Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 16. janúar 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Herra forseti. Aðeins fyrst út af því sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl. Það er auðvitað rétt að hér er verið að breyta áherslum í sjóðnum, það er verið að leggja nýjar áherslur, það er verið að útdeila fjármunum til annarra hluta en áður var gert ráð fyrir. En ég minni á það aftur að ég hygg að það hafi ekki aðeins verið á seinasta ári sem fjárveitingar til sjóðsins voru skertar með lánsfjárlögum þannig að hann fékk ekki sinn tekjustofn að fullu heldur hafi það gerst áður. Þó ég hafi það ekki skjalfest fyrir framan mig þá er það því miður reynslan með svo marga markaða tekjustofna að þannig hefur farið og það fjármagn sem hefur átt að renna til hinna ýmsu verkefna hefur runnið beint í ríkissjóð. Í þessu tilviki hafa þeir fjármunir sem fóru í ríkissjóð af skattpeningunum sem áttu að renna í Framkvæmdasjóð aldraðra auðvitað á einn eða annan hátt runnið til rekstrarverkefna og þá má auðvitað segja þar með talið til hinna gífurlega stóru og kostnaðarsömu verkefna sem sjúkratryggingadeildin stendur undir á hverjum tíma. En þetta er nú kannski frekar aðferðafræði en að beinlínis sé verið að segja að þessi krónan lendi í þennan farveg en ekki einhvern annan. Ég lagði þess vegna mikla áherslu á það að sjóðurinn fengi alla þá fjármuni sem honum ber samkvæmt þeim skatti sem lagður er á sem sérstakur nefskattur. Ég tek undir með báðum þingmönnum sem tjáð hafa sig um málið að um slíkt hljótum við að gera kröfu, annað er algjörlega óeðlilegt. Ég hef hins vegar fallist á það, og geri það af fúsum og frjálsum vilja af því að ég tel að það sé eðlilegt, að sjóðurinn hafi möguleika á að kosta að hluta til rekstrarverkefni tímabundið og reyndar í mjög smáum stíl. Þó ég hafi nefnt hér tölur sem jafnvel skipta hundruðum milljóna þá er það þó ekki nema brot af þeim kostnaði sem er við að reka stofnanir aldraðra, hvort heldur það eru dvalarheimili eða hjúkrunarheimili.
    Ég get líka tekið undir það með hv. 1. þm. Vesturl. að það er út af fyrir sig ekki góður kostur að breyta dvalarheimilum sem byggð eru í þeim tilgangi og með það hlutverk að vera íbúðir og heimili aldraðra í hjúkrunarheimili vegna þess að oftar en ekki þá hentar það húsnæði ekki vel, eða a.m.k. þarf oft að breyta því eða gera á því lagfæringar til að það henti sem hjúkrunarheimili. Það þarf öðruvísi búnað, það þarf öðruvísi rúm, það þarf að breyta dyrabúnaði og þá nýtist ekki sumt af því sem byggt hefur verið inn í dvalarheimilið eins og t.d. litlar eldhúsinnréttingar eða eldunaraðstaða og fleira og fleira sem mætti upp telja. Þetta er því auðvitað ekki góður kostur en þetta hefur þó í mjög mörgum tilfellum ekki bara leyst rekstrarvanda þeirra aðila sem sjá um rekstur dvalarheimilanna eða bera ábyrgð á honum, annaðhvort sjálfseignarstofnanir eða sveitarfélög, heldur einnig leyst vanda þeirra einstaklinga sem þarna dveljast því þeir hafa ekki átt auðveldlega í önnur hús að venda, a.m.k. ekki þeir sem búið hafa og búa á smærri stöðum úti um land þar sem sjúkrahús eru ekki til staðar og þyrftu þá að flytjast milli héraða, jafnvel landshluta, til þess að fá þessa þjónustu. En með því að breyta dvalarheimilunum í hjúkrunarheimili, þó það kosti nokkuð því viðkomandi húsnæði er ekki byggt í þeim tilgangi, þá hefur það þó leyst þennan vanda fyrir viðkomandi einstakling og það tel ég að sé mjög mikilvægt. Þess vegna hefur heilbrrn. aftur og aftur fallist á þessa málsmeðferð.
    Síðan kom það aftur fram í máli hv. 3. þm. Reykv. að hér væri í raun áfram verið að skerða sjóðinn. Það er auðvitað eins og ég sagði áðan verið að breyta verkefnum hans og ég reyni ekki að draga dul á það, það liggur auðvitað ljóst fyrir. Þessar 370 millj. kr. sem nú eru í sjóðnum fara ekki, ef frv. þetta verður að lögum, til uppbyggingar, til framkvæmda. Samkvæmt þessu fer hluti af upphæðinni, allt að 1 / 3 eins og hér segir, til ýmissa rekstrarverkefna. Það má auðvitað segja að þar með séu skertir möguleikar sjóðsins til þess að halda áfram að styðja og styrkja uppbyggingu og framkvæmdir. En möguleikar hans eru þó ekki skertir miðað við það sem reynslan segir okkur að hafi verið, heldur þvert á móti. Nú er úr sjóðnum varið hærri upphæð til framkvæmda, þó ekki yrði nema um þessar 240 -- 250 millj. að ræða, þ.e. 2 / 3 hluta af ráðstöfunarfé sjóðsins, þá er það hærra en reynslan segir okkur að hafi verið á undanförnum árum.
    Ég trúi því nú vart að hv. þm. meini það þegar hann segir að það sé ekki aðlaðandi að verða aldraður því aðstæðurnar séu þannig. Staðreyndin er auðvitað sú að okkur hefur tekist á undanförnum árum að gera stórkostlega hluti. Ég vil nú leyfa mér að segja að það eigi við í nánast öllum tilfellum þó ég verði að viðurkenna að á því eru auðvitað til undantekningar, eins og kannski á öllum reglum. Svo ég vitni nú líka til orðtaka eins og hv. þm. ýjaði að, þá segir einhvers staðar að undantekningarnar séu til að sanna regluna, og þó reglan sé sú að aldraðir fái í öllum tilfellum þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda og þeim ber, þá er auðvitað aðeins til tímabundið að við höfum horft upp á erfiðar aðstæður. Það er stundum erfitt að koma öldruðu fólki til vistunar á stofnunum þar sem það þarf nauðsynlega að vera og þó sérstaklega ef hagir viðkomandi einstaklings eru þannig þeir búa einir eða að aðstandendur eða aðrir sem næst standa geta ekki lengur veitt nauðsynlega þjónustu.
    Í sambandi við það vil ég minna á tvennt. Annars vegar á það að við verðum auðvitað að leggja niður fyrir okkur hverjar áherslurnar eiga að vera, hvernig við ætlum að forgangsraða þessum mikilvægu verkefnum öllum sem eru í heilbrigðisþjónustunni og verða sífellt, við skulum segja í raun, þyngri og þyngri eða verða stærri og stærri hluti af okkar ríkisútgjöldum, gætu orðið það ef allt væri látið laust og ekki væri reynt að leggja mikla áherslu á hagræðingu og forgangsröðun vegna þess að möguleikarnir aukast stöðugt. Við fáum sífellt nýjan búnað, ný lyf. Ný meðferð, ný þekking gefur nýja möguleika og allt hefur þetta í för með sér aukinn kostnað. Þá þurfum við auðvitað að horfast í augu við þann vanda sem þessu fylgir. Á þetta hafa ágætir fulltrúar úr heilbrigðisstéttum bent ítrekað, ekki síst í töluverðri umfjöllun um heilbrigðismál sem átti sér stað í blöðum og fjölmiðlum rétt fyrir jólin og ég hef m.a. leyft mér að vitna til í ræðum í hv. Alþingi en ætla ekki að endurtaka hér og nú. Þetta minnir á það að við þurfum að horfast í augu við þær staðreyndir og það sem þar blasir við fram undan. En ég tek undir það með hv. 3. þm. Reykv. að við verðum að leggja áherslu á þjónustuna við hinn aldraða, aldraðir eiga það sannarlega skilið.
    Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna í sambandi við rekstur er að við gerum hér ráð fyrir því að Framkvæmdasjóðurinn hafi möguleika á að styrkja heimahjúkrun. Það er reyndar ekki nýtt verkefni hjá sjóðnum, það er í lögunum eins og þau eru nú. Þar tel ég einnig að sé verið að mæta því að hluta til að draga úr þörf á uppbyggingu og þörf á stofnunum. Þar sýnist mér að sé um að ræða mikilvægan þátt og við ættum að huga að því hvernig sjóðurinn gæti aðstoðað sveitarfélögin við að reka þessa heimaþjónustu. Auðvitað er þetta skipt verkefni, þetta er að hluta til verkefni sveitarfélaga, það sem við venjulega köllum heimilishjálp, en sá þáttur heimaþjónustunnar sem kallaður er í daglegu tali heimahjúkrun er hins vegar verkefni ríkisins eða heilsugæslunnar. Þarna getur sjóðurinn komið til hjálpar báðum aðilum eða verkefninu í heild.
    Hv. þm. nefndi að hér hefðu áherslur breyst og væri nú eingöngu miðað við stofnanalausnina og áherslur sjóðsins væru mest á því sviði. Það er vissulega rétt að sú áhersla hefur aukist. Gert er ráð fyrir því að Framkvæmdasjóðurinn styrki hjúkrunarrýmið sem er hið dýrasta. Dýrasta uppbyggingin er uppbygging hjúkrunarrýmis og þar er sjóðurinn með sínar áherslur. En að hluta til koma framlög einnig úr ríkissjóði. Þetta er sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga þannig að ríkið greiðir 85% af uppbyggingarkostnaði, sveitarfélögin greiða 15% af kostnaðinum. Þessi 85% sem ríkið kostar skiptast síðan á milli Framkvæmdasjóðsins og beinna framlaga af fjárlögum.
    Þar að auki hefur sjóðurinn einnig heimild til þess að styrkja byggingu þjónustumiðstöðva, þjónustuhúsnæðis fyrir aldraða og dagvista sem hinir öldruðu, sem þó búa enn í eigin húsnæði, þurfa á að halda. Síðan eru heimildir til lánveitinga frá Húsnæðisstofnun ríkisins til þeirra einstaklinga sem vilja byggja sér þjónustuhúsnæði og byggja í slíkum íbúðarkjarna eða kjörnum sem nú eru mjög algengir og færast í vöxt. Ég tel að það sé reyndar líka hin rétta áhersla, þ.e. að einstaklingarnir búi sem lengst í eigin íbúðum ef þess er nokkur kostur en fái þjónustu sem þeir þurfa á að halda, fyrst heimaþjónustuna, síðan þjónustu í þjónustumiðstöðvum sem eru þá gjarnan reistar í tengslum við þessar þjónustuíbúðir.
    Herra forseti. Ég hef nú talað lengra mál en ég ætlaði mér en vildi þó árétta það sem ég sagði áður í tengslum við það sem kom fram hjá þessum hv. tveim þm.
    Og að lokum út af því sem hv. 3. þm. Reykv.

benti á varðandi 2. gr. frv. um að mat á vistunarþörf skuli að jafnaði vera í höndum þjónustuhóps aldraðra þá er sagt frá því í greinargerð að hér sé nánast um leiðréttingu að ræða frá því að þessi lög voru seinast til meðferðar á hv. Alþingi. En ég tek undir það með hv. þm. að það er að sjálfsögðu rétt að skoða þetta nánar í nefndinni. Ég hef ekki lögin fyrir framan mig þannig að ég þori ekki að tjá mig nákvæmlega um þessa brtt. en treysti því að nefndin skoði það mál nánar.