af þessu aldraða fólki hefur komið sér upp á langri og oft og tíðum erfiðri starfsævi.
    Þess vegna þykir mér það skjóta afar skökku við að skömmum tíma eftir að sett voru ný lög um málefni aldraðra með nýjum nefskatti, sem menn bjuggust þó við að yrði í fyrsta lagi allur til þessara framkvæmda, en varð það ekki á því næsta ári á eftir, eins og hæstv. ráðherra lýsti hér áðan. Að auki var því yfir lýst af hálfu þeirrar ríkisstjórnar, sem breytti skattkerfinu á þann veg að nefskattar voru niður lagðir en fjárhæðirnar gengju inn í hina almennu skattahít, ríkissjóð, að sama fjárhæð og til þess nefskatts hefði svarað yrði látin ganga til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Þetta hefur hæstv. ríkisstjórn afnumið. Þessi fjárhæð er alls ekki inni í sjóðnum. Að réttu lagi ætti það að vera svo. Úr því að nýr nefskattur gengur til þessa málefnis, ætti jafnhá upphæð að koma úr ríkissjóði á móti, þ.e. tvöfalt hærri fjárhæð heldur en nefskatturinn gaf. Þetta hefur einnig verið afnumið og samt er lagt til að nýjum böggum skuli á sjóðinn bætt. Þar með verður minna fé til ráðstöfunar til hinna brýnu framkvæmda sem felast í auknu þjónustuhúsnæði eða hjúkrunarrými fyrir aldraða eða annarra þeirra verkefna sem áður hafði þegar verið samþykkt að Framkvæmdasjóðurinn skyldi hafa með höndum. Þegar ég tala um verkefni Framkvæmdasjóðs aldraðra get ég ekki varist þeirri hugsun að það er heldur dapurlegt að horfa upp á hvernig upphaflegt verkefni þessa sjóðs hefur smátt og smátt í raun og veru breyst og

orðið til þess að það sem var driffjöðrin til að byrja með er horfið úr þessu fyrirtæki sem er Framkvæmdasjóður aldraðra.
    Forveri þessa sjóðs hét Byggingarsjóður aldraðra. Hann var settur á stofn á sínum tíma til þess að auðvelda öldruðum einstaklingum að koma upp yfir sig hentugu húsnæði með aðstoð þessa sjóðs á þann veg að unnt væri að létta á stofnunum, á þann veg að unnt væri að gera einstaklingum kleift að búa lengur í eigin húsnæði, hentugu húsnæði með aukinni heimaþjónustu, eins og vissulega hefur verið komið á í mörgum sveitarfélögum og er verið að bæta sífellt, en þetta verkefni vantar í upptalninguna um hlutverk sjóðsins. Framkvæmdir þessa sjóðs miða fyrst og fremst við stofnanalausnina.
    Ég dreg ekkert úr því að það er líka mjög brýn þörf fyrir stofnanalausnina og einkanlega fyrir hjúkrunarrými. Ég veit að það þarf ekki að fjölyrða um það efni og það er ekki einungis hjúkrunarrými og breytingar eða bygging húsnæðis og ekki einungis rekstrarfé í venjulegum skilningi sem oft er takmarkað. Það er líka hreinlega fólksekla, það er skortur á fólki til að vinna hjúkrunar - og umönnunarstörfin á þessum stofnunum. Það er mjög alvarlegt úrlausnarefni sem ég vildi gjarnan sjá að meiri áhersla væri lögð á. Mér er ljóst að þetta frv. fjallar ekki um það, en það tengist því óneitanlega. Ég nefni það atriði ekki sem gagnrýnisatriði á þetta frv. heldur eru efasemdir mínar um þetta frv. fólgnar í því að þarna erum við að létta af Tryggingastofnun og ríkissjóði vissri skyldu með því að bæta henni á sjóð sem þegar hefur fullt fangið af verkefnum sem bíða víða um land óleyst í þágu aldraðra. Mér þykir slík lausn
ekki vera ákaflega viturleg. Það eru til ýmsar líkingar í daglegu máli og íslenskum orðtökum um það hvað svona athæfi heitir. Ég vek athygli á því en mun ekki telja upp þær líkingar, ég veit að hæstv. ráðherra skilur mætavel hvað ég á við enda grunar mig að hann hugsi á þennan veg sjálfur og hafi neyðst til þess, vegna þrýstings frá starfsbróður sínum, hæstv. fjmrh., að flytja þetta frv. Við skulum heldur reyna að styðja hæstv. ráðherra í því að fara eðlilegar leiðir til þess að afla rekstrarfjár fyrir þær stofnanir sem þegar eru komnar upp og við skulum styðja hæstv. ráðherra í því að koma því fyrirkomulagi á sem lofað var, að því sem svarar til þess nefskatts sem með vissum hætti var rænt úr Framkvæmdasjóðinum og lagður í ríkissjóð verði skilað Framkvæmdasjóði aldraðra aftur. Við skuldum öldruðum þá fjárhæð.
    Að því er varðar 2. gr. frv. virðist mér þar vera í raun og veru meiri breyting en gefið er í skyn í grg. frv. Ég hef ekki sjálf lögin fyrir framan mig en ég man ekki betur en 2. mgr. 19. gr. sé um það að mat á vistunarþörf til langframa skuli vera að jafnaði í höndum þjónustuhóps aldraðra. Mat á vistunarþörf er hins vegar látið opið og er þá væntanlega í höndum stjórnenda hverrar stofnunar fyrir sig. Ég minnist þess í umræðum um lögin á sínum tíma að menn töldu að þarna væri um hlut að ræða sem e.t.v. yrði býsna þungur í vöfum ef vista þyrfti gamalmenni um einhvern tíma á dvalarstofnun og matið á því þyrfti að fara fyrir einhvern úrskurðaraðila utan þeirrar stofnunar. Það verður að sjálfsögðu athugað í nefndinni og ég mun ekki fara frekari orðum um það. En ég vek athygli á því að með þessu frv. er verið að skerða það fé sem Alþingi hefur samþykkt að veita til framkvæmda fyrir aldraða.