Landafundir Leifs Eiríkssonar í Vesturheimi
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson) :
    Hæstv. forseti. Tilefni þessarar fsp. er fréttatilkynning frá utanrrn. um kynningarátak til að minnast landafunda Leifs Eiríkssonar í Vesturheimi, en fsp. er beint til forsrh., með því að hér er ekki um að ræða utanríkismál heldur eina af hugstæðustu minningum í þjóðarsögu Íslendinga.
    Í fréttatilkynningunni segir að íslensk og norsk yfirvöld sem og einkaaðilar muni á næstu árum standa að kynningarátaki til að minnast landafunda Leifs Eiríkssonar í Vesturheimi. Hér er ekki um neitt smámál að ræða. Talað er um átak sem standa á yfir á næstu árum. Þetta vekur ýmsar spurningar. Er hér um að ræða samfelldar aðgerðir og undanfara hátíðahalda sem ætlað er að ná hámarki sínu á 1000 ára afmæli landafunda Leifs heppna árið 2000.
    Hvaða fyrirætlanir hafa verið ákveðnar í þessu efni? Hverjir hafa haft frumkvæði í máli þessu, Íslendingar eða Norðmenn? Hvað hafa íslensk stjórnvöld gert af sinni hálfu? Hver er sá hlutur sem einkaaðilum er ætlaður í því sem hér um ræðir? Ég leita eftir svörum við þvílíkum spurningum í fyrri tölul. fsp. minnar en þar segir:
    ,,Hvaða áform hafa íslensk yfirvöld nú uppi um að minnast landafunda Leifs Eiríkssonar í Vesturheimi?``
    Í umræddri fréttatilkynningu frá utanrrn. segir enn fremur að Norðmenn muni sigla eftirlíkingu af Gauksstaðaskipinu á næsta sumri og muni ferðinni ljúka í Washington á minningardegi Leifs heppna, 9. okt. Í áhöfn skipsins verði nokkrir Íslendingar.
    Þessi frétt vekur til umhugsunar. Hvað er hér á ferðinni? Er hér um að ræða lið í viðloðandi og þrálátri áráttu Norðmanna að tileinka sér Íslendinginn Leif heppna og afrek hans með sögufölsunum um þjóðerni hans? Hvaða hlutverki hafa Íslendingar að gegna í slíku slagtogi? Í tilefni af þessu hljóðar síðari tölul. fsp. minnar svo:
    ,,Geta íslensk stjórnvöld átt hlut að kynningarátaki Norðmanna um Íslendinginn Leif Eiríksson nema staðinn sé vörður um óskipta arfleifð íslensku þjóðarinnar og fullur sómi sé sýndur sögulegum staðreyndum sem greyptar eru í þjóðarsögu og þjóðarvitund um heimssögulegt afrek Leifs heppna?``